Skip to main content

Rækjuskel breytt í breiðvirk sýklalyf

Priyanka Sahariah doktorsnemi og Már Másson

Priyanka Sahariah doktorsnemi og Már Másson, prófessor við Lyfjafræðideild

Lyfjafræðideildin hefur notið þess að fá til sín gríðarlega öfluga nemendur frá Indlandi á síðustu misserum. Priyanka Sahariah er í hópi þessara öflugu doktorsnema en hún er fædd árið 1978 á Indlandi og er með MS-próf í lífrænni efnafræði. „Ég hef mikinn áhuga á lyfjaefnafræði og vildi gjarnan vinna við rannsóknir á því sviði. Með það í huga sótti ég um doktorsnám við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Ég hafði líka áhuga á rannsóknum á notkun svokallaðra kítósanafleiða í örtæknilyfjum,“ segir Priyanka sem hefur komið sér vel fyrir á Íslandi og stundar nám sitt í Haga í Vesturbænum.

„Kítósan er sérstök fjölsykra sem er einangruð úr rækjuskel. Afleiður þessara fjölsykra er hægt að skilgreina sem örtækniefni þar sem efnin eru stærri en hefðbundin lyfjaefni, en samt örsmá. Því er mögulegt að gefa slíkum efnum fjölbreyttari eiginleika en hefðbundnum lyfjaefnum. Það er t.d. mögulegt að hanna slíkt efni þannig að ákveðinn hluti þess sjái um virkni gegn örverum en annar sjái um að ferja lyfjavirka efnið þangað sem þörfin er mest,“ segir Már Másson, prófessor við Lyfjafræðideild, en hann er leiðbeinandi Priyönku.

„Ég stefni að því að smíða afleiður kítósans sem hafa líka byggingu og örverudrepandi peptíð og ég kanna möguleg not þessara nýju efna til lækninga og sótthreinsunar,“ segir Priyanka.

Örverudrepandi peptíð eru hluti af vörnum líkamans gegn sýkingum. Lyfjaefni sem byggjast á eðli þeirra kunna að koma að haldi í framtíðinni sem breiðvirk sýklalyf. Það er æ meira aðkallandi að finna ný breiðvirk sýklalyf sem leysa af hólmi þau hefðbundnu og vinna þannig gegn sýklalyfjaónæmi.

„Efnafræðilegir eiginleikar peptíða eru hins vegar ekki mjög heppilegir því að peptíð eru mjög viðkvæm. Sérstök ensím í líkamanum hvata niðurbroti þeirra, þau geta líka valdið ónæmissvari auk þess sem þau eru dýr í framleiðslu,“ segir Már Másson. „Þróunin hefur því beinst í þá átt að þróa einfaldari efni sem eru auðveldari í framleiðslu, eins og kítósanafleiðurnar. Þær hafa þann kost að geta brotnað niður í lífefni sem eru skaðlaus líkamanum þrátt fyrir að þær séu stöðugri en peptíðin. Þessi lífefni eru í raun eins og þau sem fyrir eru í líkamanum,“ segir Már.

Priyanka segir að þeim Má hafi tekist að smíða nýjar afleiður kítósans sem innihalda efnahópa sem líkjast mjög þeim sem eru einkennandi fyrir örverudrepandi peptíð. „Ég hef sýnt fram á virkni þessara efna gegn örverum sem eru þekktir sjúkdómsvaldar í mönnum. Þetta hef ég gert í samstarfi við Mörthu Á. Hjálmarsdóttur, lektor í lífeindafræði. Við munum halda áfram og smíða fleiri afleiður með fjölbreytilega byggingu. Hugmyndin er að þróa þannig efni sem eru mjög virk gegn sýklum en hafa jafnframt mjög væg eituráhrif á frumur líkamans. Þessi efni má nota til að meðhöndla erfiðar sýkingar því að sýklar geta ekki auðveldlega orðið ónæmir fyrir þeim. Þessi efni mætti einnig nota til sótthreinsunar á lækningabúnaði.“