Skip to main content
5. júlí 2015

Ólympíulandslið í raungreinum æfa í Háskóla Íslands

Landsliðin í eðlisfræði, efnafræði og stærðfræði hafa undanfarnar vikur búið sig undir Ólympíumót í greinunum með stífum æfingum í húsakynnum Háskóla Íslands. Eitt af síðustu verkum fráfarandi rektors, Kristínar Ingólfsdóttur, var að taka á móti hópunum áður en þeir lögðu af stað í langferð á keppnisstað.

Landsliðin í greinunum þremur skipa framhaldsskólanemar sem stóðu sig hvað best í landskeppni í greinunum sem fram fóru síðastliðinn vetur. 

Föstudaginn 26. júní kom Ólympíulandsliðið í eðlisfræði við í Aðalbyggingu og heilsaði upp á þáverandi rektor. Landsliðið skipa þau Gunnlaugur Helgi Stefánsson, Kristín Björg Bergþórsdóttir, Matthías B. Harksen, Rúnar Unnsteinsson og Valtýr Kári Daníelsson en þess má geta að Gunnlaugur og Kristín fengu á dögunum styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands sem veittur er nýnemum sem hafa náð afburðagóðum árangri á stúdentsprófi og innritast í Háskóla Íslands. 

Skipulagning þátttöku og þjálfunar er í höndum Viðars Ágústssonar og Ingibjargar Haraldsdóttur, umsjón með bóklegri þjálfun liðsins hefur verið verður í höndum Viðars og eðlisfræðinemans Sigtryggs Haukssonar og verkleg þjálfun í höndum Ara Ólafssonar, dósents í eðlisfræði. Auk þeirra koma nokkrir kennarar og nemendur við Háskóla Íslands til viðbótar að þjálfuninni. Landsliðið tekur þátt í Ólympíumótinu í eðlisfræði dagana 5.-12. júlí í Mumbai á Indlandi og verða fararstjórar þeir Viðar Ágústsson og Sigtryggur Hauksson. 

Mánudaginn 29. júní tóku landsliðin í efnafræði og stærðfræði hús á þáverandi rektor en þau eru einnig á leið utan í mánuðinum.

Landsliðið í efnafræði skipa þau Arnór Jóhannsson, Úlfur Ágúst Atlason,Stefanía Katrín J. Finnsdóttir og Tómas Viðar Sverrisson en þjálfari og liðsstjóri er Katrín Lilja Sigurðardóttir, aðjúnkt í efnafræði við Háskóla Íslands. Már Björgvinsson, efnafræðikennari við Menntaskólann í Reykjavík, er einnig þjálfari. Þjálfun liðsins hefur farið fram í VR-I undanfarnar vikur og heldur hópurinn út seinni part mánaðar til þátttöku í Ólympíumótinu í efnafræði sem fara fram í Baku í Aserbaídsjan dagana 20.-29. júlí.

Landsliðið í stærðfræði skipa Dagur Tómas Ásgeirsson, Garðar Andri Sigurðsson, Hjalti Þór Ísleifsson, Jóhann Ólafur Sveinbjarnarson, Atli Fannar Franklín, Elvar Wang Atlason og 

Lilja Ýr Guðmundsdóttir. Alls koma hátt í tíu leiðbeinendur að þjálfun liðsins en þar er um að ræða háskólakennara og framhaldsskólakennara. Dómnefndarfulltrúi verður Marteinn Þór Harðarson og fararstjóri hópsins er Jóhanna Eggertsdóttir. Hópurinn hefur verið við æfingar frá upphafi júnímánaðar á háskólasvæðinu en hann heldur til Chiang Mai í Taílandi til að taka þátt í Ólympíumótinu í stærðfræði dagana 8. til 16. júlí.

Háskóli Íslands óskar keppendunum öllum góðs gengis á Ólympíumótunum.

Ólympíulandsliðið í eðlisfræði ásamt þjálfurum og þáverandi rektor Háskólans.
Ólympíulandsliðið í efnafræði ásamt þjálfurum og þáverandi rektor.
Hluti Ólympíuliðsins í stærðfræði ásamt þjálfurum og þáverandi rektor HÍ.
Ólympíulandsliðið í eðlisfræði ásamt þjálfurum og þáverandi rektor Háskólans.
Ólympíulandsliðið í efnafræði ásamt þjálfurum og þáverandi rektor.
Hluti Ólympíuliðsins í stærðfræði ásamt þjálfurum og þáverandi rektor HÍ.