Skip to main content

Tölvutæknin nýtt til tannsmíða

Alexander Mateev, BS frá Tannlæknadeild

Tölvutæknin kemur við sögu í sífellt fleiri þáttum daglegra starfa og meðal þeirra sem hafa á síðustu árum nýtt hana í vaxandi mæli eru tannlæknar og tannsmiðir. Alexander Mateev beindi sjónum sínum að svokallaðri CAD-/CAM-tölvutækni í lokaverkefni sínu til BS-prófs í tannsmíði en um er að ræða vélar og tæki sem nýtast tannlæknum og tannsmiðum við hönnun og vélræna smíði tanngerva. „Meginmarkmið rannsóknarinnar var þríþætt: í fyrsta lagi að draga saman upplýsingar um CAD-/CAM-tölvutækni, í öðru lagi að komast að því hversu víðtæk og útbreidd notkunin er á Íslandi og í þriðja lagi að útbúa myndrænt efni um notkun á CAD-/CAM-tölvutækni,“ segir Alexander.

Alexander Mateev

Alexander kannaði útbreiðslu CAD-/CAM tölvutækninnar meðal tannlækna og tannsmiða á Íslandi.

Alexander Mateev

CAD-/CAM-tækni samanstendur af þremur hlutum: myndavél sem skannar tannskurðinn, CAD-hugbúnaðarforriti til að hanna tanngervi og CAM-tækjabúnaði sem fræsir hönnunina út. Alexander segir notkun tækninnar hafa aukist á síðustu árum, bæði á Íslandi og erlendis. „CAD-/ CAM-tæknin er sífellt að þróast og rannsóknir sýna að tanngervi framleidd með slíkri tækni eru jafngóð ef ekki betri en tanngervi sem framleidd eru með hefðbundnum tannsmíðaaðferðum,“ útskýrir Alexander.

Alexander kannaði útbreiðslu CAD-/CAMtölvutækninnar meðal tannlækna og tannsmiða á Íslandi. „Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að tæknin er lítið notuð hér á landi enn sem komið er. Ástæðurnar fyrir því eru fyrst og fremst dýr tækjabúnaður og lítill markaður. Álykta má að þátttakendur í rannsókninni séu meðvitaðir um þá þróun sem á sér stað með CAD-/CAM-tölvutækninni. Hún verður notuð í auknum mæli hér á landi á næstu árum en mun ekki ná verulegri útbreiðslu fyrr en hún verður aðgengilegri og ódýrari,“ segir Alexander, sem einnig bjó til myndband um framleiðslu tanngervis með tækninni.

Alexander vonast til að verkefnið verði til þess að tannlæknar og tannsmiðir gefi þessari tækni meiri gaum. „Tannsmiðir og tannlæknar þurfa að laga sig að þessari tækni í framtíðinni og vera vel að sér í tölvuvinnslu og jákvæðir gagnvart nýrri tækni,“ segir Alexander, sem stefnir sjálfur á áframhaldandi nám í tannlækningum.

Leiðbeinandi: Peter Holbrook, prófessor við Tannlæknadeild.