Félagsfræði er fræðigrein sem greinir undirstöður þjóðfélagsins og eflir skilning á ólíkum sviðum þess. Meðal viðfangsefna félagsfræðinnar má nefna velferðarmál, lífskjör og lagskiptingu, afbrot, atvinnu- og efnahagslíf, fjölmiðla, stöðu kynjanna, innflytjendamál, unglingsárin, heilbrigði og lýðheilsu, fjölskyldumál, mannfjöldaþróun og vísindastarf. Nám í félagsfræði felur í sér undirstöðuþjálfun í fræðilegri hugsun og fræðilegum vinnubrögðum. Jafnframt er lögð áhersla á sjálfstæði og frumkvæði nemenda. Grunnnám í félagsfræði Grunnnám í félagsfræði tekur þrjú ár. Unnt er að ljúka BA–prófi í félagsfræði sem aðalgrein til 180 eininga sem þýðir að nemendur taka tiltekin skyldunámskeið en hafa þó verulegt svigrúm með valnámskeið. Einnig er hægt að taka BA í félagsfræði sem aðalgrein til 120 eininga og velja þá aukagrein (60e) sem getur verið í fjölmiðlafræði eða innan annarra námsgreina (t.d. mannfræði, stjórnmálafræði o.s.frv.). Jafnframt er hægt að taka félagsfræði sem aukagrein (60e) og taka nemendur þá aðra aðalgrein til 120 eininga. Félagsfræði, MA, 120e MA nám í félagsfræði er tveggja ára fræðilegt rannsóknarnám, þar sem áhersla er lögð á að skoða íslenskt samfélag í hnattrænu samhengi. Í náminu munu nemendur fá traustan grunn í kenningum og aðferðum félagsfræðinnar. Ísland er sérstaklega áhugavert vegna þeirra félagslegu breytinga sem átt hafa sér stað undanfarin ár, og má þar nefna efnahagshrunið og árangur í íþróttum og jafnréttismálum. Ennfremur hafa félagsfræðingar safnað gögnum um íslenskt samfélag sem eru einstök á heimsvísu, en þar má nefna unglingarannsóknir, rannsóknir á heilsu og velferð og viðhorfakannanir. Þannig samanstendur námið af sterkum fræðilegum grunni og áherslu á að rannsaka íslenskt samfélag í alþjóðlegu samhengi. Námið fer almennt fram á ensku, sem eykur möguleika nemenda á námi og starfi í löndum utan Íslands, en öllum verkefnum má skila hvort sem er á ensku eða íslensku. Dæmi um valnámskeið: • (Ó)jöfnuður í norrænum velferðarríkjum • Mismunun í velferðarríkjum: Kyn, kynhneigð og þjóðarbrot • Hnattvæðing, atvinnulíf og margbreytileiki • Afbrot, heilsa og tómstundir ungs fólks • Ójöfnuður og heilsa Félagsfræði með áherslu á fjölbreytileika, MA, 120e Í náminu fá nemendur fræðilega þekkingu á margbreytileika, fjölmenningu og tengdum viðfangsefnum svo sem fólksflutningum, þjóðerni, kynþáttahyggju, kynjafræði, aðlögun og samþættingu. Inntökuskilyrði í ofangreindar MA námsleiðir er BA-, B.Ed-, BS-próf með fyrstu einkunn eða sambærilegt háskólapróf. Hafi nemandi ekki grunn í félagsfræði kann að vera gerð forkrafa um að nemandi taki námskeið aukalega í kenningum og aðferðafræði. Aðferðafræði, MA, 120e MA nám í aðferðafræði er markvisst nám í fjölbreyttum rannsóknaraðferðum félagsvísinda. Nemendur fá fræðilega og hagnýta þekkingu á aðferðafræði félagsvísinda, kynnast helstu rannsóknaraðferðum (t.d. spurningalistakönnunum, viðtölum, athugunum á skráðum gögnum) og fá haldbæra þekkingu og reynslu af rannsóknarvinnu. Inntökuskilyrði í MA nám í aðferðafræði eru þau sömu og í MA nám í félagsfræði. Að auki er gerð krafa um að nemendur hafi lokið eftirfarandi námskeiðum eða sambærilegum: FÉL204G Aðferðafræði: Rannsóknaraðferðir félagsvísinda og FÉL306G Tölfræði I. Diplómanám, 30e Hægt er að taka diplómanám til 30 eininga að loknu BA-, B.Ed-, BS– prófi eða sambærilegu háskólaprófi. Diplómanám er einkum ætlað þeim sem ekki eru tilbúnir að fara í MA nám (eða sem uppfylla ekki kröfur um fyrstu einkunn í grunnnámi) en vilja fara í stutt hagnýtt nám á tilteknum sviðum. Námið getur einnig gegnt hlutverki endurmenntunar fyrir þá sem eru á vinnumarkaði. Góður námsárangur í diplómanámi fullnægir skilyrðum til að komast í MA nám í félagsfræði. Diplómanámið er metið að fullu inn í allar MA námsleiðir í félagsfræði. Í boði eru eftirtaldar þrjár námsleiðir í diplómanámi: Diplómanám í afbrotafræði Markmið diplómanáms í afbrotafræði er að veita nemendum fræðilega og hagnýta þekkingu á sviði afbrota og frávikshegðunar. Fræðilegar skýringar á eðli og umfangi afbrota eru greindar og sjónum beint að þeim aðilum sem hafa með meðferð og afgreiðslu hegningarlagabrota í stjórnkerfinu sjálfu að gera, s.s. lögreglu, ákæruvaldi og fangelsiskerfi. Diplómanám í rannsóknaraðferðum félagsvísinda Markmið diplómanáms í rannsóknaraðferðum félagsvísinda er að veita nemendum fræðilega og hagnýta þekkingu á sviði rannsóknaraðferða og aðferðafræði félagsvísinda. Diplómanám í stjórnun atvinnulífs og velferðar Markmið diplómanáms í stjórnun atvinnulífs og velferðar er að veita nemendum fræðilega og hagnýta þekkingu á sviði vinnumarkaðar, skipulagsheilda og velferðarmála. Sjónum er beint að nýjum áskorunum, bæði hnattrænum og staðbundnum, og mögulegum viðbrögðum við þeim. Doktorsnám, 210e Markmið doktorsnáms í félagsfræði er að veita nemendum þjálfun í sjálfstæðum vísindalegum vinnubrögðum og búa þá undir vísindastörf og háskólakennslu. Námsbraut í félagsfræði á í samstarfi við erlenda háskóla og eru nemendur hvattir til að verja hluta af námsferlinum erlendis. Hafi nemandi tekið allt fyrra háskólanám hér á landi, skal hann taka að lágmarki eina önn við erlendan háskóla. facebooklinkedintwitter