Vísinda- og menntastefna | Háskóli Íslands Skip to main content

Vísinda- og menntastefna

Vísinda- og menntastefna Háskóla Íslands 

Samþykkt á háskólafundi 6. apríl 2001, með breytingum samþykktum 23. maí 2003

Þessi stefna féll úr gildi þegar stefna Háskóla Íslands 2006-2011 tók gildi. 

Efnisyfirlit

Inngangur

I. Kennsla

II. Rannsóknir

III. Fræðsla og þjónusta
 

Inngangur

Hlutverk háskólafundar við stefnumótun

Hlutverk háskólafundar við stefnumótun Háskólans er rakið í 7. gr. laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999. Fundinum er fyrst og fremst ætlað að vinna að þróun og eflingu Háskóla Íslands og móta og setja fram sameiginlega vísinda- og menntastefnu Háskólans. Gert er ráð fyrir, að með samþykktum sínum um stefnumörkun móti háskólafundur stefnu þá sem háskólaráði og rektor er ætlað að taka mið af.

Háskóli Íslands er langstærsta kennslu- og rannsóknastofnun landsins og er því mikilvægt að hann móti skýra og metnaðarfulla vísinda- og menntastefnu. Slík stefna á að vera leiðarljós og hvatning fyrir starfsmenn og stjórnendur Háskólans, en um leið almenn yfirlýsing um metnað hans til að gegna þessu þýðingarmikla hlutverki, hvort heldur er í þágu fræðanna, stúdenta, íslensks samfélags eða í alþjóðlegu vísindasamstarfi. Eðli málsins samkvæmt verður vísinda- og menntastefna Háskólans sífellt að vera til umræðu og endurskoðunar og í reynd lýkur stefnumótunarstarfinu aldrei.

Háskólafundurinn setur fram almenna stefnu fyrir Háskólann í heild, sem er einskonar yfirlýsing um það hvað Háskólinn er og hvað hann vill vera. Hver háskóladeild fyrir sig mótar sína eigin stefnu og áherslur á vettvangi deildarfunda að frumkvæði deildarforseta. Gert er ráð fyrir að stefnumótun einstakra deilda taki mið af vísinda- og menntastefnu Háskólans. Hið sama á við um stefnu í einstökum málaflokkum, sem taka til Háskólans alls, s.s. starfsmannastefnu Háskóla Íslands og jafnréttisáætlun Háskóla Íslands.

Forsenda stefnunnar

Forsenda stefnunnar er gefin í hlutverki Háskólans eins og það er skilgreint í 1. gr. laga um Háskóla Íslands; Háskólinn skal vera vísindaleg rannsókna- og fræðslustofnun er veiti nemendum sínum menntun til að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og gegna ýmsum störfum í þjóðfélaginu sem krefjast mats og úrlausna á grunni fræðilegrar þekkingar og reynslu. Háskóli Íslands skal einnig sinna endur- og símenntun þeirra sem lokið hafa háskólaprófi, miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar, allt eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum og öðrum reglum er gilda um skólann.

Hlutverk Háskóla Íslands

Hlutverk Háskólans er fyrst og fremst að annast kennslu og sinna rannsóknum fræðanna vegna og í þágu íslensks samfélags. Þetta meginhlutverk felur almennt í sér skipulega viðleitni til að afla, skapa, varðveita og miðla þekkingu í víðasta skilningi. Fræðsla og þjónusta eru framhald þess; ýmist í mynd skipulegrar fræðslu og þjónustu við samfélagið, s.s. endurmenntunar, eða fræðslu og þjónustu sem byggist á frumkvæði einstakra kennara eða sérfræðinga og samstarfi þeirra við ýmsa aðila í þjóðfélaginu og á alþjóðavettvangi. Háskólanum ber að leggja sérstaka rækt við þær fræðigreinar er varða Ísland og Íslendinga sérstaklega. Á þessum sviðum eiga Íslendingar að leitast við að gegna forystuhlutverki í hinu alþjóðlega vísindasamfélagi.

Frelsi, skyldur, ábyrgð og traust

Vaxtarbroddur kennslu og rannsókna felst í frelsi kennara til að kenna og rannsaka eftir sínu höfði, innan þess ramma sem deild setur. Kennarar ákveða sjálfir námsefni og efnistök og velja sér sjálfir viðfangsefni til rannsókna án íhlutunar annarra. Þetta mikilvæga frelsi felur í sér skyldu og ábyrgð gagnvart fræðunum, leitinni að sannleikanum, og gagnvart stúdentum, samstarfsfólki og samfélaginu sem Háskólinn er hluti af. Gerðar eru strangar kröfur til þeirra sem treyst er fyrir starfrækslu Háskólans um skilvirkni og vönduð vinnubrögð.

Kröfur til háskólakennara og sérfræðinga

Af háskólakennurum og sérfræðingum er krafist tiltekinnar menntunar og reynslu. Þeir eru ráðnir að undangengnu mati dómnefndar sem skal láta í ljós rökstutt álit um hvort ráða megi af vísindagildi rita þeirra og rannsókna, svo og námsferli þeirra og störfum, að þeir séu hæfir til að gegna störfum háskólakennara eða sérfræðinga. Við framgang skal líta til allra fyrrgreindra starfsþátta, auk kennslu, eftir því sem mögulegt er. Standist starfsmaður ekki almennar kröfur um virkni og vönduð vinnubrögð skal tekið mið að því í framgangskerfinu og við framhald ráðningar í Háskólanum.

Kennsla

Háskólanám og kennsla lúta tilteknum formskilyrðum. Nemendur sem hefja háskólanám skulu hafa öðlast þá þekkingu og þroska sem stúdentsprófi er ætlað að veita. Það á jafnframt að fela í sér nauðsynlegan undirbúning til að takast á við háskólanámið. Grunnnám tekur almennt 3 til 6 ár og skiptist í einstök námskeið sem saman mynda eina heild. Háskóladeildir bera ábyrgð á kennslu og rannsóknum sem tengjast henni. Þær ákveða uppbyggingu námsins og skiptingu þess í námskeið og veita háskólagráðu við lok náms og er hún staðfest af deildarforseta.

Háskólakennarar eru ráðnir að háskóladeildum og bera þeir í umboði deildar ábyrgð á vali námsefnis, kennslu og námsmati. Í háskólanámi og -kennslu eru gerðar kröfur um vísindaleg vinnubrögð sem ekki er vikið frá og stöðugt mat fer fram á kennslu og námskeiðum með kennslukönnunum, árlegri endurskoðun kennsluskrár, umræðum í deildum og skorum og úttektum á einstökum fræðasviðum eða deildum.

Rannsóknir

Sköpun nýrrar þekkingar og þróun tækni eru forsendur framfara og gegnir Háskólinn þar mikilvægu hlutverki með rannsóknum sínum og framhaldsnámi. Háskólakennurum og sérfræðingum er treyst til að gegna forystu í rannsóknum á sínu fræðasviði. Þeir eiga að kenna vísindaleg vinnubrögð, þekkingarleit og þjálfa nemendur í að leggja gagnrýnið mat á gamla og nýja þekkingu. Við nýráðningu og framgang þurfa kennarar og sérfræðingar að hafa sannað það með verkum sínum að þeir séu hæfir og ötulir vísindamenn. Þeim ber að birta niðurstöður rannsókna sinna á vísindalegum vettvangi, sem gerir strangar fræðilegar kröfur, og leitast jafnframt við að kynna þær fyrir almenningi eftir því sem kostur er. Greinargerð þeirra fyrir rannsóknum sínum er forsenda þess að unnt sé að meta verk þeirra og gera stjórnvöldum grein fyrir árangri Háskólans í rannsóknum.

Rannsóknir framhaldsnema undir leiðsögn kennara eiga að efla rannsóknastarfið. Nemendur í rannsóknanámi þurfa að fá þjálfun í að takast á við fræði- og vísindastörf og öðlast með því góðan undirbúning til þeirra starfa í atvinnu- og þjóðlífi, þar sem ögun í vísindalegum vinnubrögðum nýtist vel.

Fræðsla og þjónusta

Háskólinn veitir þjóðfélaginu fræðslu og þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Fræðsla og þjónusta eru afleiðing og framhald meginhlutverks Háskólans, kennslu og rannsókna. Skilin á milli fræðslu og þjónustu eru ekki ávallt skýr og því eru þessir þættir felldir saman í vísinda- og menntastefnu Háskólans. Með fræðslu- og þjónustustefnu er leitast við að skilgreina hvaða tegund fræðslu og þjónustu Háskólinn veitir, hverjir veita hana, hverjir ættu að veita henni viðtöku, hver markmiðin eru og hver eru réttindi og skyldur þeirra sem veita hana og njóta hennar.

Með fræðslu er almennt átt við miðlun þekkingar utan reglubundinnar kennslu við Háskólann. Fræðsla getur m.a. falist í endur- og símenntun, fræðslu til almennings með opnum fyrirlestrum og fundum, ýmiss konar útgáfu eða þátttöku í umræðu um málefni af ýmsu tagi. Með þjónustu er átt við að Háskólinn veiti þjóðfélaginu þjónustu sína í formi rannsókna, kennslu, fræðslu og sérfræðilegrar ráðgjafar. Mikilvægasta þjónustan við þjóðfélagið, sem Háskólanum ber að veita, er að mennta og þjálfa nemendur til margvíslegra starfa í þjóðfélaginu.

Dæmi um skipulagða starfsemi af þessu tagi er þjónustustarfsemi rannsóknastofnana Háskólans sem og þjónustustofnana hans. Dæmi um tilfallandi þjónustu eru álitsgerðir og ráðgjöf um margvísleg álitaefni sem eftir er leitað.

Framsetning vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands

Vísinda- og menntastefna Háskólans er greind í þrjá kafla, (I.) kennslu, (II.) rannsóknir og (III.) fræðslu og þjónustu, sem hver um sig er greindur í þrjá þætti, (a.) stefnu, (b.) framkvæmd og útfærslu og (c.) umsjón og ábyrgð. Í stefnunni er sett fram yfirlýsing um þau markmið sem stefna ber að, framkvæmd og útfærsla er skýring á því hvernig stefnan skuli framkvæmd og umsjón og ábyrgð fjallar um tilmæli um það hver eða hverjir hafi umsjón með framkvæmd stefnunnar og beri ábyrgð á henni. Við framkvæmd vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands ber og að taka mið af ýmsum öðrum stefnumarkandi gögnum sem henni tengjast. Ber þar sérstaklega að hafa starfsmannastefnu Háskóla Íslands og jafnréttisáætlun Háskóla Íslands í huga.

I. Kennsla

Stefna

Háskóli Íslands er hluti af hinu alþjóðlega vísindasamfélagi. Metnaður hans er að vera þar í fremstu röð með vandaðri kennslu sem stenst fræðilegan samanburð á alþjóðlegum vettvangi. Meginmarkmið kennslu við Háskóla Íslands er að þjálfa nemendur til að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og takast á við margvísleg störf í þjóðfélaginu. Í þessu felst að kennslan tekur í senn mið af þörfum þjóðlífsins og forsendum fræðigreina. Meginmarkmið náms við Háskóla Íslands er að nemendur tileinki sér þekkingu, öðlist þroska og temji sér ögun í vinnubrögðum, geti beitt henni, hagnýtt hana á sjálfstæðan, skapandi og gagnrýninn hátt og til öflunar nýrrar þekkingar.

Nemendur eru ábyrgir fyrir námi sínu og skulu kennsluhættir miðaðir við virka þátttöku þeirra. Kappkostað skal að vekja umræður og hvetja til fræðilegrar gagnrýni. Að því skal stefnt að sérkenni einstakra fræðasviða og greina fái notið sín í skipulagi kennslu sem og að beitt sé fjölbreyttum kennsluaðferðum. Sérstaklega skal leitast við að endurnýja og þróa kennsluna. Stuðla skal að fjölbreyttu námsmati.

Háskólinn stefnir að því að gæði kennslu og náms uppfylli sambærilegar kröfur og gerðar eru til hliðstæðs náms við erlenda háskóla. Háskólinn einsetur sér að skipuleggja kennsluna þannig að sérhver nemandi fái tækifæri til þess að mennta sig með faglegum og persónulegum tengslum við kennara og samnemendur. Rannsóknum og kennslu skal fléttað saman á öllum stigum náms, eftir því sem kostur er.

Stefnt skal að því að aðbúnaður kennara og stúdenta standist samanburð við það sem best gerist í öðrum háskólum. Þar ber helst að gæta að kennsluhúsnæði, tölvuaðstöðu, skrifstofuþjónustu við kennara, bóka- og tímaritakosti, aðgangi að gagnabönkum og vefritum, lesaðstöðu og tækifærum til innlendra og erlendra samskipta.

Háskólinn setur sér að efla framhaldsnám, meistara- og doktorsnám, á sem flestum fræðasviðum og að bæta vinnuaðstöðu nemenda í framhaldsnámi. Háskólinn leitast við að mæta þörfum samfélagsins með því að bjóða upp á nýjar greinar í grunnnámi, auk endur- og símenntunar. Efla skal samstarf Háskóla Íslands og erlendra háskóla og rannsóknastofnana með stúdenta- og kennaraskiptum, sameiginlegum námskeiðum og samvinnu um þróun og mat á kennslu og námi.

Framkvæmd og útfærsla

Háskóladeildir skulu skilgreina markmið námskeiða og námsins í heild í hverri kennslugrein. Á vettvangi skora og deilda skulu kennarar ræða reglulega um markmið kennslu sinnar, skilgreina mælikvarða og ræða hvernig best megi ná settum markmiðum og fylgjast með þróun í erlendum háskólum.

Samkvæmt lögum um Háskóla Íslands skulu deildir setja sér reglur um kennslu og kennsluhætti. Slíkar reglur skulu meðal annars taka tillit til fyrirlestra, verkefna, heimavinnu stúdenta, æfinga, umræðutíma, dæmatíma, verkþjálfunar, prófa, hópastærða og námsmats.

Háskólinn setur sér að efla framhaldsnám á næstu árum. Til að ná því markmiði verði samin sérstök framkvæmdaáætlun sem lögð verði fyrir háskólaráð. Kennarar eru hvattir til þess að kynna eigin rannsóknir og fræðasvið fyrir stúdentum eftir því sem færi gefst. Jafnframt leitist kennarar Háskólans við að virkja nemendu til þátttöku í rannsóknum sínum.

Veita skal nemendum greiðan aðgang að upplýsingum um kennslu og nám við Háskólann, m.a. með hjálp upplýsingatækni.

Kennslumiðstöð Háskóla Íslands veitir kennurum ráðgjöf og fræðslu um kennsluaðferðir og kennslutækni, nýtingu upplýsingatækni, fyrirmyndir um góða kennslu og aðferðir við sjálfsmat kennara.

Háskólinn skal þróa formlegt gæðakerfi þar sem skilgreindir eru þeir þættir sem koma til álita við gæðamat og mælikvarðar sem notaðir verða. Gæðamat skal vera skilvirkt og hnitmiðað en ekki of tímafrekt í framkvæmd. Ákveða skal fyrirfram hvernig niðurstöður matsins verði nýttar. Formlegt gæðakerfi skal m.a. taka til gæðamats á kennslu við framgang kennara og röðun þeirra til launa.

Stuðla skal að samspili kennslu og þjóðlífs, m.a. með því að ráða að Háskólanum sérfræðinga, sem starfa í atvinnulífinu eða á öðrum sviðum þjóðlífsins, gera samstarfssamninga við fyrirtæki og stofnanir á sviði kennslu, gefa nemendum kost á að kynnast störfum utan Háskólans og veita þeim starfsþjálfun.

Umsjón og ábyrgð

Háskóladeildir, kennslusvið og kennslumálanefnd háskólaráðs bera ábyrgð á stefnunni og framkvæmd hennar. Kennslustefna Háskóla Íslands skal endurskoðuð reglubundið á háskólafundi.

II. Rannsóknir

Stefna

Háskóli Íslands er rannsóknaháskóli og hann er hluti af hinu alþjóðlega vísindasamfélagi. Metnaður hans er að vera þar í fremstu röð með vönduðum rannsóknum sem standast fræðilegan samanburð á alþjóðlegum vettvangi og hafa einnig mikilvæga þýðingu fyrir íslenskt samfélag. Kennarar og sérfræðingar við Háskóla Íslands hafa rannsóknafrelsi. Í því felst að kennarar og sérfræðingar velja sér sjálfir viðfangsefni á fræðasviði sínu. Þetta felur í sér ábyrgð og skyldur. Niðurstöður rannsókna skulu kynntar á vísindalegum vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur. Þær skulu einnig kynntar íslenskum almenningi eftir því sem kostur er. Háskólinn vill bjóða upp á öflugt rannsóknanám á sem þestum fræðasviðum. Auka skal samvinnu milli fræðasviða og fjölbreytni þeirra rannsókna sem stundaðar eru við Háskólann. Rannsóknir við Háskóla Íslands séu stundaðar í samstarfi við aðra háskóla, rannsóknastofnanir og fyrirtæki, eftir því sem tækifæri og tilefni gefast. Háskólinn leitast við að tryggja kennurum, sérfræðingum og nemendum góða aðstöðu og frjótt umhverfi til að stunda rannsóknir.

Framkvæmd og útfærsla

Háskólinn skal veita kennurum og sérfræðingum aðgang að öflugum rannsókna- og tækjakaupasjóðum sem veitt er úr á samkeppnisgrundvelli. Háskólinn skal leitast við að tryggja eins og kostur er aðgang að upplýsingum, bókum og öðrum ritum í þágu rannsókna. Háskólinn þarf að geta laðað til sín hæft starfsfólk. Vinnuumhverfi og kjör þurfa því að vera með þeim hætti að störf við skólann þyki eftirsóknarverð. Háskólinn skal efla framhaldsnám og hvetja nemendur til framhaldsnáms. Tryggja verður gæði framhaldsnámsins svo það standist alþjóðlegan samanburð.

Kennarar og sérfræðingar skulu gera Háskólanum reglulega grein fyrir rannsóknum sínum og niðurstöðum þeirra. Ritverk og önnur hugverk skulu metin m.a. með tilliti til röðunar í grunnlaunaflokka, greiðslna úr vinnumatssjóðum og framgangs. Rannsóknamatskerfi Háskólans skal vera gegnsætt og í samræmi við rannsóknastefnu skólans. Nauðsynlegt er að kerfi þetta sé í sífelldri þróun og endurskoðun.

Starfsfólk Háskólans skal leitast við að sækja um styrki úr rannsóknasjóðum, innlendum og erlendum, eða frá öðrum aðilum. Háskólinn stuðlar að birtingu niðurstaðna og ritvirkni með öflugum vinnumatssjóðum, enda er ritvirkni nú orðinn einn helsti mælikvarði rannsóknasjóða við úthlutun.
Háskólinn skal setja sér skýrar siðareglur, reglur um samvinnu við fyrirtæki utan Háskólans og við sprotafyrirtæki svo og um höfundarrétt og eignarhald á rannsóknaniðurstöðum.

Greiða skal fyrir þátttöku starfsfólks í hinu alþjóðlega vísindasamfélagi, svo sem með reglulegum rannsóknamisserum. Háskólinn skal leitast við að hafa í boði tímabundin gestastörf fyrir erlenda
fræðimenn.

Umsjón og ábyrgð

Háskóladeildir, rannsóknastofnanir, rannsóknasvið og vísindanefnd háskólaráðs bera ábyrgð á stefnunni og framkvæmd hennar. Rannsóknastefna Háskóla Íslands skal endurskoðuð reglubundið á háskólafundi.

III. Fræðsla og þjónusta

Stefna

Háskóli Íslands miðlar fræðslu til almennings og veitir þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Háskólakennarar og sérfræðingar skulu, eftir því sem unnt er, stuðla að því að fræðigreinar þeirra komi að gagni fyrir samfélagið. Þess vegna er það eitt af hlutverkum háskólakennara og sérfræðinga að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að upplýsa samfélagið um fræðigrein sína, benda á hvað hún hafi fram að færa og vara við misbeitingu hennar. Leitast skal við að sú fræðsla og þjónusta sem Háskólinn veitir verði kennslu og rannsóknum til framdráttar.

Fræðslu- og þjónustuhlutverkið er hluti af félagslegri ábyrgð kennara og sérfræðinga Háskólans sem leiðir af þekkingu þeirra og stöðu í samfélaginu.

Framkvæmd og útfærsla

Háskólafólk skal, eftir því sem unnt er, veita íslensku þjóðfélagi þjónustu, s.s. með:

  • öflun, varðveislu, miðlun og hagnýtingu þekkingar í samstarfi við einstaklinga, fyrirtæki, samtök, stofnanir og stjórnvöld;
  • þjónusturannsóknum, þ.e. öflun nýrrar þekkingar með rannsóknum sem fyrirtæki og stofnanir eða aðrir aðilar þarfnast og leitað er eftir;
  • nefndarstörfum og ráðgjöf.

Háskólafólk skal, eftir því sem unnt er, veita hinu alþjóðlega vísindasamfélagi þjónustu, s.s. með:

  • Störfum í ritnefndum vísindatímarita og ritrýni;
  • störfum fyrir erlenda háskóla og vísindastofnanir;
  • störfum í stjórn vísindafélaga;
  • skipulagningu ráðstefna innan lands og utan.

Háskólinn þarf að hafa til ráðstöfunar fé til sérstakra fræðslu- og þjónustuverkefna á vegum háskólastofnana og einstakra háskólakennara.

Nýta þarf hvers konar tækni sem býðst til að auðvelda starfsmönnum Háskólans að rækja fræðslu- og þjónustuhlutverk sitt. Styrkja ber samstarf við fjölmiðla og aðra aðila sem miðla vísindum og fræðum til almennings.

Umsjón og ábyrgð

Deildir Háskólans, sameiginleg stjórnsýsla, einstakir kennarar og sérfræðingar, stofnanir og nefndir hafa umsjón með framkvæmd stefnu Háskóla Íslands í málefnum fræðslu og þjónustu og bera ábyrgð á henni, eftir því sem við á hverju sinni. Fræðslu- og þjónustustefna Háskóla Íslands skal endurskoðuð reglubundið á háskólafundi.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.