Skip to main content

Frægðarför Fálkanna

Soffía Björg Sveinsdóttir, M.Ed. frá Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild

„Rannsóknin snerist um kanadíska íshokkíliðið Fálkana en liðið var nær eingöngu skipað Vestur- Íslendingum af annarri kynslóð. Í rannsókninni velti ég fyrir mér ástæðum þess að liðið náði jafnlangt og raunin varð en það vann gull á Ólympíuleikunum árið 1920,“ segir Soffía Björg Sveinsdóttir, sem lauk meistaranámi í íþrótta- og heilsufræði vorið 2012.

Soffía Björg Sveinsdóttir

„Rannsóknin snerist um kanadíska íshokkíliðið Fálkana en liðið var nær eingöngu skipað Vestur- Íslendingum af annarri kynslóð. Í rannsókninni velti ég fyrir mér ástæðum þess að liðið náði jafnlangt og raunin varð en það vann gull á Ólympíuleikunum árið 1920.“

Soffía Björg Sveinsdóttir

Áhugi Soffíu Bjargar á verkinu kviknaði þegar hún las sögu Fálkanna sér til fróðleiks og skemmtunar og heillaðist algjörlega af henni. Það vakti aðdáun hennar hversu góðar fyrirmyndir liðsmennirnir gætu verið íþróttafólki í dag. Þeir voru hógværir, þekktir fyrir að leika drengilega og reglusamir. Hún telur lið Fálkanna gefa gott dæmi um mikilvægi samheldni í hópíþróttum.

„Mig langaði einfaldlega til þess að kynna mér efnið betur. Mér finnst saga Fálkanna stór- merkileg og ótrúlegt hversu ókunn hún er íslensku þjóðinni. Þetta er saga af merkilegum sigri þrátt fyrir mótlæti og leikmennirnir virðast hafa verið afar samheldinn hópur og gæddir mikilvægum eiginleikum, bæði andlega og líkamlega,“ segir Soffía Björg.

Niðurstöður Soffíu Bjargar liggja fyrir og eru þær margþættar. Einna helst vildi hún nefna samheldni liðsins og hversu mikilvæg hún var, sem og hollustu liðsmanna, þjálfara og ráðamanna við liðið. Þjálfarinn náði að nýta hæfileika hvers og eins til hins ítrasta. Allir höfðu sitt sérhæfða og jafn mikilvæga hlutverk innan vallarins. „Það var talað um að liðið væri eins og vel smurð vél,“ segir hún.

Soffía Björg segir margt hægt að læra af sögu Fálkanna, m.a. að fámenn samfélög geti náð árangri í afreksíþróttum og að samheldni og hollusta sé mjög mikilvæg innan íþróttaliða. „Einnig fannst mér mikilvægt að sagan félli ekki í gleymsku og ég hafði ánægju af því að glæða hana lífi,“ segir hún að lokum.

Leiðbeinandi: Guðmundur Sæmundsson, aðjunkt við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild.