Andleg líðan og horfur krabbameinssjúklinga | Háskóli Íslands Skip to main content

Andleg líðan og horfur krabbameinssjúklinga

Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild 

„Það að greinast með lungnakrabbamein er þungbær lífsreynsla. Markmið okkar er að varpa ljósi á umfang og forspárþætti streituviðbragðs hjá sjúklingum sem greinast með slíkt mein og möguleg áhrif þess á framþróun sjúkdómsins,“ segir Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði, um rannsóknir sem hún vinnur nú að. Vonast er til að rannsóknin leiði til nýrra inngripa sem minnki sjúkdómsbyrði lungnakrabbameinssjúklinga og hægi á framþróun meinsins.

Rannsóknir Unnar snúa flestar að áhrifum streitu á heilsufar og þá sérstaklega að áhrifum streitu á þróun krabbameina. Að Unnar sögn heldur Landspítalinn einstaklega vel utan um þá sem undirgangast greiningu vegna gruns um lungnakrabbamein. „Samvinna við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk, sem hafa þróað þetta greiningarferli, er grundvöllur þess að geta stundað góðar rannsóknir á þessum hópi sjúklinga,“ segir Unnur.

Unnur Anna Valdimarsdóttir

Að Unnar sögn heldur Landspítalinn einstaklega vel utan um þá sem undirgangast greiningu vegna gruns um lungnakrabbamein.

Unnur Anna Valdimarsdóttir

Að sögn Unnar sýna nýlegar rannsóknir innan háskólans að streituviðbrögð við greiningu krabbameins, ekki síst lungnakrabbameins, auki skyndilega áhættu á alvarlegum breytingum á heilsufari. „Í alþjóðlegu samstarfsverkefni sáum við skýra aukningu á hjartaáföllum og sjálfsvígum í kjölfar lungnakrabbameinsgreiningarinnar. Einnig eru vísbendingar um áhrif streitu og lífeðlislegra viðbragða við streitu á vöxt krabbameina, sérstaklega frá dýrarannsóknum, en rannsóknir á mönnum á þessu sviði eru enn fáar og takmarkaðar.“

Að Unnar sögn er verið að hefja framsýna söfnun frá um 300 lungnakrabbameinssjúklingum sem gangast undir greiningarferli á lungnadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss á næstu þremur árum.

„Fyrir og eftir lungnakrabbameinsgreininguna munum við mæla streitu og andlega líðan auk lífeðlisfræðilegs birtingarforms streitunnar, þ.e. streituhormón og streituviðbrögð í hjarta- og æðakerfi,“ segir Unnur. Hún segir að í rannsókninni verði einnig greindir klínískir og sálfélagslegir forspárþættir mikilla streituviðbragða við krabbameinsgreininguna ásamt tengslum þeirra við eðli meinsins. „Þetta er metið með vefjasýni úr æxli. Við mælum einnig hraða æxlisvaxtarins með reglulegum tölvusneiðmyndum og fylgjumst með lifun sjúklinganna. Með þessu viljum við skilja betur samspil streitu við krabbameinsgreiningu á framþróun sjúkdómsins.“

Netspjall