Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Sigurdís Haraldsdóttir

Doktorsvörn í læknavísindum - Sigurdís Haraldsdóttir  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
8. febrúar 2017 9:00
Hvar 

Aðalbygging

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Sigurdís Haraldsdóttir ver doktorsritgerð sína í læknavísindum miðvikudaginn 8. febrúar næstkomandi. Ritgerðin ber heitið: Algengi Lynch-heilkennis og nýgengi og orsakir mispörunar í sjúklingum með ristil- og endaþarmskrabbamein á Íslandi. The prevalence of Lynch syndrome and the incidence and etiology of mismatch repair deficiency in colorectal cancer patients in Iceland.

Andmælendur eru dr. Noralane Lindor, prófessor í klínískri erfðafræði við Mayo Clinic, Bandaríkjunum, og dr. Sigurður Ingvarsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari var Jón Gunnlaugur Jónasson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, og leiðbeinandi var dr. Richard M. Goldberg, prófessor við West-Virginia University, Bandaríkjunum. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Heather Hampel, prófessor við Ohio State University,  dr. Wendy L. Frankel, prófessor við sama skóla, og dr. Reynir Arngrímsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.

Engilbert Sigurðsson, deildarforseti og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 9.00.

Ágrip af rannsókn
Lynch-heilkenni er arfgengt heilkenni sem eykur tíðni krabbameina. Einstaklingur með heilkennið fæðist með stökkbreytingu í mispörunarviðgerðargeni (MMR gen - MLH1, MSH2, MSH6 eða PMS2). Auk Lynch-heilkennis geta utangenabreytingar á MLH1 geninu með methýleringu valdið æxli með óvirkjun á mispörunarviðgerðarkerfi. Tíðni Lynch-heilkennis á Íslandi er óþekkt.

Markmið rannsóknar var að kanna tíðni Lynch-heilkennis á Íslandi og ástæður MMR-óvirkjunar í ristil- og endaþarmskrabbameinum hjá öllum sjúklingum greindum árin 2000-2009. Notast var við gagnagrunn Íslenskrar erfðagreiningar til að skoða allar breytingar í MMR-genum sem fundist hafa hjá íslensku þjóðinni og tengsl þeirra við aukna tíðni krabbameina. Mótefnalitanir á æxlisvef fyrir MMR-próteinum (MLH1, MSH2, MSH6, PMS2) voru notaðar til að skima fyrir MMR-óvirkjun og MMR-gena-raðgreining framkvæmd til að kanna kímlínu- og líkamsfrumustökkbreytingar.

Æxlisvefur frá 1182 sjúklingum var litaður og MMR-óvirkjun fannst í 132 tilfellum (11,2%); MLH1-methýlering fannst í 90 tilfellum (7,6%), Lynch-heilkenni í 27 tilfellum (2,3%) og líkamsfrumustökkbreytingar í MMR-genum í 16 tilfellum (1,4%). Þrjár landnemastökkbreytingar í MSH6 og PMS2 fundust hjá íslensku þjóðinni með samanlagða arfberatíðni 0.442%. Landnemastökkbreytingarnar þrjár juku áhættuhlutfall á krabbameini í legbol, ristli og endaþarmi, heila og eggjastokkum.

Algengi Lynch-heilkennis hjá íslensku þjóðinni er 0,442% eða 1 af 226 sem er hæsta algengi sem hefur verið lýst. Áætla má að yfir 1000 einstaklingar beri Lynch-heilkenni á Íslandi. Með því að bjóða arfberum skimun gæti verið unnt að koma í veg fyrir krabbamein og bjarga mannslífum.
 
Um doktorsefnið
Sigurdís Haraldsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1979. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut Menntaskólans við Hamrahlíð árið 1998 og kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2004. Hún hlaut meistaragráðu í heilbrigðisvísindum frá Háskóla Íslands árið 2008. Sigurdís stundaði sérnám í lyflæknisfræði við Boston University 2008-2011, sérnám í krabbameinslækningum við Ohio State University 2011-2015 og hefur gegnt stöðu lektors og krabbameinslæknis við Stanford University í Bandaríkjunum frá árinu 2015. Hún hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2013. Foreldrar Sigurdísar eru Haraldur Hermannsson smiður og Sigríður Jóhannsdóttir leiðbeinandi. Maki Sigurdísar er Roza Sarvarova, hjúkrunarfræðingur.