Háskóli Íslands

Ótrúlegar vinsældir Nonna litla

Helga Birgisdóttir

Helga Birgisdóttir,doktorsnemi í íslensku

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á barnabókmenntum, fyrst sem ungur lesandi og síðan sem íslenskunemi. Það var þó ekki fyrr en í doktorsverkefninu sem ég ákvað að sérhæfa mig á þessu sviði. Persónulegur áhugi minn stýrði ekki einn þessu vali heldur einnig sú staðreynd að þetta er alþjóðlegt fræðasvið í vexti. Sérfræðingar á sviði barnabókmennta eru hins vegar sárafáir hér á landi og fjölmargar frumrannsóknir á íslenskum barnabókmenntum vantar. Áhuginn er vaxandi en ég vona að verkefnið mitt muni eiga þátt í að efla og auka fjölbreytni í þessum rannsóknum," segir Helga Birgisdóttir, sem vinnur að doktorsrannsókn í íslenskum bókmenntum á einum af fyrstu íslensku barnabókunum - Nonnabókum Jóns Sveinssonar (1857-1944).

Jón Sveinsson yfirgaf Ísland 12 ára gamall og bjó alla tíð í Evrópu en hann skrifaði Nonnabækurnar tólf um æsku sína á Íslandi og ferðalög. Bækur hans hafa vakið mikinn áhuga barna á Íslandi og víða í Evrópu en þær hafa verið þýddar á um 40 tungumál, seldar í yfir 7 milljónum eintaka og Jón flutti rúmlega 4000 fyrirlestra um ævintýri bernsku sinnar. 

„Það eru meðal annars vinsældir Nonnabókanna sem ég rannsaka og tengsl þeirra við íslenska og evrópska barnabókmenntahefð. Þannig tengist rannsókn á bókum sem höfðu gríðarleg áhrif á íslenskar barnabókmenntir, allt til dagsins í dag, rannsókn á áhrifum evrópskra barnabókmennta á verk íslensks höfundar. Við sjáum að barnabókmenntir eru ekki einangrað svið heldur alþjóðlegt sem íslenskir fræðimenn eiga fullt erindi inn á," segir Helga.

Leiðbeinandi: Dagný Kristjánsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild 

Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is