Skip to main content

Doktorsvörn í líffræði - Ute Stenkewitz

Hvenær 
8. júní 2017 -
13:00 til 15:30
Hvar 

Askja

132

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fimmtudaginn 8. júní ver Ute Stenkewitz doktorsritgerð sína við Líf- og Umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heiti: Sníkjudýr og stofnbreytingar rjúpunnar á Íslandi (e. Parasites and population change of rock ptarmigan in Iceland).

Andmælendur eru dr. José Augusto Alves, sérfræðingur, Háskóli Íslands og Háskólinn í Aveiro, Portúgal og Steve Albon, fyrrum sérfræðingur við James Hutton stofnunina, Bretlandi.

Leiðbeinandi er dr. Ólafur Karl Nielsen, vistfræðingur, Náttúrufræðistofnun Íslands. Aðrir í doktorsnefnd eru dr. Karl Skírnisson, sníkjudýrafræðingur, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, dr. Gunnar Stefánsson, prófessor í stærðfræði, Háskóla Íslands og dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor í stofnlíffræði, Háskóla Íslands.

dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor í stofnlíffræði við Háskóla Íslands stýrir vörninni sem fer fram í Öskju, stofu 132 og hefst klukkan 13:00.

Ágrip af rannsókn:

Sníkjudýrafánu íslensku rjúpunnar Lagopus muta hafði nýlega verið lýst þegar rannsóknir mínar hófust árið 2010. Markmið mitt var að rannsaka hvaða áhrif sníkjudýr hafa á stofnbreytingar rjúpunnar og rannsóknatíminn var 7 ár (2006-2012).

Stofnsveifla rjúpunnar hefur breyst á síðustu árum og nú líða um 5-6 ár á milli hámarka. Einn af þeim þáttum sem vitað er að hafa áhrif á stofnsveiflur eru tengsl hýsils og sníkjudýrs. Við greininguna voru skoðuð lýsigildi fyrir sníkjudýrasamfélagið í heild sinni og einstakar meinvirkar sníkjudýrategundir. Þéttleiki rjúpna sýndi sterkt samband við smittíðni hnísilsins Eimeria muta. Dreifing þessarar hníslategundar innan rjúpnastofnsins breyttist í tengslum við breytingar á smittíðni, hnappdreifing þeirra var mest þegar smittíðnin var lægst og svo öfugt.

Ferlarnir sem lýsa breytingum á bæði smittíðni og dreifingu E. muta fylgdu ferlinum sem lýsti stofnbreytingum rjúpunnar en með eins og hálfs árs töf. Töfin endurspeglar hýsilsérhæfingu þessa sníkjudýrs, þéttleikháðum útskilnaði þolhjúpa hnísilsins, og langtíma virkni þolhjúpanna, en þeir geta lifað á milli ára í umhverfinu.

Meinvirkni E. muta lýsti sér m.a. í neikvæðu sambandi við holdafar fuglanna, og nær marktæku neikvæðu sambandi við frjósemi þeirra annars vegar og jákvæðu sambandi við afföll þeirra hins vegar. Enn fremur voru marktæk neikvæð tengsl á milli frjósemi og smittíðni naglúsarinnar Amyrsidea lagopi, jákvæð tengsl á milli umframaffalla ungfugla og smittíðni þráðormsins Capillaria caudinflata, og neikvæð tengsl á milli smittíðni húðmítilsins Metamicrolichus islandicus og affalla fullorðinna fugla.

Þó svo að þessi rannsókn byggi á fylgni þá bendir hún sterklega til þess að sníkjudýrið E. muta hafi alla burði til að skapa óstöðugleika í stofnstærðarstjórnun rjúpunnar á Íslandi.