Háskóli Íslands

Fyrirlestur: Mikilvægi tungumála sem eru lítið kennd

Hvenær hefst þessi viðburður: 
19. maí 2017 - 12:00 til 13:00
Nánari staðsetning: 
Veröld, fyrirlestrasalur
Háskóli Íslands

Viola G. Miglio er gestadósent við Mála og menningardeild við Háskóla Íslands og flytur erindi um mikilvægi tungumála sem eru lítið kennd í fyrirlestrarsal Veraldar, föstudaginn 21. maí kl. 12-13.

Baskneska tilheyrir ekki indó-evrópskum tungumálum en 700.000 manns tala málið á svæðum beggja vegna landamæra Spánar og Frakklands. Tungumálið er tengt tveimur stórum indó-evrópskum málum sem hafa langa og mikilvæga bókmenntahefð að baki.

Hvernig getur lítið tungumál eins og baskneska lifað af ágang miklu útbreiddari tungumála eins og frönsku og spænsku? Af hverju ættu Baskar að hafa fyrir því að læra “gagnslaust” tungumál í alþjóðlegu samhengi þar sem enskan tröllríður öllu? Í þessum fyrirlestri mun Viola reyna að svara þessum spurningum en um leið spyrja annarra spurninga um mikilvægi fjölbreytileika tungumála, þýðingum, tungumálastefnum, "immersion" námi og framtíð "smærri tungumála" (með færri en milljón sem tala málið), bæði í löndum þar sem málið er talað og á svæðum sem þau eru kennd sem erlend mál, t.d. í Bandaríkjunum. Staða íslenskunnar mun án efa skjóta upp kollinum í umræðunni.

Viola er dósent í málvísindum í deild spænsku og portúgölsku við Kaliforníuháskóla í Santa Barbara. Hún stjórnar framhaldsnámi í spænskum málvísindum og tungumálamiðstöð deildarinnar og situr í Barandiaran-stöðu (e. Endowed Chair) í baskneskum fræðum. Rannsóknir hennar liggja á mótum bókmennta og málvísinda, á sviði orðræðugreiningar, rannsókna á rómönskum og germönskum málum, málbreytinga, baskneskra fræða og þýðinga. Árið 2014 var hún samþykkt sem gestadósent við Mála og menningardeild við Háskóla Íslands.

Fyrirlesturinn er á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og er öllum opinn.

Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is