Skip to main content

Eignarréttur á fasteignum í þjóðlendudómum

Valgerður Sólnes, doktorsnemi við Lagadeild

Stór hluti Íslands er undir í doktorsverkefni Valgerðar Sólnes í lögfræði en það snýr að svokölluðum þjóðlendumálum sem reglulega hafa ratað í fjölmiðla. „Markmið verkefnisins er að rannsaka með heildstæðum hætti dóma Hæstaréttar í þjóðlendumálum þar sem skorið hefur verið úr um mörk eignarlanda og þjóðlendna á grundvelli laga þar um. Hæstiréttur hefur þegar dæmt í 60 slíkum málum og við úrlausn þeirra hefur reynt á sönnun um stofnun eignarréttar að fasteignum og ef slík sönnun hefur tekist, hvort eignarrétturinn hafi eftir stofnun fallið brott,“ útskýrir Valgerður.

Valgerður Sólnes

Valgerður hefur stundað rannsóknir og kennslu á sviði eignarréttar um nokkurra ára skeið og meðal annars beint sjónum að eignarhaldi á náttúruauðlindum okkar, vatninu og jarðhita.

Valgerður Sólnes

Valgerður hefur stundað rannsóknir og kennslu á sviði eignarréttar um nokkurra ára skeið og meðal annars beint sjónum að eignarhaldi á náttúruauðlindum okkar, vatninu og jarðhita. „Þar komst ég í tæri við alla söguna sem liggur að baki því að löggjafinn tókst að endingu árið 1998 á hendur það verk að setja lög í því skyni að skera með endanlegum hætti úr ágreiningi um eignarhald ríkisins á landi sem ekki er í eigu annarra; það er að skipta landinu upp í eignarlönd og svonefndar þjóðlendur sem eru háðar eignarrétti ríkisins,“ segir Valgerður.

Hún segir pælingar um eignarrétt einkar heillandi. „Eignarrétturinn er þeim kostum gæddur að þar lýstur iðulega saman sögu lands og manna í bland við fræðilegri hliðar og eignarréttindi eru auðvitað nokkurs konar hornsteinn samfélagsins og forsenda daglegs lífs. Það er þetta samspil sem hefur helst heillað mig við fræðigreinina og það verkefni að gera þessu íslenska tilraunaverkefni á sviði eignaréttar og þjóðlendudómum Hæstaréttar skil,“ segir hún.

Í verkefninu kemur sagnfræðin líka við sögu. „Verkefnið kallar á söguskoðun, meðal annars um landnám Íslands og þær sagnfræðilegu heimildir sem menn reisa eignarréttartilkall á, en dómar Hæstaréttar eru síðan að sjálfsögðu í forgrunni verkefnisins,“ lýsir Valgerður.

Verkefnið hefur því bæði fræðilegt og réttarsögulegt gildi. „Annars vegar hefur verkefnið að geyma mikilvægt framlag til íslensks eignarréttar með því að leitast verður við að rannsaka eignarhald á fasteignum og þá aðferðafræði sem dómstólar hafa beitt við að ákveða hvort stofnast hafi til eignarréttar yfir fasteignum. Hins vegar hefur verkefnið sögulega og réttarsögulega þýðingu enda verður gerð grein fyrir þessu sérstæða og tímabundna verki að ákveða í eitt skipti fyrir öll mörk eignarlanda gagnvart landi utan byggðamarka, fyrst og fremst hálendi Íslands,“ segir Valgerður.

Leiðbeinendur: Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við Lagadeildir Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla, og Karl Axelsson, dósent við Lagadeild.

Tengt efni