Skip to main content

Fjarlægð frá miðborg ræður fasteignaverðinu

Kári Auðun Þorsteinsson, MS frá Hagfræðideild

„Fermetraverð fasteigna í Reykjavík lækkaði árið 2013 um 14.909 kr. fyrir hvern kílómetra sem farið var fjær miðbænum,“ segir Kári Auðun Þorsteinsson, sem lauk MS-prófi í fjármálahagfræði haustið 2014, en í lokaverkefni sínu rannsakaði hann hvenær fjarlægð frá miðborg fór að hafa áhrif á fasteignaverð. Þessi fjarlægðaráhrif voru ekki til staðar á árunum 1981-1996 en hafa verið marktæk síðan.

Kári segir fasteignaverð ávallt í umræðunni, hvort heldur sem fasteignaverð hækkar í fasteignabólum eða lækkar í frosti á fasteignamarkaði. „Breytingar á verðmæti fasteigna með tilliti til staðsetningar voru órannsakaðar og því þótti mér tilvalið að taka það að mér.“

Kári Auðun Þorsteinsson

Kári segir fasteignaverð ávallt í umræðunni, hvort heldur sem fasteignaverð hækkar í fasteignabólum eða lækkar í frosti á fasteignamarkaði.

Kári Auðun Þorsteinsson

Kári segir að ferðakostnaður og vextir skýri verðmun á milli svæða borgarinnar. Ferða- kostnaðurinn skiptist í tvennt; annars vegar beinan ferðakostnað eins og bensín og hins vegar fórnarkostnað launa. Þannig ættu hækkandi laun og hærra bensínverð að auka ferðakostnaðinn og öfugt. „Ef þú ert aukahálftíma í bílnum á hverjum degi að keyra til og frá vinnu þá er hægt að setja verðmiða á þann tíma. Segjum að það kosti þig 500 þúsund krónum meira á ári að sækja vinnu úr úthverfi en úr miðbænum, þá þýðir það að þú getur borgað 500 þúsund krónum meira á ári í afborganir af húsnæði í miðbænum. Vextir segja svo til um það af hversu háu láni 500 þúsund krónurnar geta greitt,“ útskýrir hann.

Kári spáir því að ef forsendur aðalskipulags Reykjavíkurborgar um eflingu almenningssamgangna og hjólreiða á kostnað einkabílsins gangi eftir þá muni fermetraverð árið 2030 lækka um tæpar 15 þúsund krónur við hvern kílómetra frá miðbæ. Ef ekki tekst að breyta ferðavenjum gæti fermetraverð hins vegar lækkað um rúmar 17 þúsund krónur á hvern kílómetra vegna þyngri umferðar og hærri ferðakostnaðar.

Leiðbeinandi: Ásgeir Jónsson, dósent við Hagfræðideild.