Markmið Í náminu er lögð áhersla á að nemendur öðlist fræðilegan grunn á sviði nýsköpunar- og frumkvöðlafræða en fari einnig í gegnum verklega þætti nýsköpunarferlisins, allt frá hugmyndasmíð, að þróun viðskiptalíkans og framkvæmd. Nemendur í náminu munu vinna náið með nemendum úr öðrum deildum Háskólans (sjá „Kjarni í nýsköpun og viðskiptaþróun“ hér að neðan). Námið hentar bæði fyrir einstaklinga með grunnnám úr félagsvísindum sem vilja styrkja færni sína í nýsköpun og viðskiptaþróun og fyrir einstaklinga með menntun á öðrum sviðum sem vilja styrkja þekkingu á viðskiptafræði og vöruþróun með það að markmiði að stunda nýsköpun eða frumkvöðlastarf á sínu sérsviði. Undirstaða kjarnans er námskeið um framkvæmd nýsköpunar sem nær yfir tvö misseri. Þar takast nemendur úr Viðskiptafræðideild og nemendur úr öðrum deildum saman á við þær áskoranir sem felast í nýsköpun, afurðaþróun og nýtingu viðskiptatækifæra. Nemendur vinna saman að umfangsmiklu verkefni sem felur í sér afurðaþróun byggða á sérþekkingu þar sem viðskiptalegar forsendur tækifærisins eru í forgrunni. Umsóknir og fjöldatakmörkun Aðeins er hægt að taka takmarkaðan fjölda nemenda inn í námsleiðina vegna fjöldatakmörkunar í sum skyldunámskeið. Við val á nemendum er horft til inntökuskilyrða þeirra sem farið er yfir í tilsvarandi kafla hér að neðan. Til að hægt sé að fjalla um umsóknina á fullnægjandi hátt er mikilvægt að henni fylgi eftirfarandi gögn: Greinargerð um bakgrunn, áhugasvið, forsendur og væntingar Hér er tækifæri til að koma á framfæri upplýsingum um reynslu nemandans, ástæðuna fyrir því að nemandinn hefur áhuga á þessari námsleið, væntingar til námsins og hvernig nemandinn telur að námið muni nýtast í framtíðinni Gert er ráð fyrir um það bil 200-400 orðum, eða hálfri til einni blaðsíðu Ferilskrá með upplýsingum um fyrri störf og aðra reynslu Námsferilsyfirlit með námskeiðum og einkunnum Staðfest afrit námsferilsyfirlits er skilyrði áður en einstaklingar eru skráðir í námið, en til að flýta fyrir afgreiðslu óskum við einnig eftir að umsækjendur sendi skannað afrit eða ljósmynd af námsferilsyfirliti með umsókn Vinsamlegast skilið gögnunum sem viðhengi við umsóknina á PDF formi. Námskröfur Nemendur þurfa samtals að ljúka námskeiðum að lágmarki 90 e. (12 námskeið) og skila MS ritgerð að lágmarki 30 e. til þess að ljúka meistaranámi í nýsköpun og viðskiptaþróun. Að auki þurfa þeir sem ekki hafa BS/BA próf í viðskipta- eða hagfræði að ljúka námskeiðinu Inngangur að rekstri. ATH: Námskeið við Viðskiptafræðideild eru alla jafna 7,5 einingar. Um kjarna í nýsköpun og viðskiptaþróun Ástæða er til að vekja athygli á muninum á námsleið til MS náms í nýsköpun og viðskiptaþróun hjá Viðskiptafræðideild og kjarnanámskeiðum í nýsköpun og viðskiptaþróun. Námsleiðin er ein af ellefu námsleiðum í meistaranámi við Viðskiptafræðideild. Námsleiðin er hýst og á ábyrgð Viðskiptafræðideildar. Kjarninn samanstendur af námskeiðum í Viðskiptafræðideild og Verkfræði- og náttúruvísindasviði og þessar tvær skipulagseiningar hafa í sameiningu umsjón með kjarnanum og uppbyggingu hans. Nemendur í námsleiðinni taka bæði námskeið úr kjarnanum og önnur námskeið. Í þeim námskeiðum sem eru í kjarnanum sitja bæði nemendur úr námsleiðinni og nemendur úr öðrum deildum. Spurt og svarað Hver eru markmið námsins og hvað er gert ráð fyrir að nemendur geri í framhaldi af því? Námið miðar að því að nemendur séu færir um að vinna að nýsköpun í fjölbreyttu samhengi, hvort sem það er með stofnun eigin fyrirtækja, störfum innan sprota- eða vaxtarfyrirtækja, eða við viðskiptaþróun stærri fyrirtækja. Á hvaða hugmyndafræði byggir námið? Námið byggir á þeim grunni sem er til staðar í rannsóknum og námsframboði. Meðal annars er byggt á Lean aðferðafræði, rannsóknum og fræðum varðandi nýsköpun, og svo reynslu háskóla erlendis af kennslu og rannsóknum í nýsköpun og frumkvöðlafræðum. Lögð er áhersla á að tengja saman fólk í viðskiptafræðinámi og fólk með fagþekkingu á öðrum sviðum. Auk þess hefur hópur fyrirtækja sem eru leiðandi í nýsköpun á Íslandi aðkomu að náminu. Þessi nálgun er byggð á þeirri reynslu að öflugasta nýsköpunin verður oft þegar fólk með mismunandi bakgrunn kemur saman og eins á þeirri reynslu að margar góðar hugmyndir ná ekki fótfestu vegna þess að tekjugrunnurinn er ekki nógu vel grundvallaður í upphafi. Hvað kostar námið? Námið er hefðbundið meistaranám við Háskóla Íslands og því fylgja engin skólagjöld umfram innritunargjöld HÍ. Er hægt að taka námsleiðina með vinnu? Námið er skipulagt sem fullt nám í fjögur misseri og ekki er mælt með því að taka námsleiðina með vinnu. Geta nemendur sem eru í öðrum námsleiðum í Viðskiptafræðideild tekið námskeið úr kjarnanum? Nemendur sem eru skráðir í meistaranám í Viðskiptafræðideild geta skráð sig í námskeið af þessari námsleið. Sum námskeiðin eru þó háð fjöldatakmörkunum og þá verður litið til þess hvort nemendur séu innritaðir í námslínuna við val inn í námskeiðin. Er boðið upp á námsleiðina sem diplómanám? Nei, sem stendur er ekki boðið upp á námið sem diplomanám. Hægt er að skrá sig í einstök námskeið í sumum tilfellum rétt eins og með önnur námskeið í HÍ en önnur námskeið eru háð fjöldatakmörkunum og þá ganga þeir nemendur fyrir sem eru í námslínum sem þátt taka í náminu. Hver hefur umsjón með skipulagningu og kennslu í náminu? Umsjónarmenn námsins eru Magnús Þór Torfason og Rögnvaldur Sæmundsson, Magnús fyrir hönd Viðskiptafræðideildar og Rögnvaldur fyrir hönd Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Kennsla í náminu verður í höndum umsjónarmanna og annarra kennara við HÍ, en einnig koma gestafyrirlesarar í tíma. Er námið unnið í samstarfi við aðra aðila sem koma að nýsköpun hér á landi, svo sem Innovit, Klak, Gulleggið og Startup Reykjavík? Umsjón námsins er alfarið á höndum HÍ, en áhersla er lögð á tengingu við atvinnulífið, bæði með samstarfi við fyrirtæki og aðra aðila sem hafa að markmiði að stuðla að nýsköpun á Íslandi. facebooklinkedintwitter