Háskóli Íslands

Rannsaka gjósku úr Eyjafjallajökli

Sigurður Reynir Gíslason

Sigurður Reynir Gíslason, vísindamaður á Raunvísindastofnun

Rannsókn vísindamanna á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og erlendra samstarfsaðila á gjóskunni úr gosinu í Eyjafjallajökli í fyrra hefur vakið mikla athygli erlendis. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að lokun flugstjórnarsvæða vegna gossins hafi verið réttlætanleg í ljósi þess tjóns sem gjóskan hefði getað valdið.

Grein um niðurstöður rannsóknanna birtist á dögunum í tímariti Bandarísku vísindaakademíunnar (PNAS). Greinin ber heitið „Characterization of Eyjafjallajökull volcanic ash particles and a protocol for rapid risk assessment“.

Sigurður Reynir Gíslason, vísindamaður á Raunvísindastofnun, er annar stjórnenda rannsóknarinnar. Við upphaf gossins í Eyjafjallajökli um miðjan apríl í fyrra fór hann ásamt Helga Alfreðssyni, doktorsnema við HÍ, að safna sýnum á svæðinu, bæði fyrir rannsóknir sínar og annarra jarðvísindamanna. „Ég sá að þarna var einstakt tækifæri til þess að ná þurrum gjóskusýnum. Gjóska er oftast húðuð með örþunnu saltlagi sem leysist upp um leið og gjóskan kemst í snertingu við vatn. Við ákváðum að safna sýnaröð í gegnum mökkinn, byrja fyrir sunnan hann, safna í honum miðjum og svo fyrir norðan hann. Heppnin var með okkur, við náðum einstökum sýnum,“ segir Sigurður.

Nokkrum dögum síðar hafði Susan Stipp, vinur Sigurðar og prófessor við efnafræðideild Kaupmannahafnaháskóla, samband og bað um sýni af gjóskunni.  „Við ákváðum að vinna saman með rannsóknahópum okkar, hennar hópur gat opnað nýja vídd sem við höfðum ekki áður.  Þau geta mælt efnasamsetningu og eðliseiginleika gjóskuagnanna niður á smæsta kvarða, einn milljónasta úr millimetra,“ segir Sigurður.

Gjóska hefði getað stoppað hreyfla
Sigurður segir að við rannsóknirnar hafi komið í ljós að gjóskan sem olli sem mestri truflun á flugumferð var óvenju fínkornótt og gat því borist víða.  „Meira en 60% agnanna voru minni en 60 míkrómetrar í þvermál en slík korn geta svifið um andrúmsloftið dögum saman án þess að falla til jarðar,“ segir Sigurður.

Rannsakendur komust einnig að því að gjóskukornin voru hrjúf og með skarpar brúnir. Það hefði getað valdið því að rúður í flugstjórnaklefa yrðu ógagnsæjar ef flugvélum væri flogið inn í gjóskumökk. „Efnasamsetning og kristalgerð gjóskunnar var einnig þannig að bærist hún í þotuhreyfla myndi hún bráðna og síðan storkna í kaldari hluta vélanna þannig að hún hefði getað stoppað hreyflana. Niðurstöðurnar benda því til þess að lokun flugstjórnarsvæða hafi verið réttlætanleg í ljósi þess tjóns sem gjóskan hefði getað valdið,“ segir Sigurður enn fremur.

Vísindamenn leita eftir samstarfi
Frekari rannsóknir á gjóskunni eru í farvatninu, þar á meðal rannsóknir á þeim efnum sem losna úr saltlaginu á yfirborði gjóskunnar fyrstu stundirnar eftir að gjóskan kemst í snertingu við vatn. Þá eru sérfræðingar Jarðvísindastofnunar og Vatnamælinga Veðurstofunnar að taka saman vísindagreinar um efnin sem bárust til sjávar í jökulhlaupunum sem tengdust gosinu 14. apríl 2010. „Einnig erum við að skrifa grein um mengunina sem barst í yfirborðsvatn í nágrenni Eyjafjallajökuls fyrst eftir að rigndi á gjóskuna,“ segir Sigurður.

Niðurstöður gjóskurannsóknanna sem birtust í tímariti Bandarísku vísindaakademíunnar hafa vakið mikla athygli og þremur sólarhringum eftir birtingu þeirra mátti til að mynda finna þúsundir krækja á Google þar sem fjallað var um þær. Sigurður er ánægður með viðtökurnar. „Með þessari grein náðum við út fyrir venjulegan lesendahóp jarðefnafræðigreina.  Þetta vekur athygli á rannsóknarhópunum tveimur og báðum háskólunum og vísindamenn eru þegar farnir að hafa samband og leita eftir samstarfi,“ segir Sigurður að lokum.

Grein rannsóknarhópsins í tímariti Bandarísku vísindaakademíunnar má lesa hér (pdf.)

Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is