Stefna Háskóla Íslands 2011–2016 | Háskóli Íslands Skip to main content

Stefna Háskóla Íslands 2011–2016

Netspjall

Stefna 2011-2016 (pdf)

ÁVARP REKTORS

Háskóli Íslands hefur þjónað íslensku samfélagi í hundrað ár og ávallt verið virkur þátttakandi í uppbyggingu þess. Á aldarafmæli háskólans líta starfsfólk og stúdentar fram á veginn og einsetja sér að efla íslenskt samfélag með auknum árangri í kennslu, rannsóknum, nýsköpun, tengslum við atvinnu- og þjóðlíf, samfélagslegri ábyrgð og alþjóðlegu samstarfi. Háskóli Íslands þjónar íslensku samfélagi ótvírætt best með því að vera í senn öflugur alþjóðlegur háskóli og leiðandi íslensk menntastofnun þar sem stundaðar eru kraftmiklar rannsóknir á íslenskri menningu, tungu, samfélagi og náttúru.

Árið 2006 setti Háskóli Íslands sér metnaðarfull markmið um að komast í hóp fremstu háskóla líkt og margir háskólar á Norðurlöndum. Skólinn setti sér fjölmörg áfangamarkmið á þessari vegferð og allt starfsfólk hans hefur lagst á eitt við að ná þeim. Árangur undanfarinna ára sýnir að langtímamarkmið skólans er raunhæft. Nú hafa kringumstæður í samfélaginu gerbreyst og þegar skólinn markar stefnuna fyrir árin 2011–2016 tekur hann mið af þessum breytingum. Háskóli Íslands ítrekar markmið sín og telur að aldrei hafi verið jafn brýnt og nú að setja markið hátt í háskólastarfi. En nú þarf að finna nýjar leiðir og beita nýjum aðferðum. Árangur byggist á því að stilla saman krafta og nýta betur það sem úr er að spila. Þar skiptir miklu vilji til aukins samstarfs, jafnt á sviði kennslu sem rannsókna, og vilji til þverfræðilegrar samvinnu. Árangur í kennslu og rannsóknum gefur skólanum færi á að vinna meira og náið með leiðandi mennta- og rannsóknastofnunum í öllum heimshlutum og gefur nemendum í vaxandi mæli tækifæri til að taka hluta af námi við slíkar stofnanir. Þannig sameinast kraftar í alþjóðlegu samstarfi og íslenska menntakerfið stækkar og eflist.

Lærdómurinn sem við drögum af hundrað ára starfsemi Háskóla Íslands er að fjárfesting í menntun og rannsóknum er ein meginforsenda þróttmikils samfélags sem er grundvallað á öflugu atvinnulífi, lýðræði, jafnrétti og velferð borgaranna. Skylda Háskóla Íslands gagnvart íslensku samfélagi og umheiminum er að mennta ábyrgt ungt fólk sem er fært um að taka virkan þátt í uppbyggingu okkar eigin samfélags og alþjóðasamfélagsins og fást við ný og ögrandi viðfangsefni 21. aldar.

 

Kristín Ingólfsdóttir

rektor Háskóla Íslands

 

 

STAÐA OG STYRKUR HÁSKÓLA ÍSLANDS

Háskóli Íslands er alþjóðlegur rannsóknaháskóli og hefur jafnframt ríkum skyldum að gegna við íslenskt samfélag, menningu og tungu. Í háskólanum eru um 14.000 nemendur í grunn- og framhaldsnámi, þar af eru um 1.100 erlendir nemar. Háskólinn hefur heimild til að brautskrá doktora á öllum fræðasviðum sínum. Skólinn er í nánu samstarfi við marga af helstu rannsóknaháskólum og háskóladeildum heims. Rannsóknavirkni starfsmanna hefur vaxið hratt á undanförnum árum og sýna alþjóðlegir mælikvarðar að áhrif rannsókna þeirra hafa aukist verulega.

Árið 2006 setti Háskóli Íslands sér það langtímamarkmið að komast í hóp hundrað fremstu háskóla í heimi. Önnur Norðurlönd eiga átta skóla í þessum hópi, en þeir eru Háskólinn í Kaupmannahöfn, Háskólinn í Árósum, Háskólinn í Osló, Karolinska Institutet í Stokkhólmi, Háskólinn í Uppsölum, Háskólinn í Lundi, Háskólinn í Stokkhólmi og Háskólinn í Helsinki. Auk þess eru á annan tug norrænna háskóla, sem eru svipaðir að stærð og uppbyggingu og Háskóli Íslands, á meðal fremstu háskóla heims. Árangur Háskóla Íslands á undanförnum árum sýnir að raunhæft er að stefna áfram að þessu langtímamarkmiði.

Fyrsti áfangi á þessari vegferð var Stefna Háskóla Íslands 20062011. Meginmarkmið stefnunnar var að ná framúrskarandi árangri á sviði rannsókna, kennslu, stjórnunar og stoðþjónustu. Stefnan fól í sér ríflega eitt hundrað mælanleg og tímasett undirmarkmið sem lúta að öllum sviðum starfseminnar. Í framhaldinu settu allar deildir háskólans sér stefnu og markmið sem byggðust á heildarstefnunni. Meðal helstu markmiða Háskóla Íslands til ársins 2011 voru að:

 • tvöfalda fjölda vísindagreina í virtustu alþjóðlegum ritrýndum tímaritum
 • auka samstarf við erlenda háskóla og háskóladeildir í fremstu röð í heiminum
 • auka sértekjur, m.a. úr innlendum og erlendum rannsóknasjóðum
 • fimmfalda árlegan fjölda brautskráðra doktora
 • efla gæðakerfi kennslu
 • setja á stofn Miðstöð framhaldsnáms til að tryggja gæðakröfur í framhaldsnámi
 • efla stoðþjónustu við rannsóknir og kennslu
 • innleiða nýtt skipulag og stjórnkerfi til að auðvelda sókn að settum markmiðum.

 

Afar mikilvægt skref var stigið árið 2007 með árangurstengdum samningi Háskóla Íslands og stjórnvalda um fjármögnun stefnunnar. Háskólinn hefur fylgst náið með framgangi hennar og gert árlega grein fyrir árangrinum. Nú undir lok fyrsta áfanga stefnunnar hefur háskólinn lagt heildstætt mat á framkvæmdina og fyrir liggur að flestum markmiðum hefur verið náð og í sumum tilvikum sýna lykilmælikvarðar að árangur hefur verið umfram áætlanir. Á tímabilinu 2005–2010

 • fjölgaði vísindagreinum fræðimanna háskólans í virtum alþjóðlegum ritrýndum tímaritum úr 260 í 550 (2009) og tilvitnunum úr 5.100 í 10.000 (2009)
 • jókst heildarfjárhæð sértekna um 78% og styrkir úr erlendum samkeppnissjóðum þrefölduðust
 • fjölgaði doktorsnemum úr 166 í 440 og brautskráðum doktorum úr 13 árið 2005 í 36 árið 2010
 • fjölgaði styrkjum til doktorsnema í 106 en engir slíkir styrkir voru í boði árið 2005

 

Fjölmörgum öðrum framfaramálum stefnunnar hefur verið hrint í framkvæmd í fyrsta áfanga. Matskerfi rannsókna hefur verið endurskoðað, nýtt ráðningar- og framgangskerfi innleitt, gæðanefnd háskólaráðs sett á laggirnar, samstarf við fremstu háskóla í heimi eflt, tengsl við atvinnulíf styrkt og markvissum aðgerðum beitt til að laða að hæfustu nemendurna og auka virkni í námi. Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands voru sameinaðir 1. júlí 2008 í þeim tilgangi að efla kennaramenntun og rannsóknir í mennta- og uppeldisvísindum.

Annar áfangi að langtímamarkmiðinu er Stefna Háskóla Íslands 20112016. Í henni er lögð áhersla á að efla gæði og styrkja innviði allra þátta háskólastarfsins. Í því skyni hefur háskólinn sett sér markmið um rannsóknir og nýsköpun, nám og kennslu, mannauð og ábyrgð gagnvart samfélaginu og umheiminum. Helstu stef stefnunnar eru áhersla á gæðarannsóknir og alþjóðlegt samstarf, þróttmikið framhaldsnám sem uppfyllir alþjóðlegar gæðakröfur, samþættingu kennslu og rannsókna á öllum námsstigum, eflingu mannauðs og starfsánægju stúdenta og starfsmanna og samfélagslega og hnattræna ábyrgð á 21. öld.

 

GRUNNGILDI HÁSKÓLA ÍSLANDS

 

 

Akademískt frelsi

Í Háskóla Íslands ríkir akademískt frelsi sem stuðlar að gagnrýninni og frjórri hugsun, áræðni og víðsýni. Starfsmenn rækja störf sín af fagmennsku og ábyrgð. Viðurkennd gildi vísindasiðferðis eru ávallt í heiðri höfð.

 

Samfélagsleg ábyrgð

Háskólinn fer með lykilhlutverk í íslensku samfélagi og ber ríka samfélagslega ábyrgð sem hann sinnir einkum með kennslu og rannsóknum. Skólinn hvetur starfsmenn sína til þátttöku í opinberri umræðu og uppbyggingu íslensks samfélags í krafti sérþekkingar sinnar. Lögð er rík áhersla á að efla siðferðilega dómgreind, vitund um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð starfsmanna jafnt sem nemenda og þar með samfélagsins alls til lengri tíma.

 

Sjálfstæði og ráðdeild

Íslenskt samfélag felur Háskóla Íslands veigamikið hlutverk og leggur honum til fjármuni til að rækja það. Háskólinn er sjálfstæður og axlar ábyrgð á því að fara vel með þetta fé í þágu samfélagsins og skila hagkvæmu og árangursríku starfi.

 

Fjölbreytni og árangur

Við Háskóla Íslands er boðið nám og stundaðar rannsóknir á öllum helstu sviðum vísinda og fræða um leið og skólinn leggur áherslu á að ná afburðaárangri á tilteknum sviðum.

 

Heilindi og virðing

Í öllu starfi Háskóla Íslands er áhersla lögð á heiðarleg og vönduð vinnubrögð. Samskipti einkennast af gagnkvæmri virðingu og trausti.

 

Jafnrétti og fjölbreytileiki

Háskóli Íslands leggur áherslu á lýðræðisleg vinnubrögð og jafnrétti á öllum sviðum starfseminnar. Háskólinn vill ávallt vera í fararbroddi í jafnréttismálum. Fjölbreytileiki stúdenta og starfsmanna er styrkur Háskóla Íslands.

 

 

1. STEFNA UM RANNSÓKNIR OG NÝSKÖPUN

Háskóli Íslands er ört vaxandi rannsóknaháskóli sem hefur sett sér það langtímamarkmið að vera í hópi fremstu háskóla í heimi. Í því skyni leggur skólinn áherslu á frjótt rannsóknaumhverfi, árangur í rannsóknum, öflugt meistara- og doktorsnám, nýsköpun og hagnýtingu þekkingar. Áfram verður kostað kapps um að tryggja skilvirkni og gæði á öllum sviðum háskólastarfsins. Háskóli Íslands mun renna stoðum undir stefnu sína með markvissri sókn í erlenda og innlenda samkeppnissjóði. Innviðir doktorsnámsins verða styrktir í samræmi við alþjóðlega viðurkennda mælikvarða og gæðaviðmið. Mikilvægt er að virkja á nýjan leik samning Háskóla Íslands og stjórnvalda um fjármögnun stefnunnar og tryggja með þeim hætti að markmið hennar nái fram að ganga.

 

Frjótt rannsóknaumhverfi

Til að tryggja áframhaldandi sókn á sviði rannsókna, nýsköpunar og þróunarstarfs hyggst háskólinn bæta enn frekar aðstöðu og stuðning við metnaðarfullt rannsóknastarf og hagnýtingu þekkingar.

 • Samstarf við fremstu háskóla og háskóladeildir heims verði eflt með skipulegum hætti, m.a. með nemenda- og kennaraskiptum, akademískum gestastörfum, leiðbeiningu doktorsnema og stuðningi við sameiginleg rannsóknaverkefni.
 • Háskóli Íslands beiti sér fyrir auknu samstarfi við innlendar rannsóknastofnanir, háskóla, fyrirtæki og menningarstofnanir, m.a. til að samnýta mannauð, aðstöðu til rannsókna, húsnæði og tækjakost.
 • Markvisst verði unnið að aukinni sókn í innlenda og erlenda samkeppnissjóði. Í því skyni verði einstökum fræðimönnum og rannsóknahópum sem afla rannsóknastyrkja umbunað sérstaklega, m.a. með því að heimila þeim að nýta hluta mótframlags háskólans til eigin rannsóknaverkefna. Starfskjör taki í ríkara mæli mið af árangri starfsmanna við öflun styrkja úr samkeppnissjóðum.
 • Stoðþjónusta við styrkumsóknir í samkeppnissjóði, einkaleyfaumsóknir og hagnýtingu rannsóknaniðustaðna verði efld, m.a. á vettvangi fræðasviða og Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands.
 • Hlúð verði að öflugum vísindamönnum og rannsóknahópum með það að markmiði að efla Háskóla Íslands í alþjóðlegu vísindasamfélagi og styrkja þar með samkeppnisstöðu Íslands. Jafnframt verði leitast við að laða til háskólans vísindamenn í fremstu röð.
 • Störfum fyrir nýdoktora verði fjölgað til að efla rannsóknastarf og styrkja þjálfun ungra vísindamanna.
 • Starfsemi rannsóknasetra Háskóla Íslands á landsbyggðinni verði efld og samhæfð og tengd nánar við fræðasvið og deildir.
 • Samstarf við helstu söfn þjóðarinnar verði eflt með það fyrir augum að auka aðgang að gagnasöfnum þeirra og aðstöðu til náms og rannsókna.
 • Stjórnunar- og aðstöðugjald á sértekjur verði nýtt til uppbyggingar rannsókna og stoðþjónustu.
 • Deililíkan háskólans verði endurskoðað í því skyni að auka vægi rannsókna og sértekna, efla fræðasvið háskólans sem stjórnunareiningar, auðvelda samstarf deilda og fræðasviða og auka virkni í námi. Við endurskoðun deililíkansins verði stefnt að því að jafna greiðslur fyrir sambærilega kennslu.
 • Rannsóknaaðstaða við Háskóla Íslands verði bætt, m.a. í tengslum við sameiginlega nýbyggingu Landspítala og Heilbrigðisvísindasviðs, Hús íslenskra fræða, alþjóðlega tungumálamiðstöð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, nýtt húsnæði fyrir Menntavísindasvið og með því að hefja framkvæmdir við Vísindagarða, m.a. í þágu verkfræði- og raunvísindagreina.
 • Háskóli Íslands beiti sér fyrir því að árangurstengdur samningur við stjórnvöld um fjármögnun stefnu skólans, sem frestað var í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008, verði virkjaður á nýjan leik á aldarafmæli Háskóla Íslands.
 • Háskóli Íslands beiti sér fyrir því að ríkisvaldið efli samkeppnissjóði rannsókna í landinu.

 

Árangur í rannsóknum

Rannsóknir við Háskóla Íslands taka mið af alþjóðlega viðurkenndum mælikvörðum og gæðaviðmiðum. Lögð er rík áhersla á árangur, áhrif og gæði rannsókna og hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna.

 • Hvatt verði til fjölgunar gæðabirtinga á öllum fræðasviðum háskólans. Áhersla verði lögð á birtingarvettvang sem gerir strangar fræðilegar kröfur og eykur vísindaleg áhrif rannsóknastarfs háskólans.
 • Í hvata- og gæðakerfum háskólans verði í auknum mæli tekið mið af gæðabirtingum eins og þær eru skilgreindar á hverju fræðasviði. Þetta á m.a. við um framgangskerfið, vinnumatssjóði, kröfur til leiðbeinenda í doktorsnámi, ákvörðun starfsskyldna, rannsóknamisseri og skiptingu rannsóknafjár.
 • Háskóli Íslands gegnir forystuhlutverki í rannsóknum á íslenskri menningu og þjóðfélagi og leggur áherslu á að miðla niðurstöðum þeirra á innlendum og erlendum vettvangi.
 • Hvatt verði til aukins samstarfs vísindamanna innan Háskóla Íslands. Í því skyni mun skólinn beita sér fyrir því að skilgreina og styðja við þverfræðileg verkefni.
 • Háskóli Íslands móti sér stefnu um opinn aðgang (e. open access) að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum.
 • Vefur háskólans verði styrktur sem megin upplýsingagátt fyrir innlenda og erlenda notendur. Gert verði átak í að bæta upplýsingar um námsframboð fyrir erlenda stúdenta og kynningu á starfi og árangri háskólans á erlendum vettvangi.
 • Verðmætin sem fólgin eru í rannsóknum háskólans verði nýtt markvisst í þágu nýsköpunar og frumkvöðla- og þróunarstarfs. Í því skyni verði m.a. leitað skipulega að hagnýtanlegum verkefnum og rannsóknaniðurstöðum og gildi nýsköpunar fléttað inn í grunn- og framhaldsnám. Stoðkerfi nýsköpunar verði eflt og samhæft og samstarf aukið við aðila utan háskólans sem vinna að hliðstæðum markmiðum.
 • Kynning á nýsköpun og frumkvöðla- og þróunarstarfi verði stórefld. Skipulegt átak verði gert meðal stúdenta og starfsmanna á öllum fræðasviðum til að auka vitund þeirra um gildi nýsköpunar- og frumkvöðlastarfs. Opnuð verði vefsíða helguð nýsköpun og árleg Nýsköpunarmessa Háskóla Íslands gerð sýnilegri.

 

Öflugt meistara- og doktorsnám

Öflugt framhaldsnám sem hvílir á traustum grunni er forsenda þess að Háskóli Íslands geti rækt hlutverk sitt og náð langtímamarkmiðum sínum. Gróskumikið rannsóknanám gerir háskólanum kleift að laða til sín bestu innlendu og erlendu framhaldsnemana og færustu kennarana.

 • Stefnt er að því að árlegur fjöldi brautskráðra doktora verði hlutfallslega sambærilegur við fjölda þeirra í nágrannalöndum okkar, eða 60-70 á ári.
 • Háskólinn beiti sér fyrir því að ríkisvaldið komi að heildstæðri fjármögnun doktorsnámsins með skýrar gæðakröfur að leiðarljósi.
 • Hlutfall brautskráðra doktora frá Háskóla Íslands sem hafa sameiginlega doktorsgráðu með erlendum rannsóknaháskólum verði a.m.k. 10% árlega.
 • Virkni doktorsnema í námi verði tryggð með því að styrkja umgjörð þess, bæta aðstöðu til námsins og skýra ábyrgð leiðbeinenda. Við upphaf doktorsnáms verði gerð krafa um raunhæfa áætlun um fjármögnun og framvindu. Fylgst verði reglulega með virkni og árangri doktorsnema, m.a. með árlegum framvinduskýrslum.
 • Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands verði efld og fest í sessi, m.a. með því að fá henni ríkara eftirlits- og samræmingarhlutverk í tengslum við framkvæmd doktorsnámsins. Gildandi Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands verði endurskoðuð, m.a. með hliðsjón af hlutverki Miðstöðvar framhaldsnáms. Skilgreind verði hliðstæð formleg viðmið og kröfur fyrir rannsóknatengt meistaranám.
  • Meistaranám verði eflt, m.a. með fullnægjandi framboði námskeiða og skipulegu samstarfi við erlenda háskóla.

 

 

LYKILMÆLIKVARÐAR

 

Til að meta árangur af stefnu Háskóla Íslands um rannsóknir og nýsköpun verða eftirfarandi lykilmælikvarðar notaðir:

 • Brautskráningarhlutfall doktorsnema, þ.e. hlutfall doktorsnema sem ljúka námi á tilsettum tíma (e. graduation rate).
 • Brautskráningarhlutfall meistaranema.
 • Fjöldi námskeiða á framhaldsstigi sem stendur nemendum á hverri námsleið til boða.
 • Árleg fjölgun gæðabirtinga á hverju fræðasviði, þ.e. í ERIH-tímaritum, ISI-tímaritum og á öðrum ritrýndum vettvangi sem gerir strangar fræðilegar gæðakröfur, s.s. í bókum og bókaköflum.
 • Árleg aukning tekna úr viðurkenndum rannsóknasjóðum.
 • Fjöldi þverfræðilegra rannsóknaverkefna vísindamanna Háskóla Íslands sem hljóta styrk úr viðurkenndum rannsóknasjóðum.
 • Fjöldi samninga við öfluga innlenda og erlenda samstarfsaðila.
 • Fjöldi samstarfs- og þróunarverkefna með aðilum úr atvinnu- og þjóðlífi.
 • Fjöldi einkaleyfaumsókna, veittra einkaleyfa og sprotafyrirtækja.
 • Fjöldi annarra hagnýtingarverkefna (sem ekki leiða til stofnunar fyrirtækja og einkaleyfaumsókna).
 • Fjöldi nýdoktora.

 

 

 

2. STEFNA UM NÁM OG KENNSLU

Öflugt grunnnám á fjölbreyttum fræðasviðum hefur verið aðalsmerki Háskóla Íslands um áratuga skeið. Í krefjandi háskólanámi er lögð áhersla á sjálfstæð og vönduð vinnubrögð nemenda, nána samvinnu nemenda og kennara, góða aðstöðu til náms og fjölbreytt tækifæri nemenda til að vinna sjálfstæð rannsóknaverkefni, m.a. í samstarfi við aðila úr atvinnu- og þjóðlífi. Auk fræðilegrar þekkingar og tæknilegrar færni á tilteknu sviði á allt nám við Háskóla Íslands að stuðla að færni í vísindalegum aðferðum, gagnrýninni hugsun og traustri siðferðilegri dómgreind er nýtist stúdentum í frekara námi og starfi sem ábyrgum borgurum.

 

Samþætting kennslu og rannsókna – öflugt grunnnám

Kennsla og rannsóknir eru órjúfanlega tengd í rannsóknaháskóla. Markviss samþætting kennslu og rannsókna eykur gæði alls náms við háskólann og tryggir að kennsla og rannsóknir njóti ávallt sama forgangs.

 • Fræðasvið og deildir Háskóla Íslands marki sér skýra kennslustefnu sem kveði m.a. á um samþættingu rannsókna og kennslu á öllum námsstigum. Í stefnu fræðasviða og deilda um kennslu, kennsluhætti og námsmat komi fram skýr markmið um gæði kennslu og náms og til hvaða mælikvarða verði horft við framkvæmd stefnunnar.
 • Nemendur fái tækifæri til að kynnast hæfustu rannsakendum og kennurum skólans þegar á fyrsta ári í grunnnámi. Fjölgað verði tækifærum nemenda til að vinna að sjálfstæðum rannsóknaverkefnum sem tengjast atvinnu- og þjóðlífi.
 • Lögð verði áhersla á fjölbreytta kennsluhætti sem hvetja nemendur til virkrar þátttöku í náminu.
 • Í samvinnu við Kennslumiðstöð háskólans verði kennurum boðin fræðsla og stuðningur við að samþætta rannsóknir og kennslu í grunn- og framhaldsnámi. Lögð verði áhersla á að fá færustu sérfræðinga um samþættingu kennslu og rannsókna sem leiðbeinendur.
 • Aðstaða til rannsóknatengdrar kennslu verði bætt, m.a. með markvissri notkun upplýsingatækni, fjarkennslu og samstarfi við fremstu rannsóknaháskóla heims.
 • Háskóli Íslands gegnir lykilhlutverki við menntun fagfólks á fjölmörgum sviðum. Lögð verði áhersla á að nemendur í starfsnámi fái fjölbreytta þjálfun á vettvangi.
 • Gert verði átak í að bæta aðgang nemenda og kennara að rafrænum tímaritum og gagnasöfnum.
 • Stuðlað verði með markvissum hætti að auknu samstarfi deilda og fræðasviða í því skyni að fjölga tækifærum nemenda til að kynnast rannsakendum og rannsóknaraðferðum á ólíkum sviðum, styrkja þverfræðilegt samstarf og nýta sem best mannauð og fjármuni háskólans.
 • Háskólinn móti sér stefnu um nýtingu upplýsingatækni og fjarkennslu fyrir árslok 2011, m.a. til að greiða fyrir samstarfi við innlenda og erlenda háskóla. Fjarkennsla verði efld í völdum greinum.
 • Upplýsingalæsi nemenda verði aukið, m.a. með þjálfun í heimildaleit, notkun gagnasafna og skýrri framsetningu upplýsinga og þekkingar.
 • Hlutfallið á milli fjölda fastra kennara (ársverk) og virkra nemenda verði bætt. Sérstakt átak verði gert í deildum þar sem þörfin er brýnust.

 

Þátttaka, ástundun og ábyrgð í námi

Háskóli Íslands tryggir öllum nemendum jöfn tækifæri til góðrar menntunar sem uppfyllir viðurkenndar alþjóðlegar gæðakröfur. Við Háskóla Íslands er lögð rík áhersla á að nemendur taki sjálfir ábyrgð á eigin námi og beri virðingu fyrir þeim gæðum sem íslenskt samfélag lætur þeim í té með háskólamenntun. Mikilvægt er að allt fyrirkomulag náms við háskólann stuðli að góðri ástundun nemenda. Háskólinn leggur áherslu á að nemendur séu upplýstir um réttindi sín og komi að ákvörðunum sem varða hagsmuni þeirra.

 • Háskóli Íslands endurskoði stefnu sína um inntöku nýnema. Inntökukröfur verði endurskilgreindar og markvisst unnið að því að auka námsástundun, bæta námsframvindu og draga úr brottfalli. Endurkomuhlutfall (e. retention rate) nemenda á öðru námsári og fimm ára brautskráningarhlutfall (e. graduation rate) verði aukið um 5% á ári á tímabilinu 2011–2016.
 • Skilgreindur verði hámarkstími til að ljúka prófgráðu í öllum deildum og á öllum námsstigum. Einnig verði skilgreindur samanlagður hámarkstími sem hver nemandi hefur til að ljúka fyrstu prófgráðu.
 • Nemendum verði gert kleift að skrá sig í hlutanám frá og með haustinu 2012. Kröfur um námsframvindu taki mið af því hvort um fullt nám eða hlutanám er að ræða.
 • Lögð verði aukin áhersla á símat og fjölbreytilegar matsaðferðir og með því dregið úr vægi lokaprófa.
 • Háskóli Íslands leggur áherslu á skilvirka og áreiðanlega miðlun upplýsinga um nám og kennslu í samræmi við viðurkennd alþjóðleg viðmið. Í því skyni verði lokið við uppbyggingu öflugs gagnagrunns (vöruhúss gagna) sem nýtist við skipulagningu, uppgjör og mat á árangri náms og kennslu.
 • Nemendur séu ávallt upplýstir um þær kröfur sem til þeirra eru gerðar sem námsmanna og háskólaborgara, m.a. um þátttöku í stjórnun skólans. Félög nemenda gæti að orðspori Háskóla Íslands í tengslum við atburði og útgáfu á þeirra vegum.
 • Háskóli Íslands leggur áherslu á að allir nemendur séu vel upplýstir um einstök námskeið og námsleið sína í heild og njóti stuðnings í námi sínu. Í þessu skyni er m.a. lögð áhersla á áframhaldandi þróun Uglu, öfluga náms- og starfsráðgjöf og fjölbreytilegt stuðningsnet nemenda og kennara.

 

Árangur í kennslu

Háskóli Íslands leggur ríka áherslu á gæði náms og framúrskarandi kennslu. Háskólinn vill umbuna þeim sérstaklega sem rækja kennarastarfið af fagmennsku og beita sér fyrir þróun kennsluhátta.

 • Við Háskóla Íslands verði beitt fjölbreyttum aðferðum til að meta gæði náms og kennslu, s.s. með könnunum og skipulegum samráðsfundum nemenda og kennara í öllum deildum. Þróaðar verða í samvinnu við kennslumálanefnd og Kennslumiðstöð aðferðir við jafningjamat á kennslu.
 • Fjöldi námseininga (ECTS) og vinnuálag nemenda í einstökum námskeiðum verði samræmt.
 • Viðmið um námsmat verði samræmd milli deilda og fræðasviða og taki mið af skilgreindum hæfniviðmiðum.
 • Deildir endurmeti reglulega í samstarfi við fulltrúa nemenda námsframboð og hvort námskeið og námsleiðir séu í samræmi við skilgreind hæfniviðmið.
 • Kennslukönnun verði einfölduð og þátttaka í henni gerð að skyldu frá hausti 2011. Eftirfylgni með kennslukönnuninni verði aukin, m.a. með því að gera niðurstöður opinberar eftir því sem kostur er.
 • Stúdentar taki virkan þátt í eftirfylgni með kennslukönnunum. Þeim verði gert kleift að koma athugasemdum sínum um kennslu á framfæri snemma á hverju misseri, m.a. með stuttum viðhorfskönnunum og í viðtölum við umsjónarmenn grunn- og framhaldsnáms.
 • Þróuð verði sérstök kennslukönnun fyrir framhaldsnám.
 • Kennsluferilskrár kennara verði þróaðar áfram í því skyni að auka gæði náms og þær notaðar með markvissum hætti til að umbuna fyrir árangur í kennslu.
 • Haldin verði á vettvangi Kennslumiðstöðvar háskólans sérstök námskeið um kennsluhætti, nýjungar í kennsluaðferðum og leiðbeiningu framhaldsnema sem allir kennarar, jafnt nýir sem eldri, sæki með reglubundnum hætti. Kennarar fái kennsluafslátt þegar þeir sækja slík skyldunámskeið.
 • Háskóli Íslands leitast við að skapa nemendum sínum aukin tækifæri til að taka hluta af námi sínu við erlenda háskóla.
 • Fylgst verði reglubundið með afdrifum brautskráðra nemenda í frekara námi og starfi, m.a. í því skyni að meta gæði og árangur námsins, þróa námsframboð og styrkja tengsl við atvinnulíf og fyrrverandi nemendur.

 

Tengsl við fyrri skólastig

Háskóla Íslands er afar mikilvægt að eiga náið samstarf við grunn- og framhaldsskóla landsins. Háskólinn leggur áherslu á að glæða áhuga ungs fólks á vísindum og fræðum.

 • Tengsl háskólans við framhaldsskólana í landinu verði styrkt enn frekar, m.a. með reglulegum samráðsfundum. Háskólinn taki virkan þátt í umræðu um hlutverk og þróun framhaldsskólans í menntakerfinu.
 • Tengsl háskólans við grunnskóla landsins verði styrkt. Háskólinn leggi sig fram um að veita ungu fólki fræðslu og vekja áhuga þess á vísindum, m.a. með Vísindavefnum og Háskóla unga fólksins.
 • Til að tryggja að nýnemar séu upplýstir og færir um að hefja krefjandi háskólanám mun Háskóli Íslands skilgreina og kynna hæfnikröfur sem uppfylla verður í hinum ólíku deildum skólans. Enn fremur leitast háskólinn við að upplýsa nemendur um atvinnumöguleika að námi loknu.
  • Háskóli Íslands leggur áherslu á að laða til sín hæfustu nemendurna úr framhaldsskólum landsins og veita afburðanemendum á öllum námsstigum háskólans aðstöðu og stuðning eftir því sem kostur er. Í því augnamiði verði leitast við að fjölga styrkjum til afburðanema og halda á lofti árangri þeirra í námi.

 

 

LYKILMÆLIKVARÐAR

 

Til að meta árangur af stefnu Háskóla Íslands um nám og kennslu verða eftirfarandi lykilmælikvarðar notaðir:

 • Árangur við samþættingu kennslu og rannsókna, t.d. fjöldi prófessora sem kenna á fyrsta námsári í grunnnámi, kennslustefnu fræðasviða og aðstöðu til rannsóknatengds náms.
 • Endurkomuhlutfall á öðru námsári í grunnnámi.
 • Brautskráningarhlutfall í grunnnámi.
 • Hlutfall fastra kennara (ársverk) og virkra nemenda.
 • Fjöldi kennara sem tekur þátt í námskeiðum um kennsluhætti og kennsluaðferðir.
 • Hlutfall námskeiða þar sem beitt er fjölbreyttu námsmati.
 • Fjöldi námskeiða sem byggjast á fjölbreyttum kennsluaðferðum sem virkja nemendur til þátttöku.
 • Fjöldi nemenda sem tekur þátt í rannsóknavinnu kennara.
 • Fjöldi nemenda sem sinnir aðstoðarkennslu.
 • Hlutfall þeirra nemenda sem eru ánægðir með nám og námsaðstöðu við Háskóla Íslands.
 • Fjöldi nemenda sem tekur hluta af námi við erlenda háskóla.
 • Fjöldi erlendra nemenda við Háskóla Íslands.
 • Fjöldi brautskráðra nemenda frá Háskóla Íslands sem fer í framhaldsnám við erlenda háskóla eða háskóladeildir sem eru meðal hundrað bestu í heimi á hverju sviði.
 • Hlutfall nemenda frá Háskóla Íslands sem er í starfi sex mánuðum eftir brautskráningu.

 

 

 

3. STEFNA UM MANNAUÐ

Starfsfólk og nemendur eru fjársjóður Háskóla Íslands og skólinn leggur ríka áherslu á velferð þeirra. Samskipti innan skólans einkennast af gagnkvæmri virðingu og trausti. Það er háskólanum kappsmál að stuðla að velferð, vellíðan og heilbrigði starfsfólks og nemenda, m.a. með góðu vinnuumhverfi, fjölbreyttri starfsþróun og hvatningu til árangurs og gæða í námi og starfi. Styrk forysta, öflug liðsheild og skapandi einstaklingar eru lykillinn að gæðamenningu og árangri Háskóla Íslands.

 • Háskólinn haldi áfram að efla stjórnkerfi sitt, styrkja stoðþjónustu og bæta verkferla til að auðvelda skólanum að ná markmiðum sínum.
 • Vandað ráðningarferli og skipuleg nýliðun starfsfólks er undirstaða mannauðsstefnu háskólans. Gerðar eru miklar kröfur um hæfni við ráðningu og framgang á milli starfsheita. Háskólinn vill laða til sín starfsfólk með fjölbreyttan bakgrunn. Í því skyni verði m.a. leitast við að auglýsa akademísk störf á alþjóðlegum vettvangi.
 • Háskólinn leggur metnað sinn í að taka vel á móti nýjum starfsmönnum og nemendum. Sérstaklega verði hugað að móttöku og upplýsingagjöf til erlendra starfsmanna og nemenda. Lög, reglur, verkferlar og helstu tilkynningar verði ávallt aðgengileg á íslensku og ensku.
 • Nýir kennarar fái stuðning við að undirbúa rannsókna- og kennsluferil sinn við Háskóla Íslands, t.d. með sérstökum stuðningi Rannsóknasjóðs háskólans.
 • Háskóli Íslands er eftirsóknarverður vinnustaður og leitast við að bjóða starfsmönnum sínum samkeppnishæf launakjör sem taka mið af árangri í starfi.
 • Háskólinn leggur áherslu á starfsþróun og býður starfsfólki fjölbreytta möguleika til að viðhalda og efla starfshæfni sína, s.s. með námskeiðum fyrir kennara, stjórnendaþjálfun og margvíslegri fræðslu fyrir alla starfsmenn.
 • Fræðasvið og deildir komi á samráðsvettvangi með fulltrúum atvinnu- og þjóðlífs, m.a. til að fjalla um menntunarþarfir og gengi brautskráðra nemenda.
 • Með þátttöku utanaðkomandi stundakennara hleypir Háskóli Íslands nýjum straumum inn í starf skólans og eflir tengsl við atvinnu- og þjóðlíf. Gert verði átak í að bæta kjör og aðstöðu stundakennara og styrkja stöðu þeirra innan Háskóla Íslands. Mörkuð verði stefna um æskilegt hlutfall stundakennslu af heildarkennslumagni, ráðningarferli stundakennara, hæfnikröfur, þjálfun og upplýsingamiðlun til þeirra.
 • Það er styrkur Háskóla Íslands að þar stunda fjölbreyttir hópar nám og kappkostar skólinn að bjóða metnaðarfullt námsumhverfi og tryggja jöfn tækifæri til náms.
 • Erlendir starfsmenn og stúdentar verði hvattir til að sækja námskeið í íslensku. Erlendir meistara- og doktorsnemar gangist eftir því sem við á undir stöðupróf í ensku áður en þeir hefja nám.
 • Háskólinn kappkostar að búa starfsmönnum og stúdentum aðstæður til að samræma kröfur starfs og einkalífs eins og kostur er.
 • Allir stjórnendur háskólans tryggi örugga skráningu og varðveislu upplýsinga og markvissa miðlun þeirra til starfsfólks og stúdenta. Starfsfólki og stúdentum ber að afla sér þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að geta rækt starf og nám af kostgæfni.
 • Gert verði átak til að tryggja almenna notkun skjalakerfisins Námu, m.a. á vettvangi fræðasviða og deilda.
  • Innra eftirlit við háskólann verði eflt. Gerðar verði úttektir á völdum þáttum starfseminnar og settar fram tillögur til úrbóta.

 

 

LYKILMÆLIKVARÐAR

 

Til að meta árangur af stefnu Háskóla Íslands um mannauð verða eftirfarandi lykilmælikvarðar notaðir:

 • Starfsmannavelta.
 • Starfsánægja samkvæmt viðurkenndum viðhorfskönnunum.
 • Mat nýrra starfsmanna á móttöku og leiðsögn við upphaf starfs.
 • Ánægja nemenda samkvæmt viðurkenndum viðhorfskönnunum.
 • Hlutfall akademískra starfsmanna með doktorspróf.
 • Hlutfall þeirra starfsmanna sem taka þátt í árlegu starfsmannasamtali.
 • Meðalaldur nýráðinna akademískra starfsmanna.
 • Hlutfall starfsmanna sem sækir endur- og símenntun.
 • Fjöldi stundakennara.
 • Samanburðarhæfni launa og kjara.

 

 

 

4. STEFNA UM ÁBYRGÐ GAGNVART SAMFÉLAGINU OG UMHEIMINUM

Háskóli Íslands er æðsta menntastofnun þjóðarinnar og hefur ríkum skyldum að gegna við íslenskt samfélag, náttúru, menningu og tungu. Háskólinn sinnir skyldum sínum gagnvart samfélaginu og umheiminum fyrst og fremst með öflugum rannsóknum og kennslu. Mikilvægt er að skólinn kynni vísindastarf sitt, nýjar lausnir sem gerjast í alþjóðlegri fræðilegri umræðu og taki þátt í þróunar- og nýsköpunarverkefnum. Brýnt er að vísindamenn skólans ástundi uppbyggilega gagnrýni á þeim vettvangi sem hver og einn þekkir best og að þeir taki virkan þátt í opinberri umræðu á vandaðan hátt. Skólinn leggur áherslu á að starfsfólk og stúdentar séu ábyrgir borgarar í lýðræðissamfélagi. Sem alþjóðlegur rannsóknaháskóli skilar háskólinn mikilsverðu framlagi til vísindasamfélagsins, undirbýr nemendur sína til þátttöku í alþjóðlegu samfélagi og veitir þeim þjálfun í að takast á við áskoranir 21. aldar.

 • Fræðimenn háskólans eru virkir þátttakendur í opinberri umræðu og stuðla að uppbyggingu íslensks samfélags í krafti sérþekkingar sinnar. Þeir gæta hlutlægni og upplýsa um fjárhagsleg eða önnur hagsmunatengsl við umfjöllunarefni sín eftir því sem við á. Jafnframt forðast þeir að setja sig í aðstæður sem ógna fræðilegum heilindum þeirra.
 • Háskólinn leggur áherslu á að efla tengsl við atvinnulíf í landinu svo að nám og rannsóknir taki mið af aðstæðum í samfélaginu hverju sinni. Þannig stuðlar háskólinn að kröftugu atvinnulífi um leið og hann veitir nemendum sínum brautargengi í krefjandi framtíðarstörfum.
 • Háskóli Íslands vill efla rannsóknir á grunnstoðum íslensks samfélags, m.a. í tengslum við uppbyggingu íslenskrar stjórnsýslu og réttarkerfis.
 • Vísindamenn háskólans taki virkan þátt í margvíslegu þróunarstarfi í krafti sérþekkingar sinnar og stuðli þannig að nýsköpun.
 • Öll fræðasvið og deildir setji sér markmið og skilgreini leiðir til að flétta saman siðfræði og faglegt nám, efla siðferðilega dómgreind og þjálfa gagnrýna hugsun.
 • Háskólinn setji formlegar starfsreglur um þjónusturannsóknir og kostuð störf sem kveði m.a. á um fræðilegt sjálfstæði gagnvart verkkaupa og kostunaraðila.
 • Háskóli Íslands taki virkan þátt í að kynna innflytjendum með háskólamenntun þá kosti sem þeir hafa til að nýta menntun sína hér á landi. Enn fremur verði gert átak í að auka aðsókn innflytjenda að námi í Háskóla Íslands.
 • Háskólinn mun setja sér metnaðarfulla umhverfisstefnu og vill auka skilning og þekkingu fólks á sjálfbærni jafnt innan skólans sem utan.
 • Fræðsla fyrir almenning verði efld með víðtækri miðlun vísinda og nýsköpunar, s.s. á vettvangi Vísindavefsins, Háskóla unga fólksins og með opnum fyrirlestrum, málþingum og öðrum viðburðum. Nemendur eru hvattir til að taka virkan þátt í slíkri fræðslu, eins og gert hefur verið á árangursríkan hátt, t.d. með forvarnarstarfi lækna-, hjúkrunar- og lyfjafræðinema, lögfræðiaðstoð laganema og grænum dögum nemenda í umhverfis- og auðlindafræði.
 • Háskólinn stuðli að umræðu um hvernig draga megi úr brottfalli á framhaldsskólastigi. Sérstaklega verði hugað að þeim sem standa höllum fæti í skólakerfinu, s.s. vegna erlends uppruna eða bágrar efnahagslegrar stöðu.
 • Háskólinn mæti þörfum samfélagsins fyrir endur- og símenntun með fjölbreyttu námsframboði á vettvangi deilda og Endurmenntunarstofnunar.
  • Hollvinastarf verði eflt í tengslum við aldarafmæli Háskóla Íslands, m.a. með stofnun hollvinafélaga og sérstökum hollvinavef.

 

 

LYKILMÆLIKVARÐAR

 

Til að meta árangur af stefnu Háskóla Íslands um ábyrgð gagnvart samfélaginu og umheiminum verða eftirfarandi lykilmælikvarðar notaðir:

 • Sjálfbærni Háskóla Íslands samkvæmt viðurkenndum mælikvörðum.
 • Árangur við að flétta saman siðfræði og annað nám samkvæmt skilgreindum hæfniviðmiðum námskeiða eða námsleiða.
 • Fjöldi opinna fyrirlestra, málþinga og ráðstefna við Háskóla Íslands.
 • Fjöldi viðtala, erinda og greina starfsmanna háskólans í fjölmiðlum.
 • Fjöldi nemenda í Háskóla unga fólksins.
 • Fjöldi spurninga og svara á Vísindavef Háskóla Íslands.

 

 

Stefna Háskóla Íslands 2011-2016 var samþykkt á háskólaþingi 7. desember 2010 og í háskólaráði 17. desember 2010.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.