Skip to main content

Betri verkjameðferðir

Sigríður Zoëga, doktor frá Hjúkrunarfræðideild

„Sem hjúkrunarfræðingur á Landspítala hef ég kynnst því hversu mikilvægt það er að veita góða verkjameðferð til að bæta líðan sjúklinga og stuðla að bata. Verkjameðferð getur verið flókin og vandasöm og mig langaði til að vita hvernig hægt væri að bæta hana,“ segir Sigríður Zoëga sem lauk doktorsprófi frá Hjúkrunarfræðideild haustið 2014. Í doktorsrannsókn sinni skoðaði hún mat á verkjum og meðferð við þeim á sjúkrahúsi. Þá var árangur verkjameðferðar metinn hjá sjúklingum á 23 legudeildum á Landspítala.

Sigríður Zoëga

„Verkjameðferð getur verið flókin og vandasöm og mig langaði til að vita hvernig hægt væri að bæta hana,“ segir Sigríður Zoëga sem lauk doktorsprófi frá Hjúkrunarfræðideild haustið 2014.

Sigríður Zoëga

„Niðurstöður rannsókninnar sýna að 83% sjúklinga á spítalanum höfðu fundið fyrir verkjum sólarhringinn áður en spurt var. Þar af hafði um þriðjungur þeirra upplifað mikla verki.“ Sigríður segir að skráning og mat verkja hafi ekki verið í samræmi við klínískar leiðbeiningar og að margir sjúklinganna hafi ekki fengið viðeigandi meðferð. „Rannsóknin sýndi fram á að þátttaka sjúklinga í ákvarðanatöku um meðferð hafði jákvæð áhrif á verkjastillingu. Einnig stytti það tímann sem þeir fundu fyrir miklum verkjum,“ bætir Sigríður við.

Sigríður bendir á að rannsóknin sé sú fyrsta sinnar tegundar sem gerð er hérlendis. „Rannsóknin gefur yfirlit yfir verki inniliggjandi sjúklinga og hvernig þeir eru meðhöndlaðir. Niðurstöðurnar má nýta til að þróa og bæta gæði verkjameðferðar á sjúkrahúsum,“ segir Sigríður og minnir á að í lögum um réttindi sjúklinga sé kveðið á um að lina skuli þjáningar sjúklinga eins og þekking á hverjum tíma best leyfir.

Leiðbeinandi: Sigríður Gunnarsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild.