Skip to main content

Erfðaþættir að baki þrálátum verkjum

Karl Örn Karlsson, lektor við Tannlæknadeild 

„Sem betur fer eru tannlækningar langoftast sársaukalausar. Stundum geta aðgerðir í munni og kjálka, sem og áverkar við slys, valdið bráðum verkjum sem auðvelt er þó að stilla með tiltækum ráðum. Hjá flestum dvína verkirnir og hverfa samhliða bata en hjá öðrum vara þeir lengur og verða jafnvel viðvarandi árum saman. Aðrir fá langvinna verki í stoðkerfi kjálkans, einkum tyggingarvöðvana, af svipuðum toga og bakverki. Við viljum ná til þeirra sem þjást af slíkum verkjum. Talið er að 15–30% af sjúklingum fái þráláta verki eftir skurðaðgerðir almennt en töluvert færri eða 5% í kjálka.“

Þetta segir Karl Örn Karlsson, lektor við Tannlæknadeild. Hann hefur ásamt Birni R. Ragnarssyni, lektor við deildina, leitað að einstaklingum sem hafa undirgengist tilteknar aðgerðir eða greinst með ákveðna sjúkdóma sem eiga það sameiginlegt að hafa leitt til þrálátra verkja. „Hér er um mjög viðamikla hóprannsókn að ræða og okkar hlutverk er að greina einstaklinga með þráláta tann-, kjálka-, kjálkaliðs- og/eða andlitsverki, t.d. eftir tannúrdrátt eða rótfyllingu. Rannsóknin gengur út á að bera saman erfðamengi einstaklinga sem annars vegar hafa glímt við þráláta verki og hins vegar einstaklinga sem ekki hafa fengið þráláta verki, þrátt fyrir sambærilegt áreiti, sömu aðgerðir eða sjúkdóma.“

Karl Örn Karlsson

„Hér er um mjög viðamikla hóprannsókn að ræða og okkar hlutverk er að greina einstaklinga með þráláta tann-, kjálka-, kjálkaliðs- og/eða andlitsverki, t.d. eftir tannúrdrátt eða rótfyllingu.

Karl Örn Karlsson

Karl segir að ástæður þess að verkir vari lengur hjá sumum en öðrum séu ekki fyllilega ljósar. „Talið er að þrálátir verkir geti verið taugrænir en svo virðist sem verkirnir lifi áfram vegna breytinga í taugakerfinu, hvort sem það er vegna taugaskaða eða vegna þess að myndast hefur viðvarandi virkni eða ofvirkni í taugabrautum, þ.m.t. í miðtaugakerfinu, sem viðheldur verkjunum löngu eftir að vefjaskaðinn er gróinn. Vísindamenn geta ekki skýrt þetta en tilgátur eru um að skýringa sé að leita í líffræðilegum þáttum við samspil erfða og umhverfis. Fyrir þessu eru þegar til staðar ákveðnar vísbendingar.“

Að Karls sögn er rannsóknin unnin að frumkvæði Íslenskrar erfðagreiningar. Rannsóknin hefur meðal annars hlotið mjög eftirsóttan fimm ára styrk frá Heilbrigðis- stofnun Bandaríkjanna (NIH). Landspítalinn – háskólasjúkrahús, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, fyrirtækið Þraut, sem sérhæfir sig í þjónustu við vefjagigtarsjúklinga, og Þjónustumiðstöð rannsóknar- verkefna koma einnig að rannsókninni ásamt erlendum samstarfsaðilum, en þeir Karl og Björn eru einnig í samstarfi við tannlækna um land allt í leit að sjúklingum sem stríða við þráláta verki í munni og andliti.

Karl segir að þrálátir verkir séu mikil kvöl hjá þeim sem þjást af þeim og árangur af meðferð sé oft ófullnægjandi. „Þrátt fyrir viðeigandi notkun verkjalyfja fær innan við helmingur sjúklinga með þráláta verki viðunandi verkjastillingu. Lífsgæði þeirra eru því verulega skert sem og atvinnuþátttaka og kostnaður einstaklinga og samfélaga af þessu erfiða heilbrigðisvandamáli er því verulegur.“

Karl segist vonast til að niðurstöður rannsóknarinnar komi til með að leiða til markvissari úrræða til að koma í veg fyrir og lina þessa verki og þannig megi bæta líf mjög margra.