Háskóli Íslands

Algjört rusl eða argasta snilld? Um gildi popptónlistarinnar.

Hvenær hefst þessi viðburður: 
26. maí 2017 - 12:00 til 13:30
Nánari staðsetning: 
Veröld - hús Vigdísar
simon frith
Prófessor Simon Frith, einn helsti dægurtónlistarfræðingur heims, mun fara yfir feril sinn sem spannar nú tæplega hálfa öld. Hann mun snerta á sögu og þróun dægurtónlistarfræðanna, því brautryðjendastarfi sem hann hefur sinnt þar og helstu áskorunum sem þessi þverfaglega nálgun stendur frammi fyrir.  
 
Frith hefur ritað fjölda bóka og greina um dægurtónlist út frá félagsfræðilegum, sögulegum og heimspekilegum nálgunum og hafa viðfangsefnin verið jafn mörg og þau eru ólík. Víðfeðm yfirreið hans hefur m.a. snert á eðli „lélegrar“ tónlistar, popptónlistar sem iðn- og neysluvöru og því gildi sem falið er í popptónlistinni - sé það að finna. Hann hefur ritstýrt fjölda ritraða sem taka á dægurtónlistarfræðum og vinnur nú að ritun tónleikasögu Bretlands ásamt rannsóknarteymi.  
 
Eftir fyrirlesturinn verður gestum boðið til móttöku þar sem hægt verður að ræða við Frith í návígi.  
 
Fyrirlestraröðin „Samtal við samfélagið“, samstarfsverkefni Félagsfræðingafélags Íslands og námsbrautar í félagsfræði við Háskóla Íslands stendur að viðburðinum ásamt skrifstofu rektors.  
 
Arnar Eggert Thoroddsen (822-7170) veitir allar nánari upplýsingar.
 
Aðgangur er ókeypis. Allir þeir sem minnsta áhuga hafa á poppi, rokki eða tónlist almennt eru eindregið hvattir til að mæta og missa ekki af þessum einstæða viðburði.  
 
 
Nánar um Simon Frith:
 
Simon Frith er með B.A. próf í heimspeki frá Oxford og doktorsgráðu í félagsfræði frá Berkeley háskóla. Á áttunda áratugnum og fram á þann níunda sinnti hann tónlistarblaðamennsku meðfram akademískum störfum og skrifaði m.a. í Village Voice og Sunday Times. Frith kenndi í háskólum í Englandi sem og í Skotlandi og árið 2006 var hann ráðinn til Edinborgarháskóla sem ‘Tovey’ prófessor. Á meðal fjölmargra rita Frith má nefna The Sociology of Rock, Sound Effects: Youth, Leisure and the Politics of Rock 'n' Roll, Music for Pleasure: Essays on the Sociology of Pop, Performing Rites: On the Value of Popular Music og Popular Music: Critical Concepts in Media & Cultural Studies (ritstjóri. Ritröð í fjórum bindum). Frith var stofnmeðlimur Alþjóðasamtaka dægurtónlistarfræðinga (IASPM) og einn af stofnendum akademíska tímaritsins Popular Music. Hann hefur þá gegnt stöðu dómnefndarformanns í hinum virtu Mercury tónlistarverðlaunum frá stofnun þeirra árið 1992. Frith var sæmdur OBE orðu Bretlandsdrottningar í ársbyrjun 2017 fyrir störf sín á vettvangi æðri mennta og dægurtónlistar. 
 
Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is