Háskóli Íslands

Samræður í stað lyfja

Hafrún Kristjánsdóttir

Engilbert Sigurðsson, dósent við Læknadeild, og Hafrún Kristjánsdóttir, doktorsnemi við Læknadeild

Þunglyndi er alvarlegt vandamál sem mikið er á sig leggjandi til að ráða á bót. Nú er unnið að rannsókn innan Háskóla Íslands og Landspítalans sem miðar að því að beita hugrænni atferlismeðferð til að létta undir með því fólki sem leitar til heilsugæslustöðva vegna
depurðar og kvíðaraskana. Hugræn atferlismeðferð snýst m.a. um að styðja þetta fólk við að koma auga á ógagnlegar hugsanir, skoða  hvaða áhrif þær hafa á líðan og endurmeta svo hugsanirnar í kjölfarið ef ástæða er til.

„Depurð og kvíðaraskanir eru afar algeng vandamál hjá fólki á öllum aldri sem leitar til heilsugæslunnar og þau valda oft mikilli  lífsgæðaskerðingu og fötlun til skemmri eða lengri tíma. Því er mjög þýðingarmikið að leita gagnreyndra meðferðarúrræða í heilsugæslunni sem eru jafnframt ódýr og geta nýst mörgum.“ Þetta segir Engilbert Sigurðsson, dósent í geðlæknisfræði við Háskóla Íslands og geðlæknir á Landspítala, en hann er einn þeirra sem stýrir rannsókninni.

Hafrún Kristjánsdóttir, sálfræðingur og doktorsnemi við Læknadeild, tekur í svipaðan streng en hún vinnur að verkefninu með Engilbert. Hún segir að mikilvægt sé að finna önnur úrræði en lyfjameðferð fyrir þá sem leita sér hjálpar á heilsugæslustöðvum.

Hafrún segir að  með rannsókninni sé metið hversu vel meðferðin gagnist fólki með vægan eða miðlungsalvarlegan tilfinningavanda en einnig sé skoðað hvort meðferðin virki jafnvel eða betur en hefðbundin meðferð í heilsugæslu.

Engilbert tekur undir þetta: „Í rannsókninni er lagt mat á hvort hægt sé að ná sama eða meiri árangri með ósérhæfðri hugrænni atferlismeðferð til að ráða bót á þunglyndi og kvíðaröskunum í 15 til 25 manna hópi vikulega í sex vikur en þegar beitt er lyfjameðferð og eða einstaklingssamtölum við heilsugæslulækni.“

„Árið 2003 fóru sálfræðingar á geðsviði Landspítalans að veita ósérhæfða hugræna atferlismeðferð í hópum og töldu hana eiga heima í heilsugæslunni því þangað leitar fólk fyrst með vanda sinn. Áður en ný meðferðarúrræði eru fest í sessi er nauðsynlegt að meta virkni þeirra,“ segir Hafrún.

Hún segist alltaf hafa haft áhuga á að bæta aðgang almennings að gagnreyndri sálfræðimeðferð „og þegar mér var boðið að rannsaka
þessa tilteknu meðferð greip ég tækifærið.“ Hún segir að fyrstu niðurstöður úr rannsókninni lofi góðu og bendi til þess að meðferðin virki vel og gagnist mörgum.

Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is