Háskóli Íslands

Þróar holla sjávarrétti með viðbættum omega-3 fitu

Valgerður Lilja Jónsdóttir

Valgerður Lilja Jónsdóttir, MS-nemi við Matvæla- og næringarfræðideild

„Markmið verkefnisins er að þróa tilbúna sjávarrétti sem auðgaðir eru með lífefnum eins og fiskolíu til að auka magn omega-3 fitusýra í réttunum og um leið hollustugildi þeirra. Tilgangurinn er jafnframt að auka markaðshlutdeild og virði hráefna og afurða úr sjávarfangi,“ segir Valgerður Lilja Jónsdóttir, meistaranemi í matvælafræði, um lokaverkefni sitt.

Verkefnið vinnur hún í samstarfi við Matís. „Það kom í raun upp í hendurnar á mér. Ég var að vinna hjá Matís sumarið 2011 og í framhaldinu höfðu leiðbeinendur mínir hjá Matís samband við mig og buðu mér að vinna þetta verkefni í meistaranámi mínu. Ég hef mikinn áhuga á vöruþróun og hollustu matvæla og mér fannst þetta strax mjög spennandi verkefni og gott tækifæri sem ekki var hægt að sleppa,“ segir Valgerður.

Til þess að kanna áhuga fólks á réttum sem þessum hefur Matís þegar ráðist í rýnihópavinnu og neytendakönnun. „Könnunin var gerð meðal 90 manns, 50 ára og eldri, sem neyttu réttanna sex sinnum í viku á fjögurra vikna tímabili. „Þátttakendur voru m.a. spurðir að því hvernig þeim líkaði varan, hversu mikið af vörunni þeir borðuðu og hvernig þeim líkaði að elda réttina,“ segir Valgerður og bætir við að þetta sé í fyrsta sinn sem slík rannsókn sé gerð hér á landi.

Vöruþróunin í meistaraverkefni Valgerðar byggist á þessari vinnu Matís. Það er einnig hluti af stærra verkefni sem heitir „Auðgun norrænna sjávarrétta“ og er samstarfsverkefni framleiðenda sjávarrétta, rannsóknarfyrirtækja á Íslandi og í Finnlandi og fyrirtækja sem framleiða innihaldsefni með skilgreindri lífvirkni, eins og omega-3 fitusýrur, á Íslandi og í Noregi.

Valgerður hyggst ljúka rannsóknarverkefninu á vordögum 2014 en fyrstu niðurstöður lofa góðu og gagnast við markaðssetningu á tilbúnum sjávarréttum með viðbættum omega-3 fitusýrum. „Þannig er rannsóknin liður í að auka val neytenda á tilbúnum matvælum sem hafa næringarlegan og heilsufarslegan ávinning,“ segir Valgerður að lokum. 

Leiðbeinendur: Kolbrún Sveinsdóttir, verkefnisstjóri hjá Matís ohf., Emilía Martinsdóttir, fagstjóri hjá Matís ohf., og Guðjón Þorkelsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild.

Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is