Háskóli Íslands

Ölvunarakstur veldur miklum samfélagslegum skaða

Helgi Gunnlaugsson

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í Félags- og mannvísindadeild

„Ölvunarakstur veldur miklum samfélagslegum skaða. Við viljum vita hvað hægt er að gera til að draga úr áhættuhegðun af þessu tagi, sem veldur banaslysum, meiðslum, eignatjóni og fleiru,“ segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Helgi vinnur nú, ásamt Ágústi Mogensen doktorsnema, að rannsókn á viðhorfi Íslendinga til ölvunaraksturs.

„Síðustu árin hef ég mælt viðhorf Íslendinga til afbrota og refsinga í samvinnu við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Ég byrjaði mælingarnar 1989 og hef haldið þeim áfram fram á þennan dag. Meðal annars hefur komið í ljós að meirihluti Íslendinga álítur vímuefnaneyslu vera alvarlegasta afbrotið í íslensku samfélagi,“ segir Helgi.

„Fleiri telja hana meira vandamál en auðgunarbrot, ofbeldi eða efnahagsbrot. Vímuefnaneysla er oftast nefnd og hún virðist valda verulegum áhyggjum hjá Íslendingum. Í kjölfarið höfum við spurt; „hverja telurðu mikilvægustu ástæðu þess að fólk leiðist út í afbrot á Íslandi?

Og þá kemur sama afstaðan fram, svarendur álíta að mikilvægasta ástæðan sé áfengis- og fíkniefnaneysla.“

Tíðni ölvunaraksturs há á Íslandi
Í kjölfarið á niðurstöðum af þessu tagi hefur Helgi skoðað lögbrot sem tengjast áfengis- og fíkniefnaneyslu á Íslandi.

„Ég hef verið að skoða til dæmis handtökur lögreglu vegna áfengisneyslu, tíðni ýmissa fíkniefnabrota, aðferðir lögreglu við að uppræta þau, forvarnarstarf og fleira. Fyrir tveimur árum kom Ágúst með tillögu að doktorsverkefni um ölvunarakstur sem mér leist strax vel á,“ segir Helgi.

„Ágúst er forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa og efnið stendur honum því nærri. Við skoðum meðal annars lagalegar skilgreiningar á ölvunarakstri, málsmeðferð í kerfinu og aldur og einkenni þeirra sem teknir eru fyrir brotið.

Jafnframt skoðum við hvernig Ísland kemur út í samanburði við önnur lönd og það sem við höfum fundið er að tíðni ölvunaraksturs á Íslandi er frekar há í alþjóðlegum samanburði.

Fjöldi handtekinna ökumanna hefur t.d. verið hærri hér á landi en á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum.

Málaflokkurinn er því greinilega ofarlega á forgangslista stjórnvalda og kemur heim og saman við það hversu alvarlegt mál við teljum neyslu áfengis og vímuefna vera.“

Viðtöl við ölvaða ökumenn
„Í rannsókninni höfum við tekið viðtöl við ökumenn í kjölfar þess að þeir hafa verið handteknir vegna gruns um ölvunarakstur,“ segir Helgi. „Þetta er nokkuð vandasöm nálgun. Strax eftir skýrslutöku hjá lögreglu bauðst ökumönnunum val um hvort þeir vildu ræða við okkur.

Það þekkist í félagsfræði að taka viðtöl við virka brotamenn. Oftast þó löngu eftir brotið og þeir látnir rifja upp atvikið. En þarna vorum við með þá glóðvolga og langflestir höfðu áhuga á að svara spurningum okkar.

Þetta voru spurningar um hvernig það bar til að þeir óku ölvaðir, bakgrunn þeirra, ákvarðanatöku, félagslegar kringumstæður, mat á áhættu, afstöðu til lögreglu og fleira.“

Helgi og Ágúst hafa einnig tekið viðtöl við reynda lögreglumenn um hvaða augum þeir líta ölvunarakstur, hvaða aðferðum þeir beita og hver upplifun þeirra sé af brotunum.

Í lokahluta verksins munu Helgi og Ágúst leggja fram spurningakönnun um viðhorf Íslendinga til ölvunaraksturs. „Við ráðgerum að spyrja Íslendinga hvort þeir hafi ekið ölvaðir, hafi verið handteknir fyrir ölvunarakstur, þekki viðurlögin við brotinu og hvort þeim finnist þau of væg eða of hörð.

 Við viljum komast að því hversu alvarlegt Íslendingum finnst að aka ölvaður,“ segir Helgi. „Það er ýmislegt sem bendir til að brotið sé vanmetið í opinberum gögnum, að ölvunarakstur sé tíðari en við höldum.“

Margar ástæður fyrir ölvunarakstri
Helgi segir rannsakendur oft tengja ölvunarakstur við áfengisvandamál. „Okkur grunar að málið sé flóknara. Þarna komi inn fleiri þættir, félagslegir, aðstæður á vettvangi, hvað kemur upp og hvort önnur samgöngutæki séu í boði.

Við teljum að ýmislegt í umhverfinu geti aukið líkurnar á því að menn aki ölvaðir, eða dregið úr líkunum á því,“ segir Helgi. „Stundum koma upp deilur í skemmtanahaldi, til dæmis meðal hjóna eða í vinahópi, og fólk reynir að koma sér fljótt burt.

Ölvunarakstur er stundum byggður á skyndilegri ákvörðun. Aðstæður meðal ungmenna, til dæmis þegar einn tekur að sér að vera allsgáður ökumaður, en fellur svo fyrir hópþrýstingi um að fá sér drykk. Þetta eru félagslegir þættir sem geta ýtt undir ölvunarakstur.“

 Helgi og Ágúst gera ráð fyrir að verkefninu ljúki fyrir árslok 2009. Áhugasamir geta lesið brot úr rannsókninni í ritinu Rannsóknir í félagsvísindum VIII, sem kom út í desember 2007.

Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is