Skip to main content

Reglur nr. 290-2016

Reglur um diplómanám á meistarastigi við [Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild]1 Háskóla Íslands, nr. 290/2016.

með síðari breytingum

1Breytt með 1. gr. reglna nr. 517/2022.

1. gr.  Markmið diplómanáms á meistarastigi.

Hjúkrunarfræðideild veitir menntun til diplómanáms á meistarastigi á þeim sviðum þar sem aðstaða og sérþekking er fyrir hendi. Markmið diplómanámsins er að gefa hjúkrunarfræðingum á Íslandi kost á að auka þekkingu sína og færni á ýmsum sérsviðum hjúkrunar.

2. gr.  Umsóknarfrestur.

Umsóknarfrestur er að jafnaði til 15. apríl fyrir innritun á haustmisseri og til 15. október fyrir innritun á vormisseri. Deildarráði er einnig heimilt að leyfa innritun á öðrum tímum að undangenginni auglýsingu.

3. gr.  Meðferð umsókna.

Sótt er um rafrænt á vef háskólans. Umsóknum skal skilað til nemendaskrár Háskóla Íslands á sérstöku rafrænu eyðublaði sem er aðgengilegt á vef skólans. Rannsóknanámsnefnd ásamt námsnefndum diplómanáms leggur mat á umsóknir og sendir deildarráði tillögur sínar til afgreiðslu.

[Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild]1 er heimilt, með samþykki háskólaráðs, að takmarka þann fjölda sem tekinn er inn í námið.

[Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild]1 er heimilt að fella niður áður auglýst diplómanám náist ekki lágmarksþátttaka til að tryggja fjármögnun þess.
1Breytt með 2. gr. reglna nr. 517/2022.

4. gr.  Inntökuskilyrði.

Til að innritast í diplómanám við [Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild]1 þarf stúdent að hafa lokið BS-prófi í hjúkrunarfræði eða öðru samsvarandi prófi og vera handhafi hjúkrunarleyfis á Íslandi. Miðað er við að nemandi hafi að lágmarki 6,5 í aðaleinkunn úr BS-prófi eða samsvarandi námi. Jafnframt þarf nemandi að búa yfir góðri enskukunnáttu. Heimilt er að gera forkröfu um að umsækjandi hafi allt að tveggja ára starfsreynslu í hjúkrun. [Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild]1 er heimilt að víkja frá reglunni um BS-próf hafi umsækjandi aflað sér sérstakra starfsréttinda eða lokið ákveðnu formlegu námi á því sviði, sem tilgreint er í auglýsingu um viðkomandi diplómanám.

Við inntöku er tekið mið af: a) einkunnum, b) starfsreynslu og c) meðmælum, auk d) viðtala í því diplómanámi þar sem takmarkanir eru á fjölda nemenda.
1Breytt með 3. gr. rgl. nr. 517/2022.

5. gr.  Einingafjöldi og tímalengd náms.

Diplómanám í hjúkrunarfræði er að jafnaði 30 einingar (ECTS). Lengd diplómanáms er eitt til tvö ár en náminu í heild skal vera lokið innan þriggja ára. Námshraði nemenda skal vera í samræmi við auglýsta námskrá og framboð námskeiða.

6. gr.  Samsetning náms.

Námskrá skal að jafnaði skipulögð þannig að hægt sé að taka námið sem hluta af formlegu meistaranámi eða sem afmarkað nám sem lýkur með diplómaprófi. Námskrá skal á hverjum tíma vinna í náinni samvinnu við fagdeildir Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sérfræðinga og/eða stofnanir á viðkomandi sérsviði. Lögð er áhersla á að diplómanám geti orðið áfangi í námi til meistaraprófs.

Hjúkrunarfræðingur sem lokið hefur diplómanámi að viðbættri klínískri þjálfun á að standast alþjóðlegar viðmiðanir til starfsréttinda á því sérsviði.

Að öðru leyti miðar samsetning námsins að því að nemandi hafi að því loknu öðlast góða starfsleikni, fagþekkingu og tileinkað sér fagleg viðhorf á tilteknu sérsviði.

7. gr.  Námskeið í diplómanámi sem hluti af meistaranámi.

[Nemendur sem ljúka diplómanámi geta fengið hluta þess náms metinn inn í nám til meistara­prófs, samkvæmt samþykkt deildar.]1

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 838/2019.

8. gr.  Námsnefndir diplómanáms.

[Þegar deildin hefur samþykkt diplóma­nám á ákveðnu sérsviði skipar deildarráð námsnefnd.]2 Í námsnefnd eru forstöðumaður/forstöðumenn viðkomandi fræðasviðs/fræðasviða innan [Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar]2 ásamt öðrum sérfræðingum á viðkomandi sviði. Formaður nefndarinnar skal vera fastráðinn kennari við deildina.

Námsnefnd diplómanáms tilnefnir umsjónarkennara hvers námskeiðs, yfirfer námskeiðslýsingar, gerir kostnaðaráætlun um námið og sendir rannsóknanámsnefnd til umsagnar. Erindi um nýtt diplómanám þarf að berast rannsóknanámsnefnd fyrir 1. október ári áður en nám hefst. Erindi um endurtekið diplómanám þarf að berast fyrir 15. október ári áður. Rannsóknanámsnefnd getur óskað eftir umsögn og samráði við fleiri námsnefndir en eina um tiltekið námskeið.

1Breytt með 2. gr. rgl. nr. 838/2019.
2Breytt með 4. gr. rgl. nr. 517/2022.

9. gr.  Kröfur til umsjónarkennara námskeiða.

Umsjónarkennari skal að jafnaði vera fastráðinn kennari (lektor, dósent eða prófessor) í viðkomandi grein. Ef umsjónarkennari er ekki fastráðinn kennari eða sérfræðingur við deildina skal hann a.m.k. hafa lokið meistaraprófi, vera sérfræðingur á sérsviði námsins eða tengdu sviði og auk þess hafa starfað við það um árabil og stundað rannsóknir því tengdar.

10. gr.  Námsmat.

Námskeið í diplómanámi skulu vera á meistarastigi og standast kröfur þar um. Diplómanámi lýkur með veitingu prófskírteinis, sem staðfestir að nemandi hafi lokið diplómanámi á viðkomandi sviði og reiknast meðaleinkunn nemandans vera vegið meðaltal eininga úr þeim námskeiðum sem nám hans samanstendur af. Lágmarkseinkunn í námskeiðum í diplómanámi skal vera 6,0.

11. gr.  Tengsl við aðra háskóla.

Hægt er að skipuleggja hluta diplómanámsins í samvinnu við aðra háskóla og/eða heilbrigðisstofnanir innan- eða utanlands.

12. gr.  Prófskírteini, diplóma.

Er nemandi hefur staðist námskröfur sem tilgreindar eru í námskrá fyrir diplómanám telst hann hafa lokið diplómanámi á sérsviði. Veitt er sérstakt prófskírteini, diplóma, þessu til staðfestingar.

13. gr.  Gildistaka o.fl.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði með heimild í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, sbr. 8. mgr. 97. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar hafa verið samþykktar af Hjúkrunarfræðideild og stjórn Heilbrigðisvísindasviðs, auk Miðstöðvar framhaldsnáms, sbr. 66. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 240/2004 um diplómanám á meistarastigi við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

Auk birtingar í Stjórnartíðindum skal birta reglur þessar í kafla [Hjúkrunar- ljósmóðurfræðideildar]1 í kennsluskrá og á heimasíðu deildarinnar.
1Breytt með 5. gr. rgl. nr. 517/2022.

Háskóla Íslands, 18. mars 2016.