Skip to main content

Aukin notkun svefnlyfja

Amanda da Silva Cortes, MS frá Lyfjafræðideild

„Í apótekinu þar sem ég vann með námi sá ég að svefnlyf og róandi lyf seldust gríðarlega vel. Þá vaknaði sú spurning hvort notkunin væri að breytast og hvort bæði kynin notuðu þessi lyf á sama hátt. Þetta varð til þess að ég ákvað að rannsaka algengi og nýgengi í notkun róandi lyfja og svefnlyfja á Íslandi árin 2003–2103,“ segir Amanda da Silva Cortes sem lauk MS-prófi í lyfjafræði vorið 2014.

Amanda da Silva Cortes

„Í apótekinu þar sem ég vann með námi sá ég að svefnlyf og róandi lyf seldust gríðarlega vel. Þá vaknaði sú spurning hvort notkunin væri að breytast og hvort bæði kynin notuðu þessi lyf á sama hátt.“

Amanda da Silva Cortes

Skýrsla Norrænu heilbrigðistölfræðinefndarinnar (NOMESKO) frá árinu 2011 greinir frá því að Íslendingar hafi um árabil notað meira af svefnlyfjum en fólk annars staðar á Norðurlöndunum. Enn fremur hefur notkunin á Íslandi aukist undanfarin ár á meðan hún hefur staðið í stað annars staðar á Norðurlöndum. Notkun svefnlyfja og ávanabindandi lyfja jókst umtalsvert á árunum 2003–2009. „Notkunin virðist ná toppi árin 2010–2011 og haldast stöðug eftir það,“ segir Amanda. „Þetta fannst mér athyglisvert og full ástæða til að rannsaka nánar. Ég leitaðist við að varpa ljósi á þróun í notkun róandi lyfja og svefnlyfja á Íslandi undanfarin ár sem og möguleg tengsl við notkun annarra ávanabindandi lyfja.“

„Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að svefnlyfjanotkun reynist meiri hjá konum en körlum og notkunin og aukningin reynist meiri hjá eldri konum en þeim yngri á þessu tímabili. Hjá konum var mynstur samhliða notkunar á svefnlyfjum og á öðrum ávanabindandi lyfjum svipað notkun annarra ávanabindandi lyfja í þeim hópi sem rannsakaður var. Meðal karla reyndist meiri aukning í heildarnotkun annarra ávanabindandi lyfja en í svefnlyfjum,“ segir Amanda og bætir við: „Niðurstöðurnar gefa innsýn í hvernig þjóðin notar svefnlyf og róandi lyf og meðal hvaða aldurshópa karla og kvenna notkunin eykst mest.“

Leiðbeinandi: Lárus Steinþór Guðmundsson, lektor við Lyfjafræðideild.