Skip to main content
21. júlí 2015

Landbúnaður og fuglalíf

„Fuglar eru órjúfanlegur hluti af íslenskum vistkerfum og Íslendingar hafa undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar þeim til verndar. Þekkingu á tengslum fuglastofna og landnotkunar hér er þó verulega ábótavant svo að hægt sé að byggja verndaraðgerðir á vísindalegri þekkingu og veita ráð um landnotkun.“ Þetta segir Lilja Jóhannesdóttir doktorsnemi, sem rannsakar nú tengsl landbúnaðar og fuglalífs á Íslandi. Hún segir að mófuglastofnar um heim allan hafi orðið fyrir verulegum afföllum sem rekja megi til breyttrar landnotkunar. „Þessi breytta notkun stafar ekki hvað síst af aukinni ákefð í landbúnaði.“ 

Að mati Lilju er landnotkun á Íslandi enn nokkuð sérstæð því að landið er dreifbýlt „og ákefð í landbúnaði ekki enn jafnmikil og víða erlendis. Þessi sérstaða veitir okkur einstakt tækifæri til að stýra landnotkuninni þannig að hún fari sem best saman við náttúruvernd.“

Lilja segir að þessi sérstaða okkar geti líka verið öðrum þjóðum hvatning til að endurheimta aðstæður sem séu hagfelldar villtu dýralífi. „Víðast í nágrannalöndum er búið að ganga svo nærri landi að úthagi er lítill sem enginn. Hér er hins vegar enn þá hægt að sjá hvaða áhrif samspil lítt spilltrar náttúru og ræktaðs lands hefur á afkomu fuglastofna. Þetta hjálpar til við að sjá hvernig breyta þyrfti landslagi í öðrum löndum til að endurheimta hnignandi fuglastofna,“ segir Lilja. Í rannsókninni skoðar Lilja þéttleika og dreifingu fugla á svæðum sem hafa orðið fyrir mismiklum áhrifum frá landbúnaði, allt frá túnum og ökrum til úthaga. „Einnig legg ég spurningalista fyrir bændur um viðhorf þeirra til verndar fuglalífs og hvernig landnýtingu þeirra er háttað.“ 

Verkefnið hófst á vordögum 2013 og hefur farið fram við Rannsóknasetur Háskóla Íslandsá Suðurlandi. Að sögn Lilju gefur frumúrvinnsla gagnanna ástæðu til bjartsýni á að rannsóknin nýtist til að skýra tengsl landbúnaðar og fuglalífs. „Samkvæmt fyrstu gögnum virðist vera munur á því hvernig fuglar nýta svæði eftir því hversu mikilla landbúnaðaráhrifa gætir og það virðist vera breytilegt eftir landshlutum hvernig þessi munur er. Með meiri gögnum má kafa dýpra í þessi tengsl. Spurningalistinn leiddi í ljós að undantekningalítið skiptir fuglalíf bændur máli og þeir hafa áhuga á að landbúnaður sé í sátt við umhverfið.“ 

Leiðbeinendur Lilju eru Tómas Grétar Gunnarsson forstöðumaður og José A. Alves sérfræðingur, báðir við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi, og Jennifer A. Gill, dósent við East Anglia háskóla. 

Lilja Jóhannesdóttir doktorsnemi rannsakar tengsl landbúnaðar og fuglalífs á Íslandi.
Lilja Jóhannesdóttir doktorsnemi rannsakar tengsl landbúnaðar og fuglalífs á Íslandi.