Skip to main content

Eru magasýrulyf ofnotuð?

Margir Íslendingar glíma við brjóstsviða og vélindabólgu, sem oftar en ekki má rekja til þess að maginn framleiðir of mikið af magasýru við meltingu. Kveður svo rammt að þessu hjá stórum hópi fólks að það þarf að nota svokölluð PPI-lyf, eða magasýrulyf, sem draga úr myndun magasýru.

„PPI-lyf eru mikið notuð, t.d. fengu 11% af íslensku þjóðinni ávísun fyrir PPI-lyfi einu sinni eða oftar árið 2012. Jafnframt eru þau ofnotuð og flestir taka lyfin árum saman,“ segir Hólmfríður Helgadóttir, læknanemi á fimmta ári, sem beindi sjónum sínum að hugsanlegum aukaverkunum lyfjanna í nýlegri rannsókn.

Hólmfríður Helgadóttir

„Fyrri rannsóknir hafa sýnt að heilbrigt fólk, sem tekur magasýrulyf í nokkrar vikur, getur fengið brjóstsviða eftir að meðferð er hætt. Orsökin er talin vera örvun á gastríni, sem aftur veldur því að meiri magasýra myndast en áður en meðferð hófst.“

Hólmfríður Helgadóttir

Í brennidepli í rannsókn Hólmfríðar var hormónið gastrín, sem spilar lykilhlutverk í framleiðslu magasýru. „Fyrri rannsóknir hafa sýnt að heilbrigt fólk, sem tekur magasýrulyf í nokkrar vikur, getur fengið brjóstsviða eftir að meðferð er hætt. Orsökin er talin vera örvun á gastríni, sem aftur veldur því að meiri magasýra myndast en áður en meðferð hófst. Gastrínörvunin er aukaverkun af lyfinu og áhyggjuefni þar sem sumir telja að þetta geti leitt til ávanabindingar,“ útskýrir Hólmfríður.

Í rannsókn sinni mældi Hólmfríður styrk gastríns hjá fólki með vélindabólgu sem var í PPI-lyfja- meðferð og kannaði tengsl styrks gastrínsins við lengd lyfjameðferðarinnar. „Í ljós kom að gastríngildi fyrir og eftir máltíð voru marktækt hærri hjá þeim sem tóku magasýrulyf en hjá heilbrigðu fólki en ekki tókst að sýna fram á marktæka fylgni milli gastríns og lengdar lyfjameðferðarinnar. Hins vegar kom í ljós að gastríngildi voru marktækt hærri hjá konum á magasýrulyfjum en körlum og það kom á óvart en ekki er vitað hvað veldur þessum mun,“ segir Hólmfríður.

Hólmfríður segir mikilvægt að rannsaka tengsl magasýrulyfja við gastrín og sjá hvort hægt er að finna þar samband sem gagnast við val á skammtastærð, meðferðarlengd o.fl. í framtíðinni. Hún undirbýr sjálf stærri framhaldsrannsókn sem fer af stað sumarið 2014.

Leiðbeinandi: Einar Stefán Björnsson, prófessor við Læknadeild.