Skip to main content

Stórkostlegar fornleifar gætu leynst á hafsbotni

Kevin Martin, doktorsnemi við Sagnfræði- og heimspekideild

„Tilgangur verkefnisins er að auka vægi sjávarfornleifafræði á Íslandi en hafsbotninn kringum landið hefur lítt verið rannsakaður með það í huga að finna og rannsaka þessa menningarsögulegu auðlind ykkar,“ segir Írinn Kevin Martin, sem er doktorsnemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Hann vinnur nú að því að þróa og prófa sérhæfð líkön þar sem spáð er fyrir um staðsetningu fornminja á hafsbotni á Faxaflóasvæðinu. Hér er aðallega átt við skipsflök.

„Ég hef alltaf haft áhuga á að sameina ástríður mínar: fornleifafræðina og köfunina. Sjávarfornleifafræði er því hin fullkomna blanda,“ segir Kevin, sem er atvinnukafari.

„Ég held að Íslendingar séu stoltir af fortíð sinni sem tengist sjóferðum og sjómennsku á sama hátt og við Írar. Þetta verkefni mun vonandi bæta við upplýsingaflóruna um þennan hluta menningararfsins ykkar sem hefur hingað til verið nokkuð lokuð bók. Ég er viss um að rannsóknin mun tengja Íslendinga á nýjan hátt við fortíðina og auka skilning ykkar á lífi forfeðranna.“

Kevin Martin

„Ég hef alltaf haft áhuga á að sameina ástríður mínar: fornleifafræðina og köfunina. Sjávarfornleifafræði er því hin fullkomna blanda,“ segir Kevin, sem er atvinnukafari.

Kevin Martin

Kevin segir að kveikjan að þessu verkefni hafi orðið til á Írlandi þar sem hann vann við ríkisstofnun þar í landi (Minjastofnun Írlands) sem beitir sér fyrir verndun og rannsóknum á fornleifum á hafsbotni við Írland. Mikilvægt sé að gera slíkt hið sama á Íslandi þar sem Íslendingar hafi treyst á auðlindir hafsins og sjómennsku allt frá upphafi byggðar.

„Aðstæður eru allt aðrar á hafinu við Íslandsstrendur en við Írland og því er þetta vissulega meiri áskorun. En það er líka prófsteinn á verkefnið að kanna hvort hægt sé að útfæra þessi líkön, jafnvel við ögrandi aðstæður,“ segir Kevin.

Kevin og samstarfsfólk hans hefur enn ekki fundið nein „ævintýraleg skipsflök“, eins og hann orðar það en núna vinnur hann að því að fjármagna og finna styrki jafnframt því að afla gagna sem nota á síðar til að kortleggja og afmarka svæði sem verða rannsökuð.

„Möguleikarnir á að uppgötva eitthvað stórkostlegt í sjónum við Ísland eru miklir þótt vissulega sé það háð því að rannsóknarstyrkir fáist,“ segir Kevin að lokum og brosir, bjartsýnn á framhald verkefnisins.

Leiðbeinandi: Gavin Murray Lucas, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild.