Háskóli Íslands

Um Stjórnmálafræðideild

Um Stjórnmálafræðideild
Stjórnmálafræði hefur verið kennd við Háskóla Íslands frá árinu 1970, fyrst við námsbraut í þjóðfélagsfræði en síðar (frá 1976) við félagsvísindadeild. Frá 1. júlí 2008 er Stjórnmálafræðideild sjálfstæð deild innan Félagsvísindasviðs.

Tilkoma nýrra námsleiða á meistarastigi hefur leitt til töluverðrar fjölgunar nemenda og eru nemendur nú um 650 talsins. Árið 1997 hófst kennsla í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu (MPA) og átta árum síðar, árið 2005, var í fyrsta sinn boðið upp á kennslu í meistaranámi í alþjóðasamskiptum. Síðan hefur námsleiðum á meistarastigi við deildina fjölgað smátt og smátt. Frá árinu 2009 bauð deildina upp á meistara- og diplómanám í kynjafræðum og 2010 hófst kennsla á meistarastigi í Evrópufræði. Meistaranám í blaða- og fréttamennsku bættist við árið 2014 og ári síðar hófu göngu sína tvær námsleiðir, annars vegar í fjölmiðla-og boðskiptafræðum og hins vegar í vestnorrænum fræðum í samstarfi við fjóra aðra háskóla. 

Kennarar deildarinnar eru nær allir með doktorspróf frá virtustu háskólum heims. Rannsóknir þeirra spanna vítt svið og niðurstöður þeirra eru iðulega birtar á innlendum og erlendum vettvangi.

Deildarforseti: Baldur Þórhallsson, prófessor (baldurt@hi.is)
Varadeildarforseti: Þorgerður Einarsdóttir, prófessor (einarsd@hi.is)

Starfsmaður skrifstofu Stjórnmálafræðideildar:
Elva Ellertsdóttir, deildarstjóri, (elva@hi.is), sími: 525-4573, Gimli 111.
 

Skrifstofa Stjórnmálafræðideildar er opin alla virka daga 10 - 12 og 13 - 15:30

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála
Árið 2003 var sett á fót Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála sem heyrir undir Stjórnmálafræðideild. Auk deildarinnar koma að stofnuninni Reykjavíkurborg og Landspítali-háskólasjúkrahús.

Stofnunin hefur staðið fyrir fjölda fyrirlestra innlendra og erlendra fræðimanna, bæði ein sér og í samstarfi við hinar ýmsu stofnanir í þjóðfélaginu. Á haustmánuðum 2005 hóf stofnunin útgáfu veftímarits; Stjórnmál og stjórnsýsla, (stjórnmalogstjornsysla.is). Vefritið er útgáfuvettvangur fyrir fræðilegar og faglegar greinar um stjórnmál og stjórnsýslu. Einn hluti veftímaritsins er fyrir ritrýndar greinar, sem ætlaður er fyrir fræðimenn innan og utan Háskóla Íslands. Aðgangur að tímaritinu er opinn og geta þeir sem áhuga hafa sótt sér fróðleik um stjórnmál og stjórnsýslu á vefnum.

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur verið starfrækt frá árinu 1986 og heyrir undir þrjár af deildum Félagsvísindasviðs; Félags- og mannvísindadeild, Félagsráðgjafardeild og Stjórnmálafræðideild. Undir hatti Félagsvísindastofnunar eru starfrækt fimmtán rannsóknasetur og rannsóknastofur á fræðasviðum deildanna þriggja sem að stofnuninni standa, auk þess sem stofnunin er í nánu samstarfi við fræðimenn deildanna og aðrar rannsóknastofnanir innan Háskóla Íslands og utan.

Hlutverk stofnunarinnar er m.a. að efla efla rannsóknir í félagsvísindum á Íslandi með hagnýtum og fræðilegum rannsóknum. Sem dæmi um rannsóknarsvið stofnunarinnar eru kjarakannanir, menntarannsóknir, vinnustaðaúttektir, rannsóknir á kynbundnum launamun og viðhorfakannanir.

Alþjóðamálastofnun, Rannsóknarsetur um smáríki og
Rannsóknarsetur um norðurslóðir

Þrjár aðrar stofnanir eru tengdar Stjórnmálafræðideild, Alþjóðamálastofnun,  Rannsóknarsetur um smáríki og Rannsóknarsetur um norðurslóðir. Alþjóðamálastofnun var endurskipulögð árið 2002 og hefur í kjölfarið staðið fyrir fjölbreyttum rannsóknum, útgáfustarfsemi og fyrirlestrum. Að Alþjóðamálastofnun standa auk Háskóla Íslands, Utanríkisráðuneytið, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins.

Rannsóknarsetur um smáríki leggur áherslu á rannsóknir og kennslu í smáríkjafræðum. Setrið stendur fyrir rannsóknum, ráðstefnum, málstofum og kennslu um smáríki. Gefin hafa verið út nokkur rit sem tengjast smáríkjafræðum og ritröð um stöðu smáríkja hefur verið komið á fót. Rannsóknarsetrið hefur staðið fyrir sumarskóla um smáríki og Evrópusamrunann frá árinu 2003.

Rannsóknasetur um norðurslóðir er vettvangur fyrir þverfaglegt samstarf á sviði norðurslóðarannsókna með áherslu á hlutverk og stefnu ríkja og stofnana, og stjórnarhætti á norðurslóðum. Hlutverk Rannsóknaseturs um norðurslóðir er að vinna að rannsóknaverkefnum í samstarfi við innlenda og erlenda aðila, að auka samstarf milli fræðimanna, atvinnulífs og opinberra aðila og vera leiðandi í rannsóknum á þessu sviði. Auk þess stendur setrið fyrir ráðstefnum, umræðufundum, fyrirlestrum og námskeiðum um efni sem varða starfssvið þess og útgáfu rita um málefni norðurslóða. Setrið vinnur einnig þjónustuverkefni fyrir atvinnulíf og opinbera aðila og styður við kennslu í norðurslóðamálefnum.


Í gegnum þessar stofnanir eru mikil og góð tengsl við innlenda og erlenda fræðimenn sem nýtast Stjórnmálafræðideild jafnt í kennslu sem rannsóknum.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is