Skip to main content

Verðmat heiðmerkur

Kristín Eiríksdóttir, doktorsnemi í umhverfishagfræði

Heimsóknum í Heiðmörk fjölgaði verulega eftir hrun bankanna haustið 2008,“ segir Kristín Eiríksdóttir doktorsnemi í umhverfishagfræði sem rannsakar verðmat náttúrugæða í Heiðmörk. „Hrun bankanna olli því eflaust að íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa minni fjárráð og sækja því í auknum mæli í Heiðmörk sem er í næsta nágrenni og tiltölulega ódýr kostur í afþreyingu.“

Verkefnið í Heiðmörk kom óvænt upp í hendurnar á Kristínu en rannsókninni er ætlað að leggja mat á verðgildi náttúru- og útivistarsvæða í Heiðmörk og er fjármögnuð af Rannís og eigendum Heiðmerkur, Garðabæ, Reykjavík, Orkuveitu Reykjavíkur og skógræktarfélögum sem eiga þar spildur.

Kristín Eiríksdóttir

„Hrun bankanna olli því eflaust að íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa minni fjárráð og sækja því í auknum mæli í Heiðmörk sem er í næsta nágrenni og tiltölulega ódýr kostur í afþreyingu.“

Kristín Eiríksdóttir

„Íslendingar gera sér almennt ekki grein fyrir því að hægt sé að verðmeta umhverfið í krónum og aurum,“ segir Kristín. „Þetta er fyrsta viðamikla rannsóknin af þessu tagi sem gerð hefur verið á Íslandi þótt svipaðar rannsóknir hafi tíðkast í tengslum við skipulagsmál í Bandaríkjunum og Evrópu í hálfa öld.“

Verðmat náttúrugæða er að vissu marki háð því hvaða aðferð er notuð. Kristín beitir fjölbreyttum rannsóknaraðferðum, t.d. ferðakostnaðaraðferð, skilyrtu verðmætamati og valtilraunum til að auka réttmæti rannsóknarinnar. „Það er mikill misskilningur hjá vísindamönnum að henda fram einni verðmatstölu sem heilögum sannleik. Rannsóknin mun gefa eigendum Heiðmerkur tækifæri til að taka upplýstar ákvarðanir um framtíðar nýtingar- og verndunarmöguleika svæðisins.“

Aðspurð segist Kristín ekki vera umhverfissinni heldur hagfræðingur sem ber hag notenda fyrir brjósti og vill að hlutunum sé stjórnað á hagkvæman hátt.

Leiðbeinandi: Ragnar Árnason,prófessor í Hagfræðideild.