Háskóli Íslands

RemindMe

Mynd frá afhendingu Gullseggsins árið 2012

Viðskiptahugmynd fimm verkfræðinema við Háskóla Íslands, sprotafyrirtækið RemindMe, bar sigur úr býtum í frumkvöðlakeppni Innovit um Gulleggið 2012.

Tíu hugmyndir kepptu til úrslita um verðlaunin á laugardag og voru fyrrverandi og núverandi nemendur Háskóla Íslands í sex af teymunum tíu sem öttu kappi hvert við annað. Sigurvegarinn reyndist á endanum viðskiptahugmyndin RemindMe en á bak við hana standa Ingunn Guðbrandsdóttir, Hildigunnur Björgúlfsdóttir, Ólafur Helgi Guðmundsson, Sveinn Bergsteinn Magnússon og Vaka Valsdóttir, verkfræðinemendur við Háskóla Íslands.

Um er að ræða sjálfvirkan og læsanlegan lyfjaskammtara sem stuðlar að markvissari lyfjameðferð. Tækinu er ætlað að bæta meðferðarheldni lyfjagjafa en henni er oft ábatavant, sérstaklega hjá öldruðum og þeim sem hafa skert minni. Fram kemur í tilkynningu Innovit að teymið vinni nú að frumgerð tækisins og markaðssetningu á alþjóðavettvangi. Sigurvegararnir hlutu verðlaunagripinn Gulleggið, eina milljón króna í peningum og ráðgjöf frá Innovit til áframhaldandi þróunar verkefnisins.

Í öðru sæti varð sprotafyrirtækið ViralTrade sem er hugarfóstur Guðlaugs Lárusar Finnbogasonar, meistaranema í tölvunarfræði við Háskóla Íslands. ViralTrade er kauphöll fyrir viðskipti með stafræna hluti í tölvuleikjum. Verslun með fylgihluti tölvuleikjapersóna hefur verið vaxandi á Netinu síðustu misseri og er ViralTrade ætlað að vera milliliður í þeim viðskiptum.

Þess má geta að keppnin um Gulleggið 2012 var sú fjölmennasta frá upphafi en alls stóðu 466 þátttakendur á bak við þær 224 hugmyndir sem bárust í keppnina.

Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is