Háskóli Íslands

Tár, bros og trúarbrögð

Gunnar Stígur Reynisson

Gunnar Stígur Reynisson, meistaranemi við Guðfræði- og trúarbragðadeild

„Flestir gera sér eflaust grein fyrir því sameinandi afli sem fótboltinn er í menningunni þótt fáir hafi kannski myndað sér afgerandi skoðun á því hvort knattspyrna geti talist til trúarbragða,“ segir Gunnar Stígur Reynisson, meistaranemi við  Guðfræði- og trúarbragðafræðideild.

„Það er langt síðan ég tók eftir því hversu stórt hlutverk fótboltinn leikur í lífi fjölda fólks víðast hvar í heiminum, enda mikill fótboltaáhugamaður sjálfur. Það var því ekki langt liðið á námið þegar ég ákvað að skrifa ritgerð um „trúarbrögðin“ knattspyrnu og fór að sanka að mér heimildum. Í verkefninu skoðaði ég hvort hægt væri að flokka knattspyrnu sem trúarbrögð í ljósi allrar þeirrar trúarbragðaflóru sem þekkist í dag. Er fótboltinn hugsanlega orðinn að einhverju meira en bara áhugamáli, er hann jafnvel orðinn að ákveðinni lífsskoðun eða trúarbrögðum?“

Gunnar Stígur studdist að mestu við erlendar heimildir en skoðaði þó einnig fáeinar íslenskar greinar þessu tengdar. Þótt margir tali um knattspyrnu sem trúarbrögð hefur enn sem komið er lítið verið ritað um þetta eðli hennar. Í ritgerðinni fjallar Gunnar Stígur meðal annars um knattspyrnubæinn Akranes og fannst það afar skemmtilegt úrlausnar við vinnuna að ritgerðinni. „Það var sérstaklega athyglisvert að skoða knattspyrnuna sem hugsanleg trúarbrögð í litlu íslensku fiskiþorpi. Niðurstaða ritgerðarinnar felst í því að leyfa lesandanum að mynda sér skoðun á því hvort knattspyrna geti flokkast sem trúarbrögð eða ekki. Ég leiði lesandann áfram um sameiginlega fleti þessara gríðarlega viðamiklu heima knattspyrnunnar og trúarbragðanna en leyfi svo fólki að mynda sér sína skoðun.“

Aðspurðursegist Gunnar Stígur hafa myndað sér eigin skoðun á viðfangsefninu: „Ég upplýsi ekkert um hana hér! Fólk verður bara að lesa ritgerðina í heild,“ segir Gunnar Stígur með glettni í svipnum.

Leiðbeinandi: Pétur Pétursson, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild.

Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is