Forspárþættir sjúkdóma | Háskóli Íslands Skip to main content

Forspárþættir sjúkdóma

Ingibjörg Kjartansdóttir, doktorsnemi við Læknadeild

Vitað er að sykursýki, hár blóðþrýstingur, offita, hreyfingarleysi og fleiri þættir hafa vond áhrif á hjarta- og æðakerfið og auka líkurnar á æðakölkun. Ingibjörg Kjartansdóttir, doktorsnemi í líf- og læknavísindum, fjallar um forspár- og áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma hjá unglingum og fram til snemm-fullorðinsára í doktorsverkefni sínu.

Að sögn Ingibjargar hafa þessir þættir verið rannsakaðir hjá fullorðnum og í nokkrum mæli hjá börnum en rannsóknir á unglingum og fram til fullorðinsára eru afar fáar. ,,Á þessu aldursskeiði verða oft breytingar á lífsstíl og kyrrseta eykst. Því fylgir jafnan aukin söfnun líkamsfitu sem getur haft neikvæð áhrif á efnaskipti og aukið hættu á hjarta- og æðasjúkdómum,” segir Ingibjörg.

Ingibjörg Kjartansdóttir

Ingibjörg fjallar um forspár- og áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma hjá unglingum og fram til snemm-fullorðinsára í doktorsverkefni sínu.

Ingibjörg Kjartansdóttir

„Á undanförnum áratugum hefur tíðni offitu hjá íslenskum börnum og unglingum vaxið þó svo að úr því hafi dregið hin síðari ár. Þessu er hins vegar ekki svo farið á alþjóðavísu. Unglingsárin eru hentugur tími til að rannsaka forspár- og áhættuþætti lífsstílstengdra sjúkdóma þar sem áhættuþættirnir og sjúkdómar eru að miklu leyti aðskilin. Betri þekking á samspili þessara þátta hjá unglingum kemur til góða við inngrip og forvarnir gegn lífsstílstengdum sjúkdómum,” segir Ingibjörg enn fremur.

Rannsóknin hófst árið 2010 og náði til 16 ára framhaldsskólanema. Um 430 þátttakendur eru í rannsókninni og hefur þeim verið fylgt eftir í fjögur ár. Gögnum hefur verið safnað saman um holdafar, líkamsþrek og blóðgildi auk ítarlegra upplýsinga um næringu, hreyfingu og lífsstíl. ,,Nú er að hefjast síðasta rannsóknarlotan en bætt var við ómun á slagæðum og hjarta,” segir Ingbjörg og bætir við: „Gagnasöfnun er í fullum gangi og engar niðurstöður hafa verið birtar. Við erum þakklát skólunum og krökkunum sem hafa tekið þátt í rannsókninni fyrir gott samstarf og vonumst til að niðurstöðurnar auki skilning á samspili lífsstíls og sjúkdóma.”

Leiðbeinandi: Ragnar Bjarnason, prófessor við Læknadeild.

Netspjall