Háskóli Íslands

Kynning á MA-ritgerðum í sagnfræði

Hvenær hefst þessi viðburður: 
9. maí 2017 - 16:00 til 17:30
Staðsetning viðburðar: 
Nánari staðsetning: 
Stofa 422
Háskóli Íslands

Kynning á nýjum MA-ritgerðum í sagnfræði fer fram í Árnagarði, stofu 422, þriðjudag 9. maí og miðvikudag 10. maí kl. 16-17:30.

Dagskrá 9. maí:

Bjarni Grétar Ólafsson. Breytingar á greiðsluháttum og greiðslumiðlun á Íslandi á síðustu öld. Leiðbeinandi: Guðmundur Jónsson.

Í ritgerðinni er fjallað um þær breytingar sem urðu á greiðsluháttum og greiðslumiðlun á Íslandi á síðustu öld. Í upphafi aldarinnar voru peningar algengasti greiðsluháttur almennings en upp úr miðri öldinni komu tékkarnir til sögunnar og voru algengasti greiðsluháttur allt fram á tíunda áratuginn. Kreditkortin komu til sögunnar á níunda áratugnum og debetkort og rafrænar greiðslur, millifærslur og sjálfsafgreiðslur á þeim tíunda, sem leystu tékkana af hólmi. Fjallað er um forsendur þessara breytinga, hvernig þær áttu sér stað og alþjóðlegt samhengi. Að lokum er fjallað um breytta kaup- og greiðsluhegðun almennings með tilkomu nýrra greiðslumiðla og breyttra tíma.

Egill Steinar Fjeldsted. Við fengum strákana en misstum stelpuna. Krapaflóðin á Patreksfirði 1983. Leiðbeinandi: Sigurður Gylfi Magnússon.

Viðfangsefni ritgerðarinnar eru tvö krapaflóð sem féllu með skömmu millibili á Patreksfirði laugardaginn 22. janúar 1983. Í viðleitni til að skilja hvað gerist þegar slíkar náttúruhamfarir falla á íbúðarbyggð með þeim afleiðingum að fjórar manneskjur látast og 33 verða heimilislausar er kafað djúpt ofan í líf fjölskyldu Vigdísar Helgadóttur. Í þeirri frásögn lýsir hún því þegar flóðið fór í gegnum heimili hennar með þeim afleiðingum að ung dóttir hennar lést. Einnig gefur hún innsýn í hvernig líf fólks breytist við slíka lífsreynslu og hvaða atburðarás tekur við næstu daga, vikur, mánuði, ár og áratugi. Til að skilja atburðarásina betur gefa 19 aðrir íbúar innsýn í hvað gerðist þennan dag. Fjórir þeirra voru líkt og Vigdís á heimilum sínum þegar fyrra flóðið skall á húsum þeirra sem ýmist stórskemmdust eða gjöreyðilögðust. Aðrir sem rætt er við tóku þátt í björgunaraðgerðum með ýmsum hætti og þurftu jafnvel að grafa upp nána ættingja úr húsarústum.

Gerður Eygló Róbertsdóttir. Nútímavæðing kvenleikans? Viðhorf kvenna til jafnréttismála 1960 til 1969. Leiðbeinendur: Ragnheiður Kristjánsdóttir og Erla Hulda Halldórsdóttir

Markmið ritgerðar er að varpa ljósi á viðhorf kvenna til jafnréttismála 1960 til 1969, á árunum fyrir rauðsokkur og nýju kvennahreyfinguna. Samtímaheimildir, fyrst og fremst tímaritsgreinar eftir konur, verða rýndar, umræðan um jafnrétti og kvenfrelsi flokkuð og greind og hugmyndir um hlutverk kvenna og kvenleikann dregnar fram. Með orðræðugreiningu verður leitast við að skilgreina og skilja hugmyndir kvenna, sjá hvernig orðin endurspegla veröld þeirra, vonir og væntingar. Þær rannsóknarspurningar sem gengið er út frá snúast um áhrif og átök ólíkra hugmyndakerfa. Voru konur að samsama sig ríkjandi viðhorfum eða voru þær að andæfa og gagnrýna staðnað kynjakerfi? Voru nútímalegar hugmyndir komnar fram og því hægt að segja að konur hafi á þessum árum stigið skref í átt að „nútímavæðingu kvenleikans“?

Kristján Pálsson. Saga Hnífsdals frá landnámi til upphafs 19. aldar. Leiðbeinandi: Már Jónsson.

Hnífsdalur var líklega numinn af Þórólfi bræki sem samkvæmt Landnámu nam land á sama tíma og Helgi Hrólfsson sem nam Skutulsfjörð. Vatnsfirðingar voru eigendur Hnífsdalsjarðanna á 14 öld. Síðar eignast Árni Gíslason sýslumaður þær og gaf fylgikonu sinni, Helgu Tómasdóttur. Frá þeim kemur Hnífsdalsætt sem átti Hnífsdalsjarðinar í um 350 ár en Ögurætt síðan í um 140 ár eða til ársins 1763. Manntalið 1703 gefur til kynna að margt fólk hafi búið í Hnífsdal á hverju heimili. Samkvæmt Jarðabókinni 1710 var þar stór bústofn með 151 sauð, sem bendir til mikillar ullarframleiðslu. Stórabóla 1707-1709 felldi um 40% af öllu vinnufæru fólki í Hnífsdal; allar jarðirnar þar voru þó setnar árið 1710. Ríkastur Hnífsdælinga var Jón Jónsson lögréttumaður sem keypti allar Hnífsdalsjarðirnar árið 1763. Þegar hann lést um 1781 átti hann um 115 hundruð í jörðum, þá ríkastur bænda í Ísafjarðarsýslu.

Dagskrá 10. maí:

Dalrún Jóhannesdóttir. Konur eru konum bestar. Sagnfræðileg samtímarannsókn á áhrifum félagasamtaka kvenna á stöðu íslenskra kvenna. Leiðbeinendur: Þorsteinn Helgason og Ragnheiður Kristjánsdóttir

Meginmarkmið ritgerðarinnar er að birta heildstæða mynd af gagnsemi þess að fjalla um samtímamálefni kvenna út frá sagnfræðilegum aðferðum. Í ritgerðinni er fjallað um kynbundið misrétti, þ.m.t. kynbundið ofbeldi, gagnvart konum í íslensku þjóðfélagi í samtímanum út frá sjónarmiðum fagkvenna sem starfa í félagasamtökum sem vinna að mannúðarmálefnum kvenna. Markmið þeirrar umfjöllunar, til viðbótar því að framkvæma sagnfræðilega rannsókn á samtímamálefnum, er að varpa ljósi á ábyrgð og umfang starfsemi félagasamtaka við að rétta hlut kvenna í samfélaginu. Ritgerðin byggir á gagnasöfnun sem grundvallast á viðtölum við forsvarsaðila félagasamtaka á sviði mannúðarmála í þágu kvenna. Aðferðir munnlegrar sögu voru lagðar til grundvallar rannsókninni.

Markús Þ. Þórhallsson. Til varnar Íslandi. Barátta InDefence gegn beitingu hryðjuverkalaga og Icesave samningum 2008-2013. Leiðbeinandi: Guðmundur Jónsson

Icesave deilan setti mark sitt á íslenskt samfélag um árabil. Hrun fjármálakerfisins haustið 2008 og afleiðingar þess urðu til þess að InDefence hópurinn var stofnaður. Í þessu verkefni voru tilurð hópsins og tilgangur rannsökuð, hverjir voru meðlimir og hvaða hlutverk hver og einn hafði innan hans. Sú kenning var gaumgæfð að þeir hafi litið á sig sem frelsishetjur samtímans í rómantískum anda 19. aldarinnar. Þjóðernisleg orðræða þeirra var skoðuð og gagnrýni sem þeir fengu úr ýmsum áttum og efasemdir um heilindi þeirra. Hópurinn samanstóð af fólki sem flest hefur gráðu frá erlendum háskólum. Það hefur verið talinn mesti munurinn á InDefence og öðrum grasrótarhópum. Hver réð og hvernig voru ákvarðanir teknar? Raktar eru ástæður þess að farið var af stað í áróðursstríð eftir að Bretar beittu hryðjuverkalögum. Barátta InDefence gegn Icesave samningunum, aðkoma þeirra að þjóðaratkvæðagreiðslum og samskipti þeirra við alla aðila málsins eru gaumgæfð. InDefence er svo fylgt til ársins 2013 þegar niðurstaða EFTA dómstólsins lá fyrir, þó hópurinn sé enn til.

Pontus Järvstad. Portraying Fascism as a Colonial Understanding of Europe: How Continuities of Imperial Expansion Shaped Fascist Ideology and Practices. Leiðbeinandi: Valur Ingimundarson

The thesis explores to what extent there were continuities between colonialism and fascism. The historical concept of continuity captures in what ways certain elements in society remain stable while there is otherwise much change. How a new system of rule and ideology build upon such a stability while at the same time presenting itself as novel. There is much confusion among scholars about how to define fascism: whether it should be considered a comprehensive ideology or merely a system of rule. What most agree on, however, is fascism’s animosity towards democracy and plurality. This is often conceptualized as a rejection of the pillars of Western civilization built on the ideas stemming from the Enlightenment and liberalism. Yet, such a view obscures the fact that these “pillars” are embedded in European colonialism. While fascism is often seen as being alien because of its indescribable crimes against humanity in the interwar period, it was not only novel but also familiar to its contemporaries. In short, it acted on a continuity of a colonial understanding, not only of the world but of Europe as well.

Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is