Háskóli Íslands

Meistarafyrirlestur í tölfræði - Bjarni Gunnarsson

Hvenær hefst þessi viðburður: 
19. apríl 2017 - 13:00
Staðsetning viðburðar: 
Nánari staðsetning: 
102
Bjarni Gunnarsson
Þann 19. apríl klukkan 13:00 mun Bjarni Gunnarsson verja meistaraverkefni sitt við Raunvísindadeild Háskóla Íslands en verkefnið ber heitið Sameiningar svipgerða með aðhvarfsgreiningu tengslaójafnvægis (e. Phenotype combinations using LD score regression). Aðalleiðbeinandi er dr. Bjarni Halldórsson hjá Íslenskri erfðagreiningu, meðleiðbeinendur eru dr. Sigrún Helga Lund, dósent í tölfræði hjá Læknadeild Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og dr. Birgir Hrafnkelsson, prófessor í tölfræði hjá Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Prófdómari er dr. Daníel Fannar Guðbjartsson hjá Íslenskri erfðagreiningu. Ágrip: Til að auka afl í rannsóknum á erfðamenginu er áhugi á að greina margar svipgerðir á sama tíma. Stakar rannsóknir skortir afl og margar svipgerðir hafa sameiginlegan erfðafræðilegan bakgrunn. Við þróum og notum nálgun til að greina margar svipgerðir samtímis. Aðferðin er byggð á aðferð O’Brien til að sameina svipgerðir og aðhvarfsgreiningu tengslaójafnvægis.  Þessi leiðrétting ofmetur ekki aukningu í prófstærðum líkt og hefðbundin erfðamengisleiðrétting. Við sönnum að aðhvarfsgreining tengslaójafnvægis sé gild aðferð fyrir O’Brien sameiningu. Aðferðin greinir á milli truflandi þátta og fjölerfðafræðiþátta. Aðferðin var forrituð og prófuð með hermunum og við sýndum að þessi aðferð geti aukið afl. Við notuðum aðferðina á krabbameinssvipgerðir og fundum ný svæði í erfðamenginum, og þekkt svæði í erfðamenginu höfðu aukið afl. Á leið að þessu markmiði þá fengum við nokkrar auka niðurstöður. Við reiknuðum íslenskt tengslaójafnvægiskort og sýndum að meðal tengslaójafnvægi er hærra en fyrir kort sem er reiknað út frá 1000 Genomes hópnum (1000G). Við mátum arfgengi fyrir mengi svipgerða og sýndum að matið er bjagað upp á við ef 1000G kortið er notað til að meta arfgengi fyrir íslenskt úrtaks. Við sýndum að það er marktæk erfðafræðileg fylgni milli þyrpinga svipgerða.
Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is