Áhrif fjölmiðla á eignaverð | Háskóli Íslands Skip to main content

Áhrif fjölmiðla á eignaverð

Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptafræðideild

„Í rannsókninni er skoðaður þáttur íslenskra fjölmiðla í vexti þeirrar eignaverðsbólu sem þandist út á Íslandi í aðdraganda hruns. Sérstaklega er horft til hlutafjármarkaðar en einnig verður fasteignamarkaður skoðaður.“

Þetta segir Gylfi Magnússon, dósent í rekstrarhagfræði og fjármálum við Háskóla Íslands. Hann hyggst í nýrri rannsókn sinni athuga m.a. hvort fjölmiðlar hafi ýtt undir bóluna þannig að jákvæðar fréttir af hagnaði og velgengni hafi búið til spurn eftir eignum sem aftur hækkuðu verð og bjuggu til nýjar fréttir af hagnaði. „Slík þróun kallast á máli fræðanna jákvæður spírall endurgjafar.“

Gylfi hefur haft mikinn áhuga á að kanna þá bresti sem orsökuðu hrunið hér á landi. Við rannsóknina nýtir Gylfi bæði reynslu úr akademíunni og úr efstu lögum stjórnsýslunnar því Gylfi var um hríð efnahagsog viðskiptaráðherra eftir hrun. Undir ráðuneyti hans heyrði þá Seðlabankinn og flest það sem laut að stjórn efnahagsmála í stjórnsýslunni.

Gylfi Magnússon

„Í rannsókninni er skoðaður þáttur íslenskra fjölmiðla í vexti þeirrar eignaverðsbólu sem þandist út á Íslandi í aðdraganda hruns. Sérstaklega er horft til hlutafjármarkaðar en einnig verður fasteignamarkaður skoðaður.“

Gylfi Magnússon

„Kveikjan að rannsókninni var vitaskuld fyrst og fremst þær sviptingar sem urðu á Íslandi í hruninu og aðdraganda þess. Ég hef áður unnið takmarkaðri rannsókn á þætti fjölmiðla á Íslandi í netbólunni svokölluðu þannig að þessi kemur í rökréttu framhaldi,“ segir Gylfi sem lauk doktorsprófi í hagfræði frá hinum virta Yale-háskóla í Bandaríkjunum.

Gylfi segir að rannsóknin ætti að varpa betra ljósi á atburði sem höfðu mjög mikil áhrif á íslenskt samfélag og því ætti hún að verða áhugaverð fyrir alla áhugamenn um það.

„Jafnframt ætti hún að geta almennt varpað ljósi á hvernig umræða, m.a. í fjölmiðlum, getur haft áhrif á þróun á fjármálamörkuðum. Það er áhugavert fyrir aðila utan Íslands. Það hafa ýmsir erlendir fræðimenn skoðað svipaða þróun á erlendum mörkuðum en íslensku gögnin eru að ýmsu leyti betri en þau sem þar hefur verið byggt á.“

Netspjall