Hvenær byrjar kennsla? Upplýsingar um kennslu og kennslutímabil má finna í kennslualmanaki. Hvar nálgast ég stundatöflu? Hér má finna allar stundatöflur Stjórnmálafræðideildar Hvar finn ég bókalista fyrir námskeið? Á vefsíðu Bóksölu stúdenta eru bókalistar fyrir flest námskeið deildarinnar. Stundum má einnig nálgast bókalista inni á heimasvæði námskeiða í Uglu eða í kennsluskrá. Hvar finn ég nemendafélagið mitt? Á vefsíðu Stúdentaráðs eru tenglar á heimasíður nemendafélaga. Nemendafélög hafa ekki sérstakar skrifstofur en þau hafa aðgang að aðstöðu Stúdentaráðs. Til að komast í samband við nemendafélagið þitt er best að hafa samband við ábyrgðaraðila, s.s. formenn, ritara eða gjaldkera. Yfirleitt eru upplýsingar um þá að finna á heimasíðum nemendafélaganna. Hvar fæ ég stúdentakort? Stúdentakort er auðkennis- og afsláttarkort sem sótt er um í Uglunni (Uglan mín --> Stúdentakort). Stúdentakort eru gefin út í tveimur mismunandi útgáfum og velur þú aðra hvora. Annars vegar er auðkennis- og afsláttarkort og hins vegar rafrænt aðgangskort. Auk þess að vera auðkennis- og afsláttarkort veitir rafrænt aðgangskort korthafa aukinn aðgang að byggingum Háskólans umfram venjulegan opnunartíma þeirra (Háskólatorg, VRII, Askja og Hamar). Hægt er að sækja kortið sjálft á þjónustuborðinu í Háskólatorgi. Rafrænt aðgangskort kostar 1.500 kr. og fær handhafi þess 1.000 kr. til baka þegar kortinu er skilað. Auðkenniskort fær nemandi honum að kostnaðarlausu. Vinsamlegast athugið að nemendur fá ekki ný stúdentakort árlega heldur er það endurnýjað með límmiða á Þjónustuborðinu Háskólatorgi. Hvar get ég ljósritað? Á Landsbókasafni – Háskólabókasafni eru nokkrar ljósritunarvélar fyrir notendur safnsins. Hægt er að kaupa kort í afgreiðslu safnsins á 1. hæð. Auk þess sér Háskólaprent, Fálkagötu 2, um alla almenna prentþjónustu gegn gjaldi. Þú getur jafnframt notað skanna í tölvuverum sem senda skannaðar síður í tölvupósti og svo notað prentkvóta þinn til að prenta út blöð. Hvar fæ ég upplýsingar um nám í erlendum háskólum? Alþjóðasvið veitir upplýsingar um möguleika á skiptinámi, starfsþjálfun og sumarnámi. Upplýsingastofa um nám erlendis veitir upplýsingar um nám erlendis á eigin vegum. Hvar finn ég gömul próf? Almennt eiga stúdentar rétt á því að fá að skoða eldri prófverkefni sem lögð hafa verið fyrir þegar að prófraun er að fullu lokið. Prófverkefni eru í prófasafni hvers námskeiðs eða kennari veitir sjálfur aðgang að þeim, óski stúdent eftir því. Kennara ber að sýna en ekki afhenda afrit af eldri verkefnum. Í undantekningartilvikum er heimilt að synja um slíkan aðgang. Hafi kennari ákveðið að veita sjálfur aðganga þá senda stúdentar viðkomandi kennara beiðni um aðgang í tölvupósti. Hvað þýðir árleg skráning? Árleg skráning er skráning í námskeið næsta háskólaárs (haust- og vormisseri). Mjög mikilvægt er að sinna skráningu á tímabili árlegrar skráningar vor hvert þar sem árleg skráning jafngildir skráningu í skólann næsta ár. Hvenær skrái ég mig í námskeið fyrir næsta háskólaár? Upplýsingar um árlega skráningu er að finna í kennslualmanaki HÍ og nemendur skrá sig í námskeið í Uglunni á auglýstu tímabili. Ef stúdent sinnir þessu ekki er litið svo á að hann sé hættur námi. Ef veita þarf undanþágu frá þessu ákvæði er stúdent gert að greiða 15% álag á innritunargjaldið. Hvenær get ég endurskoðað skráningu mína í námskeið? Stúdent getur endurskoðað skráningu sína í upphafi kennslumisseris. Upplýsingar um tímafrest er að finna á kennslualmanaki Háskóla Íslands. Hver er hámarks einingafjöldi sem hægt er að skrá sig í? Hámarksfjöldi eininga á misseri er 40 einingar. Þeir nemendur sem óska eftir að skrá sig í fleiri en 40 einingar á misseri, skulu senda rökstudda beiðni þess efnis til nemendaþjónustu Félagsvísindasviðs (nemFVS@hi.is), ásamt staðfestu námsferilsyfirliti frá Nemendaskrá. Verður hvert tilvik skoðað sérstaklega, að öllu jöfnu er gerð krafa um að nemandi hafi fyrstu einkunn. Hvernig skrái ég mig úr námskeiði? Til að skrá sig úr námskeiði ferðu inn í Ugluna þína og velur "námskeiðin mín". Fyrir aftan hvert námskeið sem þú ert skráð/ur í birtist "úrskrá" sem þú smellir á og þar með ertu skráð/ur úr námskeiðinu. Þetta þarf hins vegar að gera fyrir þá fresti sem settir eru. Sjá nánari dagsetningu á kennslualmanaki HÍ. Hvernig fæ ég metið fyrra nám úr öðrum námsgreinum HÍ eða öðrum háskólum? Stúdent sem óskar eftir mati á fyrra námi, annað hvort úr öðrum háskóla eða annarri deild þarf að senda skriflegt erindi til nemendaþjónustu Félagsvísindasviðs (nemFVS@hi.is). Með umsókninni þarf að fylgja staðfest afrit af einkunnum, námskeiðslýsing og leslisti námskeiðsins. Hvaða reglur gilda um leyfi frá námi? Stúdent þarf að sækja um heimild til að taka leyfi frá námi til nemendaþjónustu Félagsvísindasviðs (nemFVS@hi.is). Gæta þarf að tímaramma náms því námshlé lengir ekki þann tíma sem stúdentar hafa til að ljúka námi. Stúdent hefur níu misseri til að ljúka BA-námi. Stúdent þarf að greiða hluta skrásetningargjalds á meðan leyfi stendur. Stúdent ber að skrá sig árlegri skráningu fyrir næsta háskólaár á auglýstu tímabili meðan á leyfi stendur. Próf Upplýsingar um próf og prófatímabil má finna í kennsluskrá. Hvar nálgast ég einkunnir mínar? Einkunnir eru birtar á heimasvæði stúdenta á Uglunni. Hvað get ég gert ef ég er ósátt(ur) við niðurstöðu prófa? Úr 59. gr. reglna um Háskóla Íslands Stúdent á rétt til að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar ef hann æskir þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Vilji stúdent, sem ekki hefur staðist próf, þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til viðkomandi deildarforseta. Skal þá prófdómari skipaður í hverju tilviki. Meirihluti nemenda í námskeiði getur með rökstuddu erindi óskað eftir því að skipaður verði prófdómari til þess að fara yfir skriflegar úrlausnir á lokaprófi í námskeiðinu. Þegar prófdómari er skipaður eftir að einkunn kennara hefur verið birt fer hann einungis yfir prófúrlausnir þeirra nemenda sem óskað hafa eftir endurmati. Einnig getur kennari, telji hann til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi og fer hann þá yfir prófúrlausnir allra nemenda í námskeiðinu. Prófdómari verður þó ekki skipaður, ef meira en sex vikur hafa liðið frá birtingu einkunnar og þar til beiðni um skipunina berst. Hvað gerist ef nemandi eða barn nemanda veikist þannig að nemandi getur ekki tekið próf? Óski kennari eftir að nemandi skili vottorði vegna hlutaprófa fylgið þá leiðbeiningum kennara um hvar þeim á að skila. Athugið að ekki þarf að tilkynna um veikindi á prófdag. Hins vegar er áríðandi að skila læknisvottorði til Nemendaskrár innan tilskilins frests. Læknisvottorð vegna hlutaprófa eiga að berast til skrifstofu deildar eða viðkomandi kennara. Hvað gerist ef nemandi veikist á meðan á próftöku stendur? Veikist stúdent í prófi ber honum að vekja athygli prófgæslumanns sem skrifar athugasemd um það á prófúrlausn. Skal læknisvottorði dagsettu samdægurs skilað til Nemendaskrár Háskóla Íslands. Læknisvottorð eru yfirfarin af trúnaðarlækni Háskólans. Hversu oft má ég falla á prófi? Stúdent sem ekki stenst próf, gengur frá því eftir að hann hefur byrjað það eða kemur ekki til prófsins og hefur ekki boðað forföll, er heimilt að þreyta prófið að nýju innan árs. Standist hann þá ekki prófið, gangi frá því eða komi ekki til prófs án þess að boða forföll, hefur hann fyrirgert rétti sínum til að ganga oftar undir það. Stúdent sem fellur tvisvar í sama prófinu þarf að sækja um endurinnritun í nám sitt til Stjórnmálafræðideildar. Má taka upptökupróf í námskeiði sem ég hef staðist? Nemendum er heimilt að taka próf aftur sem þeir hafa staðist ef þeir vilja hækka einkunn. Þetta er hægt bæði með því að skrá sig í upptökupróf eða aftur í námskeiðið. Ef nemandi velur að gera þetta þá fellur fyrri einkunn hans úr gildi við það eitt að mæta í prófið. Þannig að ef nemandi lækkar í einkunn eða fellur á prófi í seinna skiptið þá gildir sú einkunn. facebooklinkedintwitter