Reglur nr. 154-2011 | Háskóli Íslands Skip to main content

Reglur nr. 154-2011

Reglur um meistara- og doktorsnám á Hugvísindasviði Háskóla Íslands, nr. 154/2011

með síðari breytingum

I. KAFLI  Almenn ákvæði.

1. gr.  Um námið. Markmið.

Á Hugvísindasviði er unnt að leggja stund á framhaldsnám í þeim kennslugreinum sem tilgreindar eru í XII. kafla reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

Auk meistaranáms er hægt að stunda doktorsnám í öllum deildum sviðsins á fagsviðum þar sem viðkomandi deild og Hugvísindasvið metur að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi.

Markmið 120 eininga rannsóknatengds MA-náms er að nemendur fái gott yfirlit yfir grein sína og öðlist þjálfun í sjálfstæðum vinnubrögðum og rannsóknum og traustan undirbúning undir doktorsnám og ýmis störf. Markmið M.Paed.-náms og MA-náms á sviði kennslu er að mennta kennara til starfa í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum. Markmið hagnýts 90 eininga MA-náms er að veita nemendum menntun og fræðilega þjálfun sem nýtist þeim við ýmis störf. Markmið doktorsnáms er að veita nemendum víðtæka og trausta rannsóknaþjálfun og gera þá færa um að stunda sjálfstæð vísindastörf. Hver deild setur hæfniviðmið um framhaldsnám innan þeirra greina sem tilheyra henni.

Reglur þessar gera grein fyrir sameiginlegum ramma framhaldsnáms á Hugvísindasviði en nánari útfærslu á ýmsum atriðum er að finna í námsskipunarreglum einstakra greina.

Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands hefur umsjón með og fylgir eftir settum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands, sbr. 31. gr. reglna þessara og 66. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009. Standa ber skil á upplýsingum og gögnum sem Miðstöðin kallar eftir.

2. gr.  Fastanefndir.

Deildarfundur í hverri deild um sig kýs framhaldsnámsnefnd deildarinnar til tveggja ára í senn. Nefndin fer með málefni framhaldsnáms deildar í umboði deildarfundar. Í nefndinni sitja 3-7 menn og skal meirihluti þeirra vera úr hópi fastra kennara við deildina, en um fjölda nefndarmanna og skipan nefndarinnar að öðru leyti fer eftir ákvörðun deildarfundar. Deildarforseti getur setið fundi nefndarinnar. Í henni skulu sitja bæði karlar og konur og séu nefndarmenn fleiri en þrír skal þess gætt að hlutfall hvors kyns sé ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Verkefnastjóri framhaldsnáms á skrifstofu Hugvísindasviðs starfar með framhaldsnámsnefndum sviðsins.

Hlutverk framhaldsnámsnefndar er að hafa faglega umsjón með rannsóknatengdu námi í deildinni, í samráði við deildarforseta. Nefndin fjallar um og afgreiðir umsóknir og samþykkir námsáætlanir og breytingar á þeim, tilnefnir umsjónarkennara og prófdómara og sinnir öðrum málum sem deild kann að fela henni. Framhaldsnámsnefndir deilda sviðsins skulu hafa samráð sín á milli um framboð námskeiða á meistara- og doktorsstigi og vera tengiliðir við Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands. Deild getur falið námsbrautum að sjá um einstök verkefni framhaldsnámsnefndar.

3. gr.  Samráðsnefnd.

Á sviðinu starfar samráðsnefnd um meistara- og doktorsnám. Í samráðsnefnd skulu eiga sæti formenn fastanefnda deilda og að auki forseti fræðasviðs og er hann jafnframt formaður nefndarinnar. Samráðsnefnd fræðasviðs hefur það hlutverk að fylgjast með því að hæfilegs samræmis sé gætt í meistara- og doktorsnámi á fræðasviðinu og annast samskipti við Miðstöð framhaldsnáms. Formaður samráðsnefndar eða verkefnastjóri framhaldsnáms í umboði hans er tengiliður fræðasviðsins við Miðstöð framhaldsnáms.

4. gr.  Umsóknarfrestur.

Umsóknarfrestur fyrir meistara- og doktorsnám á Hugvísindasviði er til 15. apríl fyrir innritun á haustmisseri, en erlendra umsækjenda utan EES-svæðisins til 1. febrúar. Umsóknarfrestur á vormisseri er til 15. október. Heimilt er að taka við umsóknum um doktorsnám á öðrum tímum ef sérstaklega stendur á.

5. gr.  Meðferð umsókna.

Umsóknum skal skilað til Nemendaskrár Háskóla Íslands á sérstöku rafrænu eyðublaði sem aðgengilegt er á vef skólans.

Eftir skráningu gagna í Nemendaskrá fjallar framhaldsnámsnefnd um umsóknir og ber að líta til gæða þeirra og gæða- og inntökuskilyrða deilda. Framhaldsnámsnefnd gerir tillögu til deildar um afgreiðslu umsókna. Deild getur falið framhaldsnámsnefnd endanlega afgreiðslu umsókna.

Að lokinni umfjöllun í deild tilkynnir hún umsækjanda um niðurstöðu sína. Afgreiðsla deildar skal skráð í rafrænt kerfi Nemendaskrár. Afgreiðslu umsóknar skal að jafnaði vera lokið og henni svarað skriflega innan sex vikna frá lokum umsóknarfrests, eða frá móttöku ef samþykkt er að taka við umsókn á öðrum tíma. Umsókn er synjað ef hún uppfyllir ekki gæðakröfur.

Nemandi sem deild hefur samþykkt í meistara- eða doktorsnám skal snúa sér til Nemendaskrár og ganga frá greiðslu skrásetningargjalds komandi háskólaárs. Skráning og greiðsla skrásetningargjalds vegna náms sem hefst á haustmisseri skal fara fram í síðasta lagi 5. júní, en 30. nóvember fyrir nám á vormisseri. Nemandi þarf síðan að skrá sig árlegri skráningu í mars/apríl ár hvert fyrir komandi háskólaár og greiða skráningargjald. Skráning og greiðsla skrásetningargjalds er forsenda þess að nám geti hafist eða haldið áfram.

6. gr.  Skyldur nemanda.

Meistara- og doktorsnemar skulu ástunda fagleg vinnubrögð og forðast að hafast nokkuð það að í námi sínu eða framkomu innan og utan háskólans sem er þeim til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám þeirra eða háskólann. Þeim ber að kynna sér vel þær reglur og siði sem akademískt starf lýtur og temja sér í hvívetna viðurkennd fræðileg vinnubrögð í rannsóknum og meðferð heimilda, þ.m.t. að starfsfólk og nemendur sýni hvert öðru virðingu í framkomu, ræðu og riti, eigi málefnaleg skoðanaskipti, vinni saman af heilindum, leiti sannleikans og setji hann fram samkvæmt bestu vitund og forðist að láta persónuleg tengsl og hagsmuni hafa áhrif á samvinnu.

II. KAFLI  Ákvæði um meistaranám.

7. gr.  Gögn sem fylgja skulu umsókn.

Umsókn skal fylgja staðfest afrit prófskírteinis úr grunnnámi, hafi það ekki verið tekið við Háskóla Íslands, og stutt greinargerð um áhugasvið umsækjanda og markmið hans með náminu. Framhaldsnámsnefnd getur óskað eftir frekari gögnum telji hún ástæðu til.

8. gr.  Inntökuskilyrði.

Nemendur sem hefja meistaranám á Hugvísindasviði skulu hafa lokið BA-, B.Ed.- eða BS-prófi með fyrstu einkunn. Að jafnaði skal grunnháskólagráða vera í sömu grein og meistaranámið en einstakar deildir geta sett sérákvæði um forkröfur greina í námsskipunarreglur. Slík ákvæði skulu staðfest af framhaldsnámsnefnd deildarinnar og auglýst í kennsluskrá.

9. gr.  Einingafjöldi og tímalengd náms.

Meistaranám á Hugvísindasviði er að jafnaði 120 einingar en íslensk miðaldafræði (Medieval Icelandic Studies) og hagnýtar námsleiðir (hagnýt þýska í ferðaþjónustu og miðlun, hagnýt ritstjórn og útgáfa, hagnýt menningarmiðlun, hagnýt siðfræði) eru þó 90 einingar. Miðað skal við að 120 eininga nám taki tvö ár (fjögur misseri) en 90 eininga nám eitt og hálft ár (þrjú misseri). Hámarksnámstími er sex misseri frá því stúdent var fyrst skrásettur í viðkomandi nám. Stúdent í hlutanámi skal á hverju háskólaári ljúka a.m.k. helmingi af skilgreindum einingafjölda í fullu námi og skal hafa lokið prófi eigi síðar en fjórum árum eftir skráningu í námið. Nemi í meistaranámi skal vera skráður og greiða skrásetningargjald allan námstímann.

10. gr.  Námsleiðir, framvinda og samsetning náms.

120 eininga rannsóknanám til MA-prófs skal fela í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og þátttöku í námskeiðum á framhaldsnámsstigi. Náminu lýkur með rannsóknarverkefni og ritgerð sem byggist á því. Stærð verkefnisins er að jafnaði 30 einingar en einstakar námsleiðir geta þó heimilað 60 eininga ritgerð með samþykki framhaldsnámsnefndar viðkomandi deildar. Aðrar einingar fást með þátttöku í námskeiðum og málstofum.

Kennslutengt MA-nám skal fela í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og þátttöku í námskeiðum á framhaldsnámsstigi. Hluti námsins skal felast í námskeiðum á sviði kennslufræði, og getur sá hluti námsins að einhverju eða öllu leyti verið tekinn á menntavísindasviði. Náminu lýkur með 30 eininga rannsóknar- eða kennsluþróunarverkefni og ritgerð sem byggist á því.

Nám á 90 eininga hagnýtum námsleiðum til MA-prófs skal fela í sér hagnýta starfsþjálfun, þátttöku í námskeiðum á framhaldsstigi og eftir atvikum þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum í samræmi við markmið viðkomandi námsleiðar. Náminu lýkur með 30 eininga ritgerð eða verkefni.

Allir nemendur þurfa að hafa lokið að lágmarki 60 einingum í námskeiðum (þ.m.t. málstofum, lesnámskeiðum og einstaklingsverkefnum) til að útskrifast með meistaragráðu frá deildum Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Framboð námskeiða og skipting þeirra í skyldu og val er ákveðið af viðkomandi kennslugrein með samþykki framhaldsnámsnefndar og tilgreint í kennsluskrá. Hafi nemandi við innritun þegar lokið námi sem er sambærilegt tilteknu skyldunámskeiði getur framhaldsnámsnefnd samþykkt að valnámskeið sé tekið í þess stað.

Í lok annars misseris í 90 eininga námi en þriðja misseris í 120 eininga námi skal nemandi hafa valið sér leiðbeinanda fyrir lokaverkefni. Þá skal einnig liggja fyrir lýsing á lokaverkefninu og áætlun um framkvæmd þess. Framhaldsnámsnefnd samþykkir lýsinguna og áætlunina. 

11. gr.  Námskeið á mörkum grunnnáms og framhaldsnáms.

M-námskeið eru námskeið á mörkum grunn- og framhaldsnáms og námskröfur eru í samræmi við það. Þau eru ætluð meistaranemum sem og BA-nemum er lokið hafa a.m.k. 90e á BA-stigi og skal meðaleinkunn þeirra í námi þegar þar að kemur eigi vera lægri en 7,25. Undanþegin þessari einkunnarkröfu eru M-námskeið sem jafnframt eru skyldunámskeið í grein.

Námsgreinum er heimilt að tilgreina ákveðin námskeið á hverju misseri sem M-námskeið. BA-nemar geta tekið að hámarki 40e í M-námskeiðum og MA-nemar að hámarki 30e. Hafi MA-nemi tekið ákveðið M-námskeið í BA-námi sínu getur hann ekki tekið það aftur í MA-náminu, sé námskeiðið kennt að nýju.

Að M-námskeiðunum frátöldum er ekki um að ræða neina skörun milli BA- og MA-náms í grein. Telji MA-nemi að námskeið á BA-stigi (G-námskeið) geti orðið honum sérlega gagnlegt í tengslum við meistaranámið getur hann sótt um leyfi til umsjónarkennara síns og kennara námskeiðsins til að sitja námskeiðið, enda nýtist honum lesefni þess í einstaklingsbundnu rannsóknarverkefni um sama eða svipað efni á MA-stigi. Einnig er deild heimilt að veita meistaranemum færi á að afla sér sérhæfðrar, hagnýtrar þjálfunar í einstökum námskeiðum á BA-stigi í annarri námsgrein (t.d. tungumálanámskeiðum) sem hluta af meistaranáminu, þegar faglegar forsendur eiga við.

12. gr.  Umsjónarkennari og leiðbeinandi.

Leiðbeinandi leiðbeinir stúdent í lokaverkefni og þeir leggja í sameiningu fram áætlun um verkefni sem framhaldsnámsnefnd samþykkir. Leiðbeinandi skal að jafnaði koma úr hópi fastra kennara deildarinnar og er þá jafnframt umsjónarkennari nemandans, en nemanda er þó heimilt með samþykki framhaldsnámsnefndar að hafa utanaðkomandi leiðbeinanda, enda uppfylli hann kröfur þessara reglna. Sé leiðbeinandi ekki fastur kennari skal framhaldsnámsnefnd tilnefna umsjónarkennara úr hópi fastra kennara deildarinnar sem hefur umsjón með verkefninu og er ábyrgur fyrir því að það sé í samræmi við kröfur viðkomandi deildar.

13. gr.  Kröfur til umsjónarkennara og leiðbeinenda.

Umsjónarkennari skal vera akademískur starfsmaður í fullu starfi við Háskóla Íslands. Ef leiðbeinandi kemur ekki úr þeim hópi þarf hann að hafa lokið a.m.k. meistaraprófi á viðkomandi fræðasviði. Gæta þarf þess að verkefni nemandans sé á sérsviði leiðbeinandans.

Leiðbeinendur meistaranema skulu uppfylla skilyrði sem sett eru í viðmiðum og kröfum um gæði námsins, vera viðurkenndir sérfræðingar á viðkomandi sviði og hafa birt ritsmíðar á því sviði á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur. Miðstöð framhaldsnáms sannreynir hvort leiðbeinendur uppfylla sett viðmið og kröfur, sbr. 66. gr. reglna Háskóla Íslands. 

14. gr.  Meistaraprófsnefndir og prófdómarar. 

Deildum er heimilt að skipa meistaraprófsnefnd fyrir hvern nemanda. Sé nefnd skipuð skal umsjónarkennari sitja í henni ásamt öðrum sérfróðum manni. Skylt er að skipa meistaraprófsnefnd sé lokaverkefni 60 einingar. Sé umsjónarkennari og leiðbeinandi ekki sami maðurinn er einnig skylt að skipa meistaraprófsnefnd sem þeir tveir sitja í. Heimilt er að skipa þriðja manninn í meistaraprófsnefnd, t.d. ef verkefnið snertir fleiri en eina deild.

Umsjónarkennari, og meistaraprófsnefnd sé hún skipuð, heldur reglulega fundi með hverjum nemanda, fylgist með að framgangur námsins sé í samræmi við námsáætlun, og tryggir fagleg gæði rannsóknavinnunnar í samræmi við reglur deildar. Framhaldsnámsnefnd tilnefnir prófdómara sem metur lokaverkefni ásamt leiðbeinanda eða meistaraprófsnefnd hafi hún verið skipuð. Prófdómari skal ekki vera tengdur lokaverkefninu. Prófdómari skal hafa lokið viðurkenndu háskólaprófi í þeirri grein sem dæma skal og njóta viðurkenningar á starfssviði sínu. Forseti fræðasviðs skipar prófdómara, sbr. 59. gr. reglna nr. 569/2009.

15. gr.  Námsmat og meistarapróf.

Þegar ritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram til mats staðfest námsferilsyfirlit nemanda. Um einkunnir gilda ákvæði sameiginlegra reglna fyrir Háskóla Íslands.

Nemendur í 120 eininga MA-námi skulu flytja opinberan kynningarfyrirlestur í tengslum við lokaverkefnið. Deildum er heimilt að nýta þennan fyrirlestur við mat á meistaraverkefni og prófa nemanda að honum loknum. Prófdómari, ásamt meistaraprófsnefnd ef því er að skipta, skal meta frammistöðu nemanda og úrskurða hvort hann hafi staðist prófið. Ákvæði um þetta skulu vera í námsskipunarreglum einstakra deilda og/eða greina.

16. gr.  Skil og frágangur meistararitgerða.

Meistaraprófsverkefni skal leggja fram í þremur eintökum minnst fjórum vikum fyrir lokaskiladag einkunna. Við frágang lokaverkefna og meðferð heimilda skal koma skýrt fram í inngangskafla að verkefnið sé unnið við Háskóla Íslands, tilgreina skal leiðbeinendur, fræðasvið, deild og rannsóknastofnun, ef við á, og geta skal þeirra sjóða háskólans sem styrkt hafa verkefnið og þeirra stofnana eða fyrirtækja utan háskólans sem nemandi hefur tengst við vinnslu þess. Verkefni skal að jafnaði vera á íslensku eða ensku en í öðrum tungumálagreinum er þó heimilt að kveða á um það í námsskipunarreglum að verkefni sé á viðkomandi máli. Útdráttur á íslensku og ensku skal fylgja öllum verkefnum. Við frágang og meðferð heimilda skal nemandi að öðru leyti fylgja reglum þeirrar deildar sem hann brautskráist frá. Forsíða verkefnis skal bera auðkenni (logo) Háskóla Íslands. Ef um sameiginlega prófgráðu er að ræða með öðrum háskóla eða háskólum samkvæmt samningi þar um, ber forsíða verkefnis auðkenni beggja eða allra háskóla sem hlut eiga að máli.

Nemandi annast lögbundin skil á verkefni til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Rafrænt eintak ber að vista í gagnasafni Skemmu sem safnið rekur. 

17. gr.  Tengsl við aðra háskóla.

Hluta meistaranáms má taka við aðra háskóla eða viðurkenndar rannsókna- eða vísindastofnanir. Jafnframt er heimilt að veita meistaragráðu sameiginlega með öðrum háskóla. 

18. gr.  Lærdómstitill.

Meistarapróf samkvæmt þessum reglum veitir rétt til lærdómstitilsins Magister/Magistra Artium (MA) eða Magister/Magistra Paedagogiae (M.Paed.), skv. 1. gr. þessara reglna og 55. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands.

III. KAFLI  Ákvæði um doktorsnám.

19. gr.  Gögn sem fylgja skulu umsókn.

Með umsókn um doktorsnám skal fylgja staðfest afrit af prófskírteinum og fyrri námsferli hafi það ekki verið tekið við Háskóla Íslands, 200 orða greinargerð um faglegar forsendur og markmið, drög að námsáætlun og almenn lýsing á rannsóknarverkefni. Deild getur krafist þess að umsókn fylgi ítarleg greinargerð um námsáætlun og rannsóknarverkefnið. Einnig er framhaldsnámsnefnd heimilt að krefjast sýnishorna af ritgerðum umsækjanda. Sé óskað eftir tilteknum leiðbeinanda þarf að fylgja samþykki hans til að taka leiðsögn að sér í samræmi við frumdrög að námsáætlun. Æskilegt er að fram komi áætlun um fjármögnun námsins og sé sú áætlun gerð í samráði við væntanlegan leiðbeinanda. Breytingar á námsáætlun eru háðar samþykki framhaldsnámsnefndar og Miðstöðvar framhaldsnáms.

20. gr.  Inntökuskilyrði. 

Stúdent sem hefur lokið meistaraprófi með fyrstu einkunn eða samsvarandi prófi getur sótt um aðgang að doktorsnámi í meistaraprófsgreininni. Stúdent sem hefur lokið meistaraprófi eða öðru samsvarandi prófi í annarri grein en sótt er til, frá annarri deild Háskóla Íslands eða öðrum háskóla með jafngildi fyrstu einkunnar, getur sótt um aðgang að doktorsnámi. Eins getur stúdent sem hefur stundað doktorsnám við annan háskóla sótt um aðgang að doktorsnámi við deildina. Í slíkum tilvikum skal framhaldsnámsnefnd, í samráði við væntanlegan leiðbeinanda ef því er að skipta, meta gögn um nám nemanda og rannsóknir.

Sé undirbúningur doktorsnemans ekki jafngildur þeim undirbúningi sem meistarapróf á sérsviðinu á að tryggja, skal gera kröfur um frekara nám eftir því sem ástæða þykir til. Því skal doktorsnemi að jafnaði ljúka með því að sækja námskeið á viðkomandi sérsviði. Doktorsnefnd metur hvenær doktorsefni hefur uppfyllt þessar forkröfur og leggur mat sitt fyrir framhaldsnámsnefnd til samþykktar.

Ef stúdent hyggst hefja doktorsnám strax að loknu meistaraprófi getur hann sótt um það áður en hann lýkur prófi, ef fyrir liggur staðfesting viðkomandi háskóladeildar um að hann muni væntanlega ljúka náminu með fullnægjandi árangri áður en doktorsnám hefst. Doktorsnám getur enginn hafið fyrr en inntökuskilyrðum hefur verið fullnægt til hlítar.

21. gr.  Einingafjöldi og tímalengd náms.

[Doktorsnám á Hugvísindasviði er 240 einingar í Íslensku- og menningardeild en 180 einingar í Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, Guðfræði- og trúarbragðafræðideild og Sagnfræði- og heimspekideild.]1 Í síðarnefndu deildunum er þó heimilt að skipuleggja doktorsnám til allt að 240 eininga að loknu meistaraprófi séu til þess faglegar forsendur. Miðað skal við að lengd 180 eininga náms sé þrjú ár (sex misseri) og lengd 240 eininga náms fjögur ár (átta misseri), en því er þó unnt að ljúka á skemmri tíma sé það stundað sem fullt nám allt árið. Nemi í doktorsnámi skal vera skráður og greiða skráningargjald allan námstímann. Hámarkstími er tíu misseri frá því stúdent var skráður í 180 eininga nám en tólf misseri frá skráningu í 240 eininga nám.

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 599/2012.

22. gr.  Námsleiðir, framvinda og samsetning náms.

Doktorsritgerðir við deildir Hugvísindasviðs skulu metnar til 180 eininga. Stúdent í 240 eininga doktorsnámi lýkur enn fremur 60 eininga almennu námi fyrir eða samhliða samningu ritgerðar, eftir því sem gert er ráð fyrir í náms- og rannsóknaáætlun hans. Sá hluti getur m.a. verið fólginn í námskeiðum, þ.m.t. lesnámskeiðum, við Háskóla Íslands eða aðra háskóla, samningu fræðilegra greina og fyrirlestra, háskólakennslu, leslistaprófum o.fl. Deildir setja nánari ákvæði um samsetningu þessa náms í námsskipunarreglum sem framhaldsnámsnefnd deildar samþykkir og Miðstöð framhaldsnáms staðfestir. Ef þörf er talin á að bæta enn frekar við þessa undirstöðuþekkingu doktorsnema má gera kröfu um að hann leggi að auki stund á bóknám sem svari til allt að 30 eininga.

[Doktorsnám við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, Guðfræði- og trúarbragðafræðideild og Sagnfræði- og heimspekideild er þriggja ára fullt nám, en doktorsnám við Íslensku- og menningardeild er að jafnaði fjögurra ára fullt nám þótt heimilt sé að ljúka því á skemmri tíma.]1 Stundi doktorsnemi námið að hluta má 180 eininga doktorsnám taka allt að tíu misseri og 240 eininga doktorsnám allt að tólf misseri. Ef ekki tekst að ljúka náminu á þeim tíma getur doktorsnemi sótt um undanþágu frá tímamörkum til deildar. Verði undanþága veitt má setja þau skilyrði að doktorsnemi uppfylli þær kröfur sem þá eru í gildi um doktorsnám þótt hann hafi hafið námið meðan aðrar reglur giltu.

Deildir setja nánari reglur um framvindu náms og eftirlit með því.

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 1195/2012.

23. gr.  Tengsl meistara- og doktorsnáms.

Ekki má nota meistararitgerð sem uppistöðu í doktorsritgerð, en þó er heimilt að halda áfram á sama eða skyldu rannsóknasviði. Doktorsnema í 240 eininga doktorsnámi er heimilt að sækja námskeið á meistarastigi við Háskóla Íslands eða erlendan háskóla og fá þau metin sem hluta af almennu námi sínu, enda hafi þau ekki áður verið metin sem hluti af meistaranámi hans og fyrir því liggi samþykki umsjónarkennara og framhaldsnámsnefndar.

24. gr.  Umsjónarkennari og leiðbeinandi.

Sérhver doktorsnemi skal frá upphafi náms hafa umsjónarkennara sem skal ávallt vera akademískur starfsmaður í fullu starfi við Háskóla Íslands í viðkomandi grein. Umsjón með doktorsnemum eiga þeir einir að hafa sem lokið hafa doktorsprófi eða jafngildi þess. Að jafnaði er umsjónarkennari jafnframt leiðbeinandi doktorsnema en framhaldsnámsnefnd getur þó heimilað að leiðbeinandi starfi utan Háskóla Íslands. Gæta þarf þess að verkefni doktorsnema sé á sérsviði leiðbeinanda. Leiðbeinandi skal hafa lokið doktorsprófi eða jafngildi þess, vera viðurkenndur sérfræðingur á viðkomandi sérsviði og hafa birt ritsmíðar á því sviði á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur.

Hlutverk leiðbeinanda er að fylgast með vinnu doktorsnema og veita leiðsögn við doktorsverkefni. Doktorsnemi getur jafnframt notið leiðsagnar annarra leiðbeinenda, að höfðu samráði við umsjónarkennara. Doktorsnemi ráðfærir sig við umsjónarkennara um gerð rannsóknaáætlunar, skipulag námsins, val námskeiða, ef við á, og annað sem tengist náminu. Umsjónarkennari skilar staðfestingu á framvindu doktorsnámsins til skrifstofu Hugvísindasviðs í lok hvers misseris meðan á námi stendur.

25. gr.  Doktorsnefndir.

Framhaldsnámsnefnd deildar skal skipa doktorsnefnd eigi síðar en við lok fyrsta námsmisseris, að höfðu samráði við leiðbeinanda. Doktorsnefnd skal skipuð tveimur til þremur sérfróðum mönnum auk leiðbeinanda og skal a.m.k. einn þeirra ekki vera starfsmaður viðkomandi deildar í fullu starfi. Leiðbeinandi fylgist grannt með vinnu doktorsnema og veitir leiðsögn þangað til hann telur að ritgerð sé tilbúin til varnar. Aðrir nefndarmenn leggja mat á framvindu, gera athugasemdir við drög að doktorsritgerð og taka þátt í handleiðslu þegar ástæða þykir til. Doktorsnefnd kveður doktorsefni á sinn fund eftir því sem þurfa þykir meðan á náminu stendur. Áður en til doktorsvarnar getur komið skilar doktorsnefndin rökstuddu áliti til deildar um það hvort veita skuli doktorsnema kost á að leggja ritgerð fram til doktorsvarnar.

26. gr.  Andmælendur.

Telji framhaldsnámsnefnd ritgerðina tæka til doktorsvarnar tilnefnir hún, að fenginni umsögn Miðstöðvar framhaldsnáms, tvo andmælendur við munnlega vörn ritgerðarinnar. Andmælendur skulu vera alþjóðlega viðurkenndir sérfræðingar á sérsviði doktorsritgerðarinnar. Einungis þeir sem hafa lokið doktorsprófi eða áunnið sér jafngildi þess geta verið andmælendur við doktorsvarnir hjá deildum Hugvísindasviðs. Þegar þess er kostur skal annar andmælenda vera kennari eða sérfræðingur við erlendan háskóla eða rannsóknastofnun.

Andmælendur fá ritgerðina í hendur a.m.k. fjórum mánuðum áður en fyrirhuguð vörn fer fram. Tveimur mánuðum síðar er gert ráð fyrir að þeir hafi sent rökstudda umsögn um hvort þeir telji að ritgerðin sé tæk til varnar, ásamt ábendingum um nauðsynlegar breytingar, séu þær einhverjar. Það er forsenda þess að doktorsvörn sé haldin að doktorsneminn hafi gert þær lagfæringar sem krafist er af andmælendum og leiðbeinendum.

Ekki er heimilt að andmælendur við doktorsvörn hafi átt sæti í doktorsnefnd.

27. gr.  Námsmat og doktorsvörn.

Þegar ritgerð er lögð fram til varnar skal jafnframt leggja fram til mats staðfest námsferilsyfirlit nemanda. Um einkunnir gilda ákvæði samkvæmt reglum fyrir Háskóla Íslands.

Doktorsefni skal verja ritgerð sína í Háskólanum í heyranda hljóði á þeim degi sem viðkomandi deild ákveður. Ritgerð skal dæmd og varin samkvæmt reglum Háskóla Íslands um doktorspróf. Deildarforseti stýrir doktorsvörn. Nú vill maður sem ekki er tilnefndur andmælandi taka til máls um verk doktorsefnis, og skal hann þá skýra deildarforseta frá því einum sólarhring áður en doktorsvörn fer fram. Þó getur deildarforseti leyft manni úr áheyrendahópi að gera stutta athugasemd án slíks fyrirvara. Nánar er kveðið á um framkvæmd doktorsvarna í verklagsreglum háskólaráðs. Að lokinni munnlegri vörn ákveður deildarforseti ásamt andmælendum hvort veita skuli doktorsnafnbót. Verði ágreiningur skal skjóta málinu til deildarfundar. Fulltrúar stúdenta á deildarfundum eiga ekki atkvæðisrétt um mál er varða veitingu doktorsnafnbóta.

Ekki eru gefnar einkunnir fyrir doktorspróf.

28. gr.  Skil, framsetning og frágangur doktorsritgerða.

Doktorsnemi lýkur rannsóknum sínum með viðamikilli ritgerð sem skal alla jafnan vera 75.000-100.000 orð. Þó má framhaldsnámsnefnd veita undanþágu frá þessum lengdarmörkum í sérstökum tilvikum. Skal þá nefndin kveða nánar á um umfang doktorsritgerða og tiltaka hámarkslengd. Til doktorsritgerða eru gerðar kröfur um vísindaleg vinnubrögð og sjálfstætt framlag til þekkingarsköpunar á fræðasviðinu. Meginreglan er sú að doktorsritgerð sé eitt heildstætt verk. Einnig er heimilt að leggja fram fleiri ritgerðir en eina og verða ritgerðir þá að varða sama meginrannsóknasvið og mynda heild. Þegar svo stendur á skal semja sérstaka yfirlitsgrein þar sem dregið er saman efni hinna einstöku ritgerða, settar fram heildarályktanir eða efni þeirra tengt með öðrum fræðilegum hætti. Þegar doktorsritgerð er samsett af greinum skulu þær allar hafa birst á viðurkenndum ritrýndum vettvangi.

Í doktorsritgerð skal tekið til rannsóknar afmarkað og samstætt viðfangsefni og það kannað rækilega með vísindalegum aðferðum. Í upphafi skal gera grein fyrir viðfangsefninu, þeim spurningum sem bornar verða upp og rannsóknaraðferðinni. Niðurstöður verður að setja fram skýrt og aðgengilega. Ef rannsóknin greinist í afmarkaða hluta sem ekki eru að öllu samstæðir skal gera grein fyrir stöðu einstakra hluta rannsóknarinnar innan heildarinnar og tengja meginniðurstöður einstakra hluta saman á einum stað. Til að uppfylla almennar kröfur Hugvísindasviðs þarf doktorsnemi að hafa fylgt viðurkenndum vísindalegum rannsóknaraðferðum og sýnt ótvíræðan skilning á fræðasviði sínu og yfirgripsmikla þekkingu. Einnig skal doktorsnemi með doktorsritgerð sinni hafa auðgað fræðasvið sitt með viðamikilli rannsókn og sjálfstæðu framlagi sem telst mikilvægt innan fræðigreinarinnar. Skal þessi rannsókn og aðrir þættir doktorsnámsins sýna að doktorsneminn geti greint og sett fram á skýran hátt flóknar hugmyndir sem krefjast ítarlegrar rannsóknar. Skal hann geta tekið fullan þátt í rökræðu innan sviðsins á fræðilegum vettvangi sem sjálfstæður fræðimaður, miðlað þekkingu sinni bæði í ræðu og riti, og stuðlað að aukinni menntun og þekkingu innan samfélagsins. Ef hluti verkefnis til doktorsprófs er nákvæm úrvinnsla eða útgáfa frumheimilda eða efnissöfnun af einhverju tagi, t.d. textaútgáfa eða orðfræðilegt viðfangsefni, verður verkefnið alltaf að hafa almennan hluta sem lýtur venjulegum kröfum til doktorsritgerðar að umfangi undanskildu, enda sé hann sprottinn upp úr frumvinnunni og gefi henni fræðilega dýpt eða dragi af mikilvægum þáttum hennar almennar ályktanir.

Ritgerð skal liggja frammi á skrifstofu deildar og á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni í [tvær vikur]1 áður en vörn fer fram. Doktorsefni skal þá láta prenta ritgerðina, hafi það ekki verið gert áður, og afhenda Háskóla Íslands fjögur eintök. Við frágang doktorsritgerðar og meðferð heimilda skal koma skýrt fram í inngangskafla að verkefnið sé unnið við Háskóla Íslands, tilgreina skal leiðbeinendur, fræðasvið, deild og rannsóknastofnun, ef við á, og geta skal þeirra sjóða háskólans sem styrkt hafa verkefnið og þeirra stofnana eða fyrirtækja utan háskólans sem doktorsefni hefur tengst við vinnslu þess. Ritgerð skal að jafnaði vera á íslensku eða ensku en útdráttur á báðum tungumálum skal fylgja. Doktorsritgerð má þó vera á öðru erlendu tungumáli ef doktorsnefnd samþykkir og deild getur veitt doktorsefni leyfi til að tala erlent tungumál við doktorsvörn. Við frágang og meðferð heimilda skal doktorsefni að öðru leyti fylgja reglum þeirrar deildar sem hann brautskráist frá. Forsíða ritgerðar skal bera auðkenni (logo) Háskóla Íslands. Ef um sameiginlega doktorsgráðu er að ræða með öðrum háskóla eða háskólum samkvæmt samningi þar um, ber forsíða ritgerðar auðkenni beggja eða allra háskóla sem hlut eiga að máli.

Hugvísindastofnun ber kostnað vegna útgáfu ritgerðar ásamt doktorsefni, sem annast lögbundin skil á henni til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Rafrænt eintak ber að vista í gagnasafni Skemmu sem safnið rekur.

1Breytt með 2. gr. rgl. nr. 599/2012.

29. gr.  Tengsl við aðra háskóla.

Hluta doktorsnáms má taka við aðra háskóla eða viðurkenndar rannsókna- eða vísindastofnanir. Jafnframt er heimilt að veita doktorsgráðu sameiginlega með öðrum háskóla.

30. gr.  Lærdómstitill.

[Doktorspróf frá deildum Hugvísindasviðs, að undangegnu doktorsnámi samkvæmt reglum þessum, veitir lærdómstitilinn Philosophiae Doctor (Ph.D.). Skal segja á skírteini hvaða fræðigrein doktorsprófið tilheyrir.]1

1Breytt með 3. gr. rgl. nr. 599/2012.

IV. KAFLI  Tengsl við Miðstöð framhaldsnáms, gildistaka o.fl.

31. gr.  Miðstöð framhaldsnáms.

Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands hefur umsjón með og fylgir eftir settum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands. Deildir háskólans bera faglega ábyrgð á framhaldsnámi við skólann. Miðstöð framhaldsnáms hefur heildaryfirsýn yfir framhaldsnámið og starfar náið með háskóladeildum, gæðanefnd háskólaráðs og sameiginlegri stjórnsýslu. Miðstöðin er vettvangur samráðs og samvinnu um námið innan háskólans og tengiliður við samstarfsaðila innan lands og utan.

Miðstöð framhaldsnáms hefur eftirlit með því að deildir fylgi almennum reglum um inntökukröfur, inntökuferli, inntökupróf fyrir doktorsnema ef því er að skipta, námsframvindu og dagsetningar sem standast verður til að nemendur geti lokið framhaldsnámi. Miðstöðin fylgist jafnframt með því að nemendur í framhaldsnámi séu ávallt skráðir við háskólann á meðan á námi stendur, annast skráningu niðurstaðna deilda vegna umsókna um framhaldsnám, námsáætlana fyrir rannsóknatengt meistaranám og breytinga á þeim og skrá og staðfesta námsáætlanir fyrir doktorsnám og breytingar á þeim, sbr. nánar í 66. gr. reglna Háskóla Íslands.

32. gr.  Gildistaka o.fl. 

Reglur þessar eru settar af háskólaráði með heimild í 3. mgr. 18. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Reglurnar hafa verið samþykktar af Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, Íslensku- og menningardeild, Sagnfræði- og heimspekideild, stjórn Hugvísindasviðs og Miðstöð framhaldsnáms, sbr. 66. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 952/2002 um framhaldsnám við heimspekideild Háskóla Íslands, með síðari breytingum, reglur nr. 280/2006 um M.Paed.-nám í kristnum fræðum og almennum trúarbragðafræðum við guðfræðideild Háskóla Íslands og reglur nr. 342/2007 um doktorsnám við hugvísindadeild Háskóla Íslands, með síðari breytingum.

Háskóla Íslands, 4. febrúar 2011.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.