Börn og banaslys á dráttarvélum | Háskóli Íslands Skip to main content

Börn og banaslys á dráttarvélum

Jónína Einarsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild

Börn og dráttarvélar. Um þetta hafa oft birzt fréttir í DEGI, frásagnir af slysum og aðvaranir.“ Svona hljóðar upphaf greinar í dagblaðinu Degi, 7. október árið 1959. „Á árum áður urðu tvö til þrjú dauðaslys á ungmennum á ári hverju og það var mest vegna grindarlausra dráttarvéla sem þau voru látin aka,“ segir í Morgunblaðinu 26. júní 1999 þar sem fjallað er um nýjar reglur um vinnuvernd barna.

Jónína Einarsdóttir, prófessor í mannfræði barna, hefur nú hafið öflun gagna um aldur og kyn allra þeirra sem dóu í dráttarvélaslysum á árum áður, aðstæður slysanna, lagabreytingar og umræður um þær. Í rannsókninni eru m.a. tekin viðtöl við einstaklinga sem óku dráttarvélum sem börn.

„Sagan um hvernig börn, allt niður í átta ára aldur, óku dráttarvélum, hin tíðu slys og viðbrögðin við þeim endurspeglar hugmyndir samtímans um börn, hæfni þeirra og gerendahæfi.“

Jónína Einarsdóttir

Jónína hefur nú hafið öflun gagna um aldur og kyn allra þeirra sem dóu í dráttarvélaslysum á árum áður, aðstæður slysanna, lagabreytingar og umræður um þær.

Jónína Einarsdóttir

Jónína hóf að skoða þann sið að senda börn í sveit eftir að hafa gert rannsókn á mansali barna í Gíneu-Bissá, „en þar eru hliðstæðir siðir gjarnan flokkaðir sem mansal. Áhuginn á dráttarvélaakstri barna og slysunum vaknaði svo í kjölfarið,“ segir Jónína.

Niðurstöður úr rannsókninni liggja ekki fyrir enn. „Ljóst er þó að illa gekk að fá samþykktan lágmarksaldur barna sem mátti aka dráttarvél utan vega, en færð voru rök fyrir því að ungur aldur ökumannsins væri ekki einhliða áhrifaþáttur slysanna. Megináhersla var lögð á aukið öryggi, öryggisgrindur og fræðslu. Lagasetning var talin hefta aðgang bænda að vinnuafli.“

Jónína segir að rannsóknin sýni hvernig dráttarvélin og vélvæðing landbúnaðarins hafði áhrif á aldur og kyn barna og unglinga sem fóru í sveit, hvaða störf þóttu hæfa þeim og hvernig þau upplifðu sveitadvölina.

„Ég skoða hvernig hugmyndir samfélagsins um börn og hæfni þeirra breyttust og meðvitund um öryggi á vinnustað skapaðist. Rannsóknin er kenningalegt framlag til mannfræði barna.“

Netspjall