Skip to main content

Rannsóknarverkefni

Rannsóknarverkefni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vald og lýðræði

Valds- og lýðræðisrannsókn Félagsvísindasviðs er fjögurra ára rannsóknarverkefni (2014-2017) og hefur það verið styrkt m.a. af Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands.

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild, er rannsóknarstjóri verkefnisins sem sjö aðrir kennarar úr Stjórnmálafræðideild koma að, en auk þeirra um 20 fræðimenn úr öðrum deildum Félagsvísindasviðs.

Í rannsókninni er athygli beint að megingerendum í valds- og lýðræðiskerfum íslensks samfélags, svo sem:

  • Löggjafanum
  • Framkvæmdavaldinu
  • Stjórnsýslunni
  • Stjórnmálaflokkum
  • Hagsmunasamtökum
  • Fjölmiðlum
  • Almenningi

Valds- og lýðræðisrannsóknir hafa verið framkvæmdar í Danmörku, Svíþjóð og Noregi og taka efnisþættir íslensku rannsóknarinnar að einhverju leyti mið af norrænu rannsóknunum, en einnig er tekið tillit til sérstakra aðstæðna á Íslandi og ekki síst áhrifa hrunsins árið 2008.

Í rannsóknum verkefnisins er áherslan á empírískar rannsóknir og gagnaöflun, en einnig er lagt uppúr samstarfi fræðimanna og aðkomu sem flestra fræðigreina félagsvísinda. Stefnt er að því að kynna rannsóknarniðurstöður í viðurkenndum fræðiritum og með ráðstefnuhaldi.

Íslenska kosningarannsóknin

Íslenska kosningarannsóknin hefur verið framkvæmd eftir allar Alþingiskosningar frá 1983. Henni stýrir Ólafur Þ. Harðarson prófessor.

Gögn úr þeirri rannsókn eru í opnum aðgangi hjá Félagsvísindastofnun, bæði á íslensku og ensku, og eru í vaxandi mæli notuð af erlendum fræðimönnum.

Síðan 1999 hefur hluti spurninganna verið partur af alþjóðlegri kosningarannsókn, Comparative Study of Electoral Systems. Það gagnasafn er opið og þar má fá sambærilegar upplýsingar um þingkosningar í tugum ríkja sl. 15 ár.

 Stjórnendur íslensku kosningarannsóknarinnar hafa frá upphafi unnið náið með kollegum frá hinum Norðurlöndunum. Nýjasta afurð þess samstarfs er bókin The Nordic Voter.