Háskóli Íslands

Japanshátíð

Hvenær hefst þessi viðburður: 
1. febrúar 2014 - 13:00 til 17:00
Staðsetning viðburðar: 
Háskóli Íslands

Hin árlega Japanshátíð verður haldin þann 1. febrúar á Háskólatorgi Háskóla Íslands. Hátíðin er skipulögð í samvinnu Sendiráðs Japans á Íslandi og nemenda í Japönsku máli og menningu á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Hátíðin stendur frá kl. 13:00 til 17:00 og er öllum opin og aðgangur ókeypis.

Þetta er tíunda árið sem Japanshátíð er haldin við Háskóla Íslands og á þeim tíma hefur nemendum í japönsku fjölgað ár frá ári.

Flest allt það sem gestum og gangandi er boðið upp á að skoða, kynna sér og neyta á hátíðinni, er unnið og fram borið af nemendum í Japönsku máli og menningu við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Félagsskapur fólks af japönskum uppruna á Íslandi hefur einnig lagt hönd á plóg og stendur meðal annars fyrir japanskri teathöfn og japönskum blómaskreytingum (ikebana).

Nemendur deildarinnar hafa lagt sig alla fram um að skipuleggja og kynna á einstakan og skemmtilegan hátt hin ýmsu atriði sem tengjast japönsku máli og menningu. Á meðal þess sem í boði verður á hátíðinni má nefna; japanska matargerðarlist, japanska skrautritun og kynningu á japanskri tungu og menningu. Neðri hæð Háskólatorgsins verður undirlögð af listum og leikjum þar sem gestum gefst færi á að nema manga teikningu, spreyta sig í pappírsbrotalist (origami) sem og að spila og prófa færni sína með hefðbundnum japönskum barnaleikföngum. Gestir geta þannig kynnt sér japanska dægurmenningu og hvað hún hefur upp á að bjóða.

Á aðalsviði Háskólatorgs mun verða þétt dagskrá, Kimono tískusýning verður haldin nú í fyrsta skiptið, nemendur spila úrval japanskrar tónlistar, keppt verður um glæsilegasta og frumlegasta cosplay búninginn og ýmsar japanskar bardagaíþróttir kynntar. Á sviði stúdentakjallarans munu gestir geta hlýtt á lifandi tónlist sem og spreytt sig í æsispennandi spurninga- og leikjakeppni að hætti Japana. 

Á hátíðinni verður hægt að nálgast upplýsingar um japönskunámið, hina ýmsu skólastyrki sem boðið er upp á ásamt skiptinámi við japanska háskóla. Auk þessa verður hægt að nálgast upplýsingar um Íslensk-Japanska Félagið og Félag Japansmenntaðra á Íslandi.

Allar nánari upplýsingar er að finna á www.facebook.com/Japan.Festival.Iceland

 Hægt er að senda inn myndir og skoða með því að leita uppi #japanfestival2014

Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is