Háskóli Íslands

Vefsíða vísar á fjölbreyttar kvenfyrirmyndir

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, BA frá Sagnfræði- og heimspekideild

Skólabækur á Íslandi og víðast hvar annars staðar mæta ekki viðmiðum um kynjajafnrétti og það er alvarlegt mál sem hefur áhrif á allt samfélagið. Í verkefninu Reconesse Database er leitast við að laga það vandamál sem mun skila sér í betri söguvitund meðal almennings,“ segir Ragnhildur Hólmgeirsdóttir sagnfræðingur sem vinnur ásamt hópi fólks af ýmsum fræðasviðum að því að búa til alþjóðlega heimasíðu sem hýsir fræðandi og eflandi efni í baráttunni fyrir kynjajafnrétti.

Ragnhildur hefur unnið að verkefninu með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna en við vinnuna nýtur hún leiðsagnar Ragnheiðar Kristjánsdóttur, lektors í sagnfræði, og Torfa Hjartarsonar, lektors í upplýsingatækni og kennslufræði. „Vefsíðan veitir aðgang að fjöl- breyttum kvenfyrirmyndum auk leiða fyrir stelpur og konur til að láta drauma sína og hugmyndir rætast. Vefsíðan mun í senn hýsa gagnagrunn um konur í sögunni sem kennslu- bækur í sögu hafa hunsað, fréttaveitu um afrek kvenna og áfanga í jafnréttisbaráttunni og loks gagnagrunn yfir tækifæri á borð við styrki, samtök og ráðstefnur,“ útskýrir Ragnhildur.

Hún bendir á að hlutfall kvenna í afþreyingu, fréttum og kennsluefni í sögu sé lágt og birtingarmyndir þeirra einsleitar og það hafi áhrif á sjálfsmynd ungra kvenna. „Eftir að okkar eigin skólagöngu var lokið áttuðum við okkur á því að þetta þurfti ekki að vera svona. Fortíðin er full af áhugaverðum konum, það var bara enginn sem sagði okkur frá þeim,“ segir Ragnhildur.

Vefsíðan sem mun nýtast bæði skólakerfinu og almenningi er enn í þróun en sagnfræðilegur hluti hennar hefur verið prófaður í fjórum bekkjum í íslenskum framhaldsskólum og hlaut mjög góðar viðtökur. „79% töldu efnið betra og áhugaverðara en núverandi kennsluefni þeirra í sögu,“ segir Ragnhildur og bætir við að stefnt sé að því að opna í það minnsta hluta síðunnar í upphafi árs 2015.

Ragnhildur segir vonir standa til að vefsíðan muni bæta sjálfsmynd kvenna og auka virðingu karla fyrir konum. „Samfélagslegur ávinningur af því yrði ómetanlegur enda er það ein af stærstu áskorunum samtímans að uppræta kynjamisrétti. Reconesse Database stefnir á að verða hluti af þeirri lausn,“ segir hún.

Leiðbeinendur: Ragnheiður Kristjánsdóttir, lektor við Sagnfræði- og heimspekideild, og Torfi Hjartarson, lektor við Kennaradeild.

Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is