Samkomutakmarkanir vegna COVID-19 hafa ýmis áhrif á vinnustað eins og Háskóla Íslands. Starfsfólk mætir til vinnu samkvæmt venju nema að stjórnandi hafi ákveðið annað. Í samræmi við leiðbeiningar stjórnvalda er starfsfólk með undirliggjandi sjúkdóma hvatt til að láta stjórnendur vita og kanna í samráði við þá möguleika á að draga úr hættu á smiti á vinnustaðnum eða eftir atvikum vinna heima, verði því komið við. Þess er krafist að hlífðargrímur séu notaðar öllum háskólabyggingum í samræmi við tilmæli sóttvarnayfirvalda. Starfsfólk með flensulík einkenni, s.s. hita, beinverki, eymsli í hálsi og slappleika skal halda sig heima. Leitast skal við að nota fjarfundabúnað í stað funda. Neyðarstjórn skólans fundar reglulega til að leggja á ráðin um viðbúnað vegna COVID-19 og sendir út tilkynningar til nemenda og starfsfólks eftir því sem þurfa þykir. Hér að neðan eru svör við helstu spurningum sem kunna að hafa vaknað hjá starfsfólki. Ertu með fleiri spurningar? Hafðu endilega samband við okkur í gegnum netspjallið niðri í hægra horninu á síðunni eða sendu tölvupóst á neydarstjorn@hi.is Almennt Hvað á ég að gera ef ég mig grunar að ég sé með COVID-19? Ef starfsmaður finnur fyrir einkennum sem honum þykja líkjast Covid-19 á hann að halda sig heima og hafa samband við heilsugæslu án tafar og panta tíma fyrir sýnatöku. Fólk er beðið að koma ekki á heilsugæslustöðvar án þess að hafa samband fyrst. Á sama tíma lætur hann yfirmann sinn eða samstarfsfélaga í skólanum vita um þessar grunsemdir. Hvað á ég að gera ef sýntaka staðfestir smit hjá mér? Ef smit er staðfest byrjar smitrakning undir stjórn Smitrakningarteymis almannavarna. Smitrakningateymið hefur samband við hinn smitaða og síðan við samstarfsfólk ef þess gerist þörf. Starfsfólk skal láta sinn yfirmann eða sitt samstarfsfólk vita ef það fær staðfestingu á smiti og nemendur láta deildarskrifstofu eða sviðsskrifstofu vita eftir atvikum. Yfirmenn og skrifstofur sem fá tilkynningu um smit: Tilkynna smitið til neyðarstjórnar í tölvupósti: neydarstjorn@hi.is Senda tilkynningu á starfsmenn í þeirri byggingu þar sem hinn smitaði vinnur. Ath. Ekki skal greina frá nafni þessa smitaða nema að fengnu upplýstu samþykki. Gerðar verða ráðstafanir til að sótthreinsa vinnusvæði hins smitaða og snertifleti á almennum svæðum. Samstarfsfólk beðið að gæta sérstaklega vel að samskiptafjarlægð og handþvotti eins og almennar leiðbeiningar kveða á um. Samstarfsfólk hins smitaða ræðir málið og metur aðstæður. Þeir sem telja sig hafa verið í nánu samneyti við hinn smitaða eiga að fara í úrvinnslusóttkví á meðan smitrakningateymið vinnur en fái þeir ekki skilaboð frá smitrakningateyminu samdægurs eða næsta dag eru þeir lausir allra mála. Frekari upplýsingar Ég er veik/ur eða í sóttkví. Hvað á ég að gera? Starfsfólk er beðið um að tilkynna um sóttkví eða smit til næsta yfirmanns. Fræðasvið eru beðin um að upplýsa neyðarstjórn í tölvupósti til neydarstjorn@hi.is. Áríðandi er að þeir sem finna fyrir sjúkdómseinkennum eða hafa mögulega verið útsettir fyrir smiti, t.d. vegna ferðalaga, hringi í síma 1700 og fái leiðbeiningar. Þeir sem finna fyrir einkennum haldi sig heima og komi alls ekki veikir í skólann. Því er beint til yfirmanna að sýna sveigjanleika varðandi framvísun læknisvottorða ef starfsfólk eða nemendur telja sig hafa ástæðu til að vera fjarri vinnustað eða sinna ekki starfi eða námi. Fólk með áhættuþætti, s.s. eldri einstaklingar og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma á borð við hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki, lungnasjúkdóma eða eru ónæmisbældir, á að vinna heima, forðast mannamót að óþörfu og huga vel að hreinlæti. Gáið hvert að öðru, hvetjið fólk til að fara heim ef það virðist veikt og hugið sérstaklega að fólki sem ekki hefur neitt tengslanet á Íslandi. Hvernig get ég komið í veg fyrir smit? Fyrst og síðast er handþvottur mikilvægasta sýkingavörnin sbr. leiðbeiningar Landlæknisembættisins og Vísindavefs Háskóla Íslands. Settur hefur verið upp búnaður fyrir handhreinsun í byggingum Háskólans og er starfsfólk hvatt til að nýta sér hann. Jafnframt hefur verið lögð aukin áhersla á þrif í byggingum og þess er krafist að hlífðargrímur séu notaðar öllum háskólabyggingum í samræmi við tilmæli sóttvarnayfirvalda. Vinnufyrirkomulag, andleg líðan og hreyfing Hvernig verður kennslu háttað á vormisseri 2021? Skólinn leggur rafræna kennslu til grundvallar vorið 2021 en leggur einnig áherslu á möguleikann á staðkennslu að því gefnu að slík kennsla uppfylli tilmæli sóttvarnarlæknis og yfirvalda hverju sinni. Við forgangsröðun staðkennslu verður áhersla lögð á umræðutíma, dæmatíma og sambærilega kennslu, kennslu í listgreinum, verklega kennslu og klíníska kennslu. Einnig verður áhersla lögð á að nýnemar verði í forgangi varðandi staðkennslu. Markmiðið er að skipuleggja skólastarfið þannig að það haldist óslitið þrátt fyrir skyndilegar breytingar en einnig að það sé eins eðlilegt og kostur er. Get ég mætt á skrifstofuna mína? Já, byggingar verða áfram opnar en fólk er hvatt til að koma ekki inn í byggingar á svæðinu að óþörfu. Starfsfólk er hvatt til að fylgja án undantekninga reglum um fjöldatakmarkanir og fjarlægðamörk og haga tilhögun vinnu eftir samráði við næsta stjórnanda. Til að draga úr smithættu verður starfsfólki í stjórnsýslu og í opnum rýmum skipt upp í hópa eftir nánari ákvörðun næstu stjórnenda. Sama gildir um doktorsnema sem vinna í opnum rýmum. Þetta hefur einnig áhrif á þá sem deila skrifstofum. Almennar sóttvarnir og nándarmörk Háskóli Íslands leggur höfuðáherslu á einstaklingsbundnar sóttvarnir, s.s. nándarmörk, handþvott og sótthreinsun. Enn fremur er krafa um að hlífðargrímur séu notaðar öllum háskólabyggingum í samræmi við tilmæli sóttvarnayfirvalda. Undir þetta falla bæði kennsla og fundir. Um öll svæði Háskólans gildir að nemendur, kennarar og annað starfsfólk á ekki að koma inn á svæði ef viðkomandi: Eru í sóttkví. Eru í einangrun (einnig á meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku). Eru með einkenni COVID-19 (kvef, hósta, hita, höfuðverk, bein- eða vöðvaverki, þreytu. Nándarmörk í öllu húsnæði Háskóla Íslands eru minnst 2 m á milli einstaklinga, s.s. í sameiginlegum rýmum, skrifstofum, mötuneytum, veitingasölu, íþróttahúsum og í bóklegum og verklegum kennslustofum. Jafnframt ber nemendum, kennurum og starfsfólki að tryggja a.m.k. 2 m bil sín á milli í öllu starfi skólans. Grímuskylda er í háskólabyggingum í samræmi við tilmæli sóttvarnayfirvalda. Frekari upplýsingar um vinnu á tímum COVID-19 er að finna á Uglu, innri vef skólans. Hvernig verður fjöldatakmörkun á háskólasvæðinu háttað? Fjöldatakmörkun og aðgreining hópa verður eftirfarandi: Ekki mega fleiri en 50 einstaklingar koma saman í hverju kennslu- og lesrými í skólanum. Verkleg og klínísk kennsla er heimil að uppfylltum kröfum um sóttvarnir og með því skilyrði að nemendur og kennarar noti hlífðargrímu. Nemendur mega ekki fara milli hópa í kennslu en starfsfólki og kennurum er slíkt heimilt. Tryggja skal góða loftræstingu í rýmum og lofta út milli hópa. Byggingum er skipt í hólf og tryggt eftir fremsta megni að enginn samgangur (blöndun) sé á milli hólfa. Þetta er m.a. gert til að auðvelda smitrakningu komi til þess að einstaklingar innan skólans smitist. Hvert hólf verður aðgreint og tryggt eftir fremsta megni að það hafi eigin inngang og útgang. Salerni verða aðgreind fyrir hvert hólf. Þar sem aðstæður leyfa ekki slíka aðgreiningu er heimilt að nýta ganga milli aðgreindra hólfa til að nemendur komist inn og út úr kennslustofum og á salerni. Í slíkum tilvikum verður auglýst rækilega að umræddir gangar séu einungis ferðarými og megi ekki nýta til annars. Þurfi kennarar og nemendur að fara á milli hólfa (svæða) skal gætt sérstaklega að sóttvörnum. Kennarar og annað starfsfólk sem vinnur á aflokuðum skrifstofum sínum teljast almennt ekki hluti af heildarfjölda í hólfi viðkomandi byggingar. Í sameiginlegum rýmum innan skólans, t.d. við innganga, á göngum og salernum, má víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að allir noti hlífðargrímur. Heimilt er að borða nesti í kennslustofum til að minnka samgang við hópa í sameiginlegum rýmum. Nemendur þurfa að þrífa eftir sig og taka með sér rusl úr kennslustofunni. Miðrými eru lokuð nema ef mögulegt er að sjá til þess að nándarregla sé virt, t.d. með því að breyta þeim í lærdómshorn þar sem eru kennsluborð og stólar sem uppfylla nándarreglu og sóttvarnir. Hvenær á ég að nota hlífðargrímu? Krafa er um notkun hlífðargríma í þeim tilvikum þar sem hætta er á meiri nálægð en tveimur metrum milli manna, t.d. þegar hætta er á að fólk rekist hvert á annað. Ekki er mjög brýnt að kennari sem er með kynningu/fyrirlestur í verulegri fjarlægð frá hlustendum/nemum noti hlífðargrímu (þetta á sérstaklega við ef kennari hefur af því óþægindi að tjá sig með hlífðargrímuna). Eðli málsins samkvæmt þarf ekki að hafa á sér hlífðargrímu þegar matast er en koma þarf algerlega í veg fyrir að fólk safnist saman og borði á sama tíma í litlum rýmum. Nauðsynlegt getur verið að skipta fólki, sem nýtir kaffistofur og rými þar sem neytt er matar, í hópa til að fyrirbyggja þetta. Ekki er brýn nauðsyn að bera hlífðargrímu þegar fólk situr í a.m.k. tveggja metra fjarlægð hvert frá öðru í ágætlega loftræstu rými. Þetta á t.d. við ef starfsfólk í opnu rými þar sem fjarlægð milli fólks er a.m.k. tveir metrar finnur mikil óþægindi af því að vinna með hlífðargrímu. Þá má líta svo á að ekki sé brýn þörf á að nota hlífðargrímu við vinnustöðina. Hvernig verður sóttvörnum og þrifum háttað? Háskóli Íslands ber ábyrgð á að farið sé eftir gildandi sóttvarnarreglum með öryggi og velferð nemenda, kennara og starfsfólks að leiðarljósi. Krafa eru um að hlífðargrímur séu notaðar öllum háskólabyggingum í samræmi við tilmæli sóttvarnayfirvalda. Undir þetta falla bæði kennsla og fundir. Tryggja þarf rétta notkun andlitsgrímunnar Handspritt verður til staðar fyrir framan og í hverri kennslustofu (það geta verið fleiri en ein kennslustofa í hverju hólfi). Sótthreinsa skal sameiginlegan búnað og snertifleti minnst einu sinni á dag og áhersla lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir. Sameiginlegir snertifletir (hurðarhúnar o.s.frv.) í kennslustofum eru sótthreinsaðir á milli nemendahópa. Hver og einn nemandi sér um sótthreinsun á sínu borði, æskilegt er að koma sér upp litlum brúsa af sótthreinsandi efni og hafa í töskunni. Mælst er til þess að kennari strjúki af hurðarhúni að lokinni kennslustund. Veggspjöld til áminningar verða eftir ástæðum hengd upp í skólabyggingum. (Sjá: https://www.covid.is/veggspjold). Takmarka skal gestagang í Háskóla Íslands eins og kostur er. Brýna þarf fyrir gestum að gæta ýtrustu varkárni og virða ávallt reglur um sóttvarnir. Ekki er heimilt að hafa aðra viðburði í byggingum skólans nema þá sem tengjast námi eða kennslu. Leiðbeiningar þegar upp kemur smit er að finna hér. Get ég keypt mat á kaffistofum í háskólabyggingum? Já, opið verður í Hámu á Háskólatorgi virka daga frá kl. 8-15 en eingöngu verður unnt að taka veitingar með sér úr húsi. Háma í Tæknigarði, Læknagarði og Eirbergi verða einnig opnar virka daga kl. 9-15. Þá er opið í Bókakaffi í Bóksölu stúdenta kl. 9–18 virka daga og í Stúdentakjallaranum virka daga kl. 11–22 og kl. 16–22 um helgar. Ef fullsetið er í Stúdentakjallaranum samkv. sóttvarnarreglum er hægt að taka matinn með. Einnig er hægt að hringja í Stúdentakjallarann í s. 570-0890, panta mat og sækja. Þá hefur ný matsala, Kaffi Gaukur, verið opnuð á fyrstu hæð Veraldar – húss Vigdísar. Hún er opin frá 9-16 alla virka daga. Verður íþróttahús Háskólans opið? Já, Íþróttahús háskólans verður opið frá og með mánudeginum 18. janúar 2021. Samkvæmt leiðbeiningum frá sóttvarnalækni gilda þessar reglur: 1. Aðeins er opið fyrir hóptíma þar sem þjálfari hefur yfirsýn og tryggir að reglum sé fylgt. Boltaíþróttir eru ekki leyfðar. 2. Búningsklefar, sturtur og tækjasalur eru enn lokuð og fólk þarf því að koma í æfingafötum á staðinn. 3. Allir þátttakendur verða að vera fyrirfram skráðir í æfingatíma, skráningin fer fram í gegnum viðburðaskrá Uglu undir liðnum „Á döfinni“. 4. Hámarksfjöldi í hólfuðum tíma er 20 að þjálfara meðtöldum. 5. Æfingasvæði skal skipt niður í hólf og hverjum iðkanda úthlutað að lágmarki 4 fermetrar. Hver iðkandi heldur sig innan síns svæðis út alla æfinguna. 6. Áður en gengið er til æfinga skulu iðkendur sótthreinsa á sér hendurnar. 7. Iðkendur eru hvattir til að koma með sínar eigin dýnur. 8. Eftir æfingu skal hver iðkandi sótthreinsa búnað sem hann notaði. 9. Að æfingum loknum skulu iðkendur sótthreinsa hendur sínar þegar þeir ganga út. 10. Allir tímar styttast um 10 mínútur, þessar 10 mínútur eru notaðar til að sótthreinsa og ganga frá og yfirgefa salinn áður en næsti hópur gengur inn. 11. Gengið er inn í salinn um aðaldyr en út úr salnum um hliðardyr. Reglur sóttvarnalæknis má finna hér. Veitir Háskólinn starfsfólki sem finnur fyrir vanlíðan einhvern stuðning? Aðstæður eru erfiðar fyrir margt starfsfólk og aldrei má gleyma að huga hvert að öðru. Starfsfólki sem finnur fyrir vanlíðan vegna faraldursins er boðið upp á stutt fjarfundarviðtöl við sérfræðinga hjá Auðnast. Tilgangurinn er m.a. að gefa fólki færi á að létta á áhyggjum sínum og þiggja stuðning. Frekari upplýsingar fást hjá mannauðsþjónustu í einingum skólans eða Mannauðssviði í Aðalbyggingu. Vettvangsferðir og ferðalög Hvernig er með vinnuferðir/vettvangsferðir innanlands og mælingar utanhúss? Athugið að sérstakar reglur gilda fyrir námsferðir. Þrátt fyrir núverandi varúðarráðstafnir vegna COVID-19 er mögulegt að fara vettvangs- eða vinnuferðir sem teljast nauðsynlegar. Ítrekað er að núverandi reglum um sóttvarnir þarf að fylgja eins og kostur er. Í því sambandi eru viðmiðunarreglur Háskóla Íslands eftirfarandi: 1. Almennt viðmið í vinnuferðum/vettvangsferðum innanlands verður að einungis tveir séu saman í hverjum bíl. 2. Ef þrír (fólk sem hefur nýlokið sóttkví eða fólk sem tilheyrir sama vinnuhópi) óska eftir að ferðast saman í bíl er slíkt leyfilegt gegn því að allir þrír staðfesti það með tölvupósti á netfangið fieldwork@hi.is 3. Fjarlægðarmörkum (einum metra) á milli fólks sé haldið eins og kostur er. 4. Nota skal grímur þegar við á og skv. leiðbeiningum Landslæknis og Almannavarna. 5. Í vinnuferðum/vettvangsferðum innanlands á bílum sé þess gætt að meðferðis sé búnaður til að þrífa og sótthreinsa snertifleti (t.d. blautklútar, spritt og hanskar). Fylgt sé nánari fyrirmælum um hvaða fleti skuli hreinsa eftir bílferð. 6. Fólk í áhættuhópum meti vel þörf á að taka þátt í vinnuferðum/vettvangsferðum innanlands og getur að sjálfsögðu sleppt því að fara slíkar ferðir. 7. Almennar reglur um vinnuferðir/vettvangsferðir innanlands og öryggi í þeim gilda. Starfsfólk fari yfir þær reglur sem gilda í viðkomandi einingu. 8. Allar vinnuferðir/vettvangsferðir innanlands verði skráðar eftir því kerfi sem gildir í viðkomandi einingu (skráningarform Jarðvísindastofnunar). 9. Ef upp koma aðstæður (t.d. náttúruhamfarir) sem kalla á mikið viðbragð verður að meta hvort víkja þurfi frá reglunum á einhvern hátt. Á ég að fara í ferðalög á vegum Háskólans? Starfsfólk er beðið sérstaklega að fylgjast vel með nýjustu upplýsingum um þau landsvæði sem skilgreind eru sem hættusvæði. Fólk ætti ekki að ferðast til þessara svæða en ef ekki verður hjá því komist þarf fólk að fara í sóttkví skv. leiðbeiningum sóttvarnarlæknis og Landlæknis. Sé starfsfólk í vafa um hvort halda skuli í ferðalög á vegum skólans, þótt ekki sé um skilgreind hættusvæði að ræða, er því frjálst að hætta við slíkar ferðir. Fáist kostnaður vegna þessa ekki bættur (t.d. frá flugfélagi, ráðstefnuhaldara, tryggingarfélagi eða stéttarfélagi) verður leitað allra leiða til að starfsfólk verði ekki fyrir fjárhagslegu tjóni. Hvað á ég að gera ef ég kem erlendis frá til starfa í Háskóla Íslands? Allir komufarþegar velja um að fara í 14 daga sóttkví eða vera skimaðir tvisvar við komuna til Íslands, eins og lesa má um hér. Hvaða reglur gilda um vettvangsferðir nemenda? Fararstjórar 1. Það er hlutverk fararstjóra að hafa augun hjá sér og leiðbeina nemendum um hvernig þeir eiga að fylgja þessum reglum. Einkenni og skimanir 1. Fólk sem er með minnstu einkenni sem tengja má við COVID-19 á alls ekki að fara í vettvangsferðir. 2. Fólk sem er í einangrun eða heimkomusmitgát má ekki fara í vettvangsferðir. Ekki heldur þeir sem eru að bíða eftir niðurstöðum skimunar. 3. Fólk sem kemur erlendis frá verður að hafa lokið seinni skimun áður en það fer í vettvangsferð. Rútuferðir 1. Hafið handspritt við innganga og hvetjið fólk til að spritta hendur sínar bæði þegar gengið er um borð og frá borði. 2. Biðjið farþega að ganga rólega um og halda sömu sætum alla ferðina. 3. Bil á milli farþega á að vera eitt sæti hið minnsta. 4. Allir farþegar eiga að vera með grímu á meðan ekið er milli staða. Nánari leiðbeiningar á vef Ferðamálastofu Vinna og fræðsla á áningastöðum 1. Ætlast er til að nemendur og kennarar haldi eins metra regluna í heiðri. 2. Ef ætlast er til að nemendur handleiki tæki verða þeir að vera í einnota hönskum. Gisting 1. Ekki er ásættanlegt að nemendum sé gert að gista í sameiginlegu rými þar sem fólki er ókleift að viðhalda persónulegum sóttvörnum. 2. Ferðir verða að vera dagsferðir eingöngu en þó er mögulegt að gista á stöðum þar sem fólk getur verið í einmenningsherbergjum, t.d. á Laugarvatni. Nánari leiðbeiningar á vef Ferðamálastofu um gistingu Leiðbeiningar í tengslum við sameiginlega snyrtiaðstöðu Doktorsnemar og nýdoktorar Hvernig á ég sem doktorsnemi eða nýdoktor að haga vinnu minni? Vegna mögulegra erfiðleika doktorsnema og nýdoktora á styrkjum við að sinna námi og vinnu vegna aðstöðuvanda, sem hefur komið upp í tengslum við COVID-19 faraldurinn, skal hafa eftirfarandi í huga: Ef ljóst er að um óhjákvæmilegt vinnutap er að ræða, hvort sem ástæðan er tengd lokun húsnæðis, veikindum eða vegna annarra þátta, skal halda utan um þann tíma sem tapast og skýra ástæður vinnutapsins. Að loknu COVID-19 tímabilinu skal yfirlit um vinnutap og ástæður þess sent til mannauðsstjóra viðkomandi fræðasviðs, undirritað af doktorsnema/nýdoktor og leiðbeinanda/umsjónarmanni. Háskólinn mun leitast við að bæta doktorsnemum og nýdoktorum sem eru á styrk upp slíkt vinnutap. Hvert mál verður skoðað sérstaklega og afstaða tekin á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga svo fljótt sem auðið er. Vinsamlegast leitið til Vísinda- og nýsköpunarsviðs ef frekari upplýsinga er þörf. Nánari upplýsingar Forsetar fræðasviða miðla upplýsingum til nemenda og starfsfólks sviðanna um sértækar aðgerðir sem varða tiltekna hópa sérstaklega, s.s. nemendur í klínísku námi. Ábendingar og spurningar til neyðarstjórnar berist á netfangið neydarstjorn@hi.is Nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands eru minntir á mikilvægi þess að fylgja leiðbeiningum sóttvarnalæknis, nýjustu upplýsingar er ávallt að finna á vef Landlæknisembættisins. Þar er einnig að finna spurningar og svör um sjúkdómseinkenni og annað varðandi kórónaveiruna og COVID-19. Vakin er athygli á viðbragðsáætlun Háskóla Íslands vegna COVID-19 faraldursins Gagnlegir tenglar Réttindamál á vinnumarkaði vegna COVID-19 - félagsmenn BHM emailfacebooklinkedintwitter
Þarfnast þessi síða lagfæringar? Var efnið hjálplegt? Var efnið hjálplegt? * Já Nei Endilega láttu okkur vita hvað má betur fara * Viltu fá svar frá okkur? Viltu fá svar frá okkur? Netfang * Svo hægt sé að hafa samband við þig. Skjáskot Settu inn skjáskot hér ef þú telur þörf á.Skrár verða að vera minni en 2 MB.Leyfðar skráartegundir: gif jpg jpeg png. CAPTCHASía fyrir ruslpóst Hvaða stafir eru á myndinni? * Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.