Skip to main content

Bjargvættir á bráðavaktinni

Bergrós K. Jóhannesdóttir, deildarlæknir á skurðsviði Landspítala og MS-nemi við Læknadeild 

Mikla athygli vakti í vetur þegar heilbrigðisteymi, undir stjórn Tómasar Guðbjartssonar hjarta- og lungnaskurðlæknis á Landspítala og prófessors við Háskóla Íslands, bjargaði manni eftir lífshættulega hnífsstungu. Hnífurinn hafði numið staðar í hjarta mannsins. Þetta er ekki einsdæmi því síðastliðinn áratug hefur tekist að bjarga fjölda sjúklinga á Landspítala með bráðaskurðaðgerð eftir lífshættulega áverka, meðal annars vegna blæðinga frá hjarta og lungum.

Ástæða þótti til að kanna hver árangur þessara aðgerða væri hér á landi með hliðsjón af því sem tíðkast í nágrannalöndunum en þetta eru flóknar aðgerðir og sjúklingarnir eru oftast í mikilli lífshættu við komu á sjúkrahúsið. Rannsóknin er samvinnuverkefni Landspítala og Háskóla Íslands og beinist aðallega að aðgerðunum og árangri þeirra en einnig að tíðni þessara áverka hér á landi.

„Þetta eru oft mjög veikir sjúklingar þar sem blæðing getur numið tugum lítra. Þetta er fyrsta rannsókn sinnar tegundar sem nær til heillar þjóðar en verið er að líta til tímabilsins frá 2000 til 2011,“ segir Bergrós Jóhannesdóttir, MS-nemi í líf- og læknavísindum en hún leiðir rannsóknina. Bergrós er einnig deildarlæknir á skurðsviði með áhuga á skurð- og bráða- lækningum og samtvinnar rannsóknin hvort tveggja.

Bergrós K. Jóhannesdóttir

Að sögn Bergrósar eru sjúklingar með alvarlega stungu- og skotáverka yfirleitt ungir, oftast karlmenn á bilinu 20 til 30 ára. Hún segir að aðgerðir á þessu fólki séu mjög margþættar og kostnaðarsamar og því sé afar mikilvægt að kanna árangur þeirra.

Bergrós K. Jóhannesdóttir

Grein um fyrri hluta rannsóknarinnar birtist í tímaritinu Injury árið 2013 en þar var einblínt á sjúklinga sem voru teknir í bráðaskurðaðgerð strax við komu á bráðamóttöku og höfðu lífshættulega áverka á brjóstholi. „Rúmlega helmingur sjúklinga lifði aðgerðina sem þykir mjög góður árangur í alþjóðlegum samanburði. Vinna við síðari hluta rannsóknarinnar er nú í fullum gangi,“ segir Bergrós.

Í síðari hlutanum er horft til allra alvarlegra áverka á stóræðar. Einnig verður litið sérstaklega til stunguáverka á Landspítala á 15 ára tímabili en þar tókst að bjarga lífi 98 prósenta af þeim sjúklingum sem komu á bráðadeildina. „Sá hluti rannsóknarinnar er í samvinnu við Unu Jóhannesdóttur læknanema og Guðrúnu Maríu Jónsdóttur unglækni.“

Að sögn Bergrósar eru sjúklingar með alvarlega stungu- og skotáverka yfirleitt ungir, oftast karlmenn á bilinu 20 til 30 ára. Hún segir að aðgerðir á þessu fólki séu mjög margþættar og kostnaðarsamar og því sé afar mikilvægt að kanna árangur þeirra. Til að skýra hversu viðamiklar sumar aðgerðirnar eru má benda á að einum sjúklingi voru gefnir 55 lítrar af blóði í tengslum við aðgerðina en með því var lífi hans bjargað.

Í rannsóknahópnum eru auk áðurnefndra þeir Hjalti Már Þórisson, sérfræðingur í röntgenlækningum, og Karl Logason, æðaskurðlæknir á Landspítala.

Leiðbeinendur: Tómas Guðbjartsson, prófessor við Læknadeild, og Brynjólfur Mogensen, dósent við Læknadeild.