Háskóli Íslands

Algengar spurningar

Er hægt að byrja nám í sálfræðideild á vormisseri?
Er boðið upp á fjarnám við deildina?
Er einhver sía á fyrsta ári?
Hvað gerist ef ég fell tvisvar í námskeiði?
Hvað hef ég langan tíma til að ljúka námi?
Er mætingaskylda í fyrirlestra?
Ráðvendni í námi
Spurningar um BS-ritgerð

Er hægt að byrja nám í Sálfræðideild á vormisseri?
Í BS námi í sálfræði er ekki hægt að hefja nám á vormisseri. Aðeins þeir sem hafa lokið SÁL103G Almennri sálfræði, SÁL102G Tölfræði I og SÁL104G Skýringum á hegðun með veginni meðaleinkunn 6,0 eða hærri mega halda áfram á vormisseri. Einungis er hægt að hefja cand. psych. nám á haustmisseri. MS-nám í sálfræði er hægt að sækja um tvisvar á ári, 15. apríl og 15. október.

Er boðið upp á fjarnám við deildina?
Nei það er ekki hægt að stunda fjarnám við Sálfræðideild.

Er einhver sía á fyrsta ári?
Aðeins þeir sem hafa lokið SÁL103G Almennri sálfræði, SÁL102G Tölfræði I og SÁL104G Skýringum á hegðun með veginni meðaleinkunn 6,0 eða hærri mega halda áfram á vormisseri. 

Áður en stúdent hefur nám í námskeiðum annars kennsluárs í sálfræði (þ.m.t. valnámskeiðum 2. og 3. árs) skal hann hafa lokið áðurnefndum námskeiðum og skal vegin meðaleinkunn þessara námskeiða ekki vera lægri en 6,0.
Nemandi þarf einnig að hafa lokið a.m.k. 40 einingum af skyldunámskeiðum í sálfræði áður en hann hefur nám á 2. ári í sálfræði

Hvað gerist ef ég fell tvisvar í námskeiði?
Þá þarf nemandi að byrja nýjan feril og eru aðeins metin þau námskeið sem hann hefur lokið með einkunn 6,0 eða hærri. Þetta á þó ekki við um námskeiðin Almenn sálfræði, Tölfræði I og Skýringar á hegðun enda sé vegin meðaleinkunn nemandans í þessum námskeiðum 6,0 eða hærri.

Hvað hef ég langan tíma til að ljúka námi?
Hámarkstími í BS-námi í Sálfræðideild er níu misseri. Séu aðstæður nemanda sérstakar getur hann sótt um leyfi til að ljúka námi á lengri tíma. Einnig er hægt að sækja um leyfi frá námi til deildar.

Er mætingaskylda í fyrirlestra?
Námskeið í Sálfræðideild eru miðuð við að stúdentar sæki kennslustundir, nema annað sé sérstaklega skipulagt. Geti stúdent ekki mætt í einstaka tíma ber hann sjálfur ábyrgð á að afla upplýsinga sem hann kann að hafa farið á mis við. Kennarar kosta kapps um að námskeiðstilhögun sé skýr og kröfur ljósar, en þeim ber ekki skylda til að veita sérstakar tilhliðranir vegna stúdenta sem af einhverjum völdum sækja ekki kennslustundir.

Ráðvendni í námi
Sálfræðideild tekur óráðvendni í námi mjög alvarlega. Þar er meðal annars - en ekki eingöngu - átt við ritstuld, falsanir af öllu tagi, notkun og kynningu á verkefnum og vinnu annarra eins og hún væri manns eigin og allar tilraunir til að hafa rangt við á prófum. Deildin gengur ákveðið eftir því að í slíkum málum sé beitt ströngum viðurlögum, sbr. 19. gr. laga um opinbera háskóla og 51. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands.

Spurningar um BS-ritgerð

Skrifa allir BS-ritgerð?
Nei, það er ekki skylda. Í stað BS-verkefnis má nemandi taka valnámskeið og/eða ljúka 5 eða 10 einingum í Aðstoð í rannsóknum.

Hvaða leiðbeinendur eru í boði?
Lista með leiðbeinendum er hægt að finna á skrifstofu Sálfræðideildar eða hér á heimasíðunni.

Get ég valið um 15 eininga eða 10 eininga lokaverkefni?
Nei það eru aðeins 10 eininga lokaverkefni í boði. En kennari getur óskað eftir að fá nemendur í 15 eininga verkefni, en það er ekki hægt að sækja um það sérstaklega.

Hvert get ég leitað að frekari upplýsingum?
Á skrifstofu Sálfræðideildar.

Hvernig sæki ég um að skrifa lokaverkefni?
Þú sækir um rafrænt. Hér er umsóknareyðublað.

Hefur val á BS-verkefni áhrif á framhaldsnám?
Það sem þú skrifar um í ritgerðinni þarf ekki að tengjast því sem þú ætlar þér að læra í framhaldsnámi en getur auðvitað gert það. Venjuleg BS-ritgerð telst ekki sérhæfing í starfsumsóknum en mjög sterk BS-ritgerð getur auðvitað verið góð vísbending um hæfni á tilteknu sviði.

Hvernig veit ég að ég er komin með leiðbeinanda?
Þú færð tölvupóst frá skrifstofu sálfræðideildar sem vísar þér á leiðbeinanda.

Ef ég fæ póst um leiðbeinanda og verkefni sem ég hef ekki áhuga á, verð ég að taka því?
Það er auðvitað engin skylda, en hugsaðu þig vel um hvort það sé ekki gott tækifæri. BS-verkefni skilgreinir ekki líf þitt og er 10 eininga verk til að vinna vel og ljúka farsællega á nokkrum mánuðum, ekki margra ára vangaveltuefni. Ef þú hefur skýra hugmynd um  hvað þú vilt gera, hafðu þá samband við líklegasta kennarann á viðtalstíma hans. Ef þú hefur aðeins óljósar hugmyndir – er gott ráð að nýta tækifæri sem berast.

Ef ég þekki masters- eða doktorsnema sem vilja fá mig með í verkefni þarf ég þá að sækja um?
Öll verkefni verða að vera undir umsjón kennara sem Sálfræðideild hefur staðfest sem aðalleiðbeinanda. Ef þú hefur hugmynd, eða er boðið rannsóknasamstarf utan deildar, má reyna að koma á samstarfi um efnið. Það er að öllu jöfnu ekki hægt að skrifa verkefni um eitthvað sem er langt utan sérfræðisviðs kennara í Sálfræðideild.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is