Skip to main content

Feigðarflan hvítabjarna til Íslands

Karl Skírnisson, dýrafræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

Undanfarin ár hafa fjórir hvítabirnir synt til landsins og í framhaldinu verið felldir. Þeir hafa allir verið rannsakaðir undir stjórn Karls Skírnissonar, dýrafræðings á Tilraunastöðinni að Keldum. „Fyrstu tvö dýrin komu í júní 2008, bæði á Skaga. Annað var afgamall björn, eitt elsta dýr sem hefur verið aldursgreint úr Austur-Grænlandsstofninum, hitt var roskin birna,“ segir Karl. „Út frá mynstri árhringja í tönnum er talið að birnan hafi fjórum sinnum lagst í híði til að ala húna og alltaf náð að koma þeim á legg nema í fyrsta skiptið, þá fimm vetra,“ segir Karl. „Hin dýrin tvö voru ungar birnur. Önnur kom í lok janúar 2010 og gekk sú á land í Þistilfirði, hin var felld í Rekavík á Hornströndum í byrjun maí 2011.“

Karl Skírnisson

Að sögn Karls eru ýmsar tilgátur uppi um ástæður þess að hvítabirnir kjósa að yfirgefa heimkynni sín norður af landinu og synda til Íslands í stað þess að taka stefnuna til baka inn á náttúrulegt útbreiðslusvæði tegundarinnar.

Karl Skírnisson

Að sögn Karls hafa rannsóknirnar á Keldum meðal annars beinst að aldursgreiningu, kynþroska og ásigkomulagi bjarnanna, greiningu á fæðuleifum í meltingarvegi, styrk eiturefna í vefjum og sníkjudýrabyrði. „Tvö bjarndýranna reyndust smituð af tríkínum, skæðu sníkjudýri sem getur einnig lifað í mönnum,“ segir Karl og bætir því við að allir birnirnir hafi átt það sameiginlegt að vera í lélegu ásigkomulagi.

Karl segir að við eðlilegar aðstæður éti birnir selkópa á hafísnum á útmánuðum. Þeir fitni hratt og safni miklu spiki. „Þegar vorar er fitan tugir prósenta af líkamsþyngdinni. Forðafita gamla bjarnarins nam einungis um 10% þyngdarinnar þegar hann gekk á land á Skaga í júní 2008. Unga birnan, sem felld var í Rekavík á Hornströndum í byrjun maí 2011, var enn verr á sig komin því fita nam ekki nema um 5% af þyngdinni. Og öll fita var uppurin hjá rosknu birnunni sem tók land á Skaga um miðjan júní 2008. Hún var raunar við það að drepast þegar hún var felld, vökvi var byrjaður að safnast fyrir í lungunum í henni.“

Að sögn Karls eru ýmsar tilgátur uppi um ástæður þess að hvítabirnir kjósa að yfirgefa heimkynni sín norður af landinu og synda til Íslands í stað þess að taka stefnuna til baka inn á náttúrulegt útbreiðslusvæði tegundarinnar. „Í þessu efni er fátt handfast,“ segir Karl. „Lélegt ásigkomulag dýranna sem hingað syntu í maí og júní sýnir þó að ekkert þeirra hafði nærst eðlilega á útmánuðum, á þeim tíma þegar fengitími hvítabjarna er í hámarki og mikil félagsleg átök eiga sér stað í stofninum. Hugsanlega tengist feigðarflanið til Íslands flóttaviðbrögðum dýra sem stóðu á einhvern hátt höllum fæti í lífsbaráttunni á hafísnum austan við Grænland.“

Tengt efni