Skip to main content

Viðfangsefni safnafræðinnar

Safnafræði er í eðli sínu þverfagleg þar sem hinar ýmsu fræðigreinar tengjast störfum safna.

Hér má nefna sagnfræði, fornleifafræði, listfræði, þjóðfræði, mannfræði, bókmenntafræði og málvísindi.

Einnig raunvísindagreinar svo sem náttúrufræði og greinar líkt og forvörslu, kennslufræði og upplýsingatækni.

Þá má nefna greinar sem tengjast stjórnun, tölvum, markaðs- og hagfræði og loks ferðamálafræðum, að ónefndum fjölda greina á sviði hönnunar og miðlunar.

Söfn (museum, gallery) fást við arfleifð og menningu og eru því meðal helstu menningarstofnana hvers samfélags. Erlendis og á Íslandi eru söfn fjölmörg og eru þau afar fjölbreyttar stofnanir.

Viðfangsefni safna geta verið afar margbreytileg, sum söfn leggja til dæmis áherslu á sýningar eða safnkennslu á meðan önnur söfn sinna frekar varðveislu eða rannsóknum. Flest söfn eiga þó ákveðna þætti sameiginlega og þannig má segja að söfn séu í eðli sínu og starfi áþekk, nánast hvar sem er í heiminum.

Söfn starfa samkvæmt ákveðnum lögum, reglugerðum, siðareglum og hefðum. Í stuttu máli má segja að fjögur meginstef safnastarfs séu eftirfarandi; söfnun, varðveisla, rannsóknir og miðlun.