Háskóli Íslands

Nýjar rannsóknir í fornleifafræði: Hundar á Íslandi frá landnámsöld til 1800

Hvenær hefst þessi viðburður: 
19. apríl 2017 - 12:00
Staðsetning viðburðar: 
Háskóli Íslands

Albína Hulda Pálsdóttir og Jón Hallsteinn Hallsson, hjá Landbúnaðaraháskóla Íslands, flytja hádegiserindi sem nefnist Hundar á Íslandi frá landnámsöld til 1800. Fyrirlesturinn verður haldinn í Þjóðminjasafni Íslands miðvikudaginn 19. apríl og hefst kl. 12:00.

Hundar eru sú dýrategund sem fyrst var tamin af mönnum og sú eina sem fylgt hefur manninum til allra búsvæða hans frá Afríku, um hásléttur Asíu og allt til Suður-Ameríku um Beringslandbrúna. Hundurinn virðist því hafa gegnt lykilhlutverki í útbreiðslu mannsins um heiminn, sem dráttardýr, varð- og veiðidýr. Hundar voru meðal þeirra dýra sem landnámsfólk flutti til Íslands á 9. öld. Hundsbeinagrindur hafa fundist í nokkrum íslenskum kumlum og hundabein hafa fundist í mörgum íslenskum fornleifarannsóknum undanfarin ár. Þrátt fyrir augljóst mikilvægi hafa hundar ekki verið áhersluatriði í rannsóknum en það er að breytast. Í þessum fyrirlestri verða kynntar niðurstöður á dýrabeinafornleifafræðilegri samantekt um þau hundabein sem fundist hafa á Íslandi hingað til, hvar þau finnast, hvers kyns hunda var um að ræða og breytingar sem kunna að hafa orðið á hundahaldi frá landnámi fram til 1800.

Erindið er flutt í fyrirlestraröðinni Nýjar rannsóknir í íslenskri fornleifafræði sem Félag fornleifafræðinga, námsbraut í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafnið standa að.

Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is