Skip to main content

Háskólaráðsfundur 4. júní 2015

08/2015

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2015, fimmtudaginn 4. júní var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Ebba Þóra Hvannberg, Eiríkur Rögnvaldsson, Iðunn Garðarsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Kjartan Þór Eiríksson (varamaður fyrir Tómas Þorvaldsson), Margrét Hallgrímsdóttir, Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir og Stefán Hrafn Jónsson. Orri Hauksson boðaði forföll. Fundinn sátu einnig Elín Blöndal, Jón Atli Benediktsson, Þórður Kristinsson og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð. 

Rektor setti fundinn og bauð nýkjörinn rektor Háskóla Íslands, Jón Atla Benediktsson, sérstaklega velkominn á fundinn.  Rektor greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Rektor og Elín Blöndal tilkynntu að þær myndu ekki taka þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 8, en að öðru leyti taldi enginn sig vanhæfan til taka þátt í meðferð máls á dagskrá fundarins. Ebba Þóra Hvannberg óskaði eftir að bera upp spurningu í tengslum við dagskrárlið 10b, en að öðru leyti voru engar athugasemdir gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. 

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.

a) Umsóknarfresti um nám í Háskóla Íslands háskólaárið 2015-2016 lýkur á morgun, föstudaginn 5. júní. Sérstakt átak til að fjölga nemendum í kennaranámi og tæknigreinum virðist hafa skilað árangri því miðað við fjölda umsókna á sama tíma fyrir ári hefur umsækjendum um nám í Kennaradeild fjölgað talsvert. Af tæknigreinum er mesta fjölgun umsókna í Rafmagns- og tölvuverkfræðideild.

b) Árlegur samráðsfundur Háskóla Íslands og Félags íslenskra framhaldsskóla var haldinn 11. maí sl. Á dagskrá fundarins að þessu sinni var endurskipulagning framhaldsskólans og möguleg áhrif á undirbúning nemenda fyrir háskólanám.

c) Dagana 14.-15. maí sl. var haldinn fundur menntamálaráðherra aðildarríkja Bologna-ferlisins í Yerevan í Armeníu. Fundinn sóttu ráðherrar og fulltrúar háskóla 47 landa, en Ísland og Lettland fara sameiginlega með formennsku til 30. júní nk. Stúdentar tóku virkan þátt í fundinum. Rektor Háskóla Íslands sótti fundinn sem formaður samstarfsnefndar háskólastigsins.

d) Hinn 18. maí sl. funduðu rektor, aðstoðarrektor og framkvæmdastjóri Háskóla Íslands með erlendum sérfræðingahópi í tengslum við yfirstandandi úttekt Norrænu ráðherranefndarinnar á Norræna eldfjallasetrinu vegna breytinga á fjármögnun setursins.

e) Dagana 21.-22. maí sl. var haldin við Háskóla Íslands ráðstefnan Third Global Doctoral Forum á vegum Samtaka evrópskra háskóla (European University Association, EUA).

f) Hinn 26. maí sl. var haldinn kynningarfundur um Tutor-web kennslukerfið sem þróað hefur verið við Verkfræði- og náttúruvísindasvið og þjónar m.a. kennslu í stærðfræði og tölfræði fyrir nemendur í verkfræði- og raungreinum, gefur tækifæri til að auka stærðfræðiþekkingu nemenda og kennara á öðrum fræðasviðum og getur nýst sem almenn umgjörð um opna vefkennslu við Háskóla Íslands.

g) Hinn 27. maí sl. var úthlutað úr verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar læknis sem stofnaður var af Bent Scheving Thorsteinssyni, en markmið sjóðsins er að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga. Að þessu sinni voru verðlaunuð verkefni sem snúa að börnum er glíma við offitu og fjölskyldum þeirra og rannsóknarverkefni um fæðuofnæmi hjá íslenskum börnum.

h) Í undirbúningi er stofnun minningarsjóðs um Ingjald Hannibalsson prófessor sem lést á síðasta ári fyrir aldur fram og eftirlét Háskóla Íslands allar eigur sínar. Að vilja Ingjalds mun sjóðurinn hafa það hlutverk að styrkja efnilega íslenska námsmenn til framhaldsnáms erlendis í rekstrarstjórnun, alþjóðlegum viðskiptum eða tónlist.

i) Í síðustu viku var haldinn fundur með bandarískum fjárfesti og sérfræðingi í sprotafyrirtækjum, þar sem kynnt voru fjögur verkefni sem sprottin eru af rannsóknum við Háskóla Íslands og tengjast sprotafyrirtækjum og/eða einkaleyfaumsóknum. Er þetta liður í átaksverkefninu Fjármögnun til framtíðar við Háskóla Íslands. 

j) Undirbúningur samnings Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og hugbúnaðarfyrirtækisins CCP er á lokastigi.

k) Mánudaginn 8. júní nk. verður haldin opin ráðstefna um niðurstöður úttektar Gæðaráðs háskóla á Háskóla Íslands. Ráðstefnan verður haldin í Hátíðasal og hefst kl. 13.30.

l) Vorbrautskráning kandíata frá Háskóla Íslands fer fram í Laugardalshöll 20. júní nk. Eins og verið hefur verður brautskráningin í tvennu lagi og verða framhaldsnemar brautskráðir árdegis og grunnnemar síðdegis. 

m) Dagana 10.-11. júní nk. kemur sendinefnd frá Tsinghua háskóla í Kína í heimsókn til Háskóla Íslands.

n) Hinn 30. júní nk. verður haldin athöfn í Hátíðsal þar sem fram fara rektoraskipti við Háskóla Íslands. 

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.

a) Ársreikningur Háskóla Íslands 2014.

Inn á fundinn kom Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerði grein fyrir ársreikningi Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum ráðsmanna.

– Ársreikningur Háskóla Íslands 2014 samþykktur einróma. 

b) Rekstraryfirlit Háskóla Íslands fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins 2015.

Jenný Bára gerði grein fyrir málinu. Fram kom að rekstrarstaða Háskóla Íslands er í góðu jafnvægi. 

c) Aldarafmælissjóður Háskóla Íslands 2016-2018. Staða mála. 

Fyrir fundinum lá minnisblað rektors til forsætisráðherra um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands, dags. 8. maí 2015. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð svohljóðandi bókun:

„Undanfarna mánuði hefur starfað nefnd sem forsætisráðherra skipaði 24. október 2014 til að fylgja eftir ákvæðum um Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands sem ríkisstjórn Íslands og Alþingi stofnuðu í víðtækri sátt árið 2011. Ráðgert var að nefndin lyki störfum í apríl 2015, en starfið hefur tafist verulega. 

Háskólaráð lýsir miklum vonbrigðum með að nefndinni hafi ekki tekist að ljúka störfum tímanlega.

Fyrir liggur að háskólastigið á Íslandi er verulega vanfjármagnað í öllum alþjóðlegum samanburði. Þrátt fyrir þetta hefur Háskóli Íslands náð afar miklum árangri á undanförnum árum eins og staðfest er í alþjóðlegum mælingum og nýlegri matsskýrslu Gæðaráðs háskóla. Jafnframt er ljóst, eins og fram kemur í umsögn Gæðaráðs, að þessi árangur hvílir á veikum fjárhagslegum grunni og er stefnt í hættu nema til komi auknar fjárveitingar. 

Háskólaráð treystir því að ríkisstjórn Íslands efni ákvæði gildandi stjórnarsáttmála um að staðið verði við ákvæði Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands með það markmið að tekjur Háskóla Íslands verði sambærilegar við tekjur háskóla á öðrum Norðurlöndum. Brýnt er að stjórnvöld beiti sér fyrir því að nefnd um Aldarafmælissjóð og framtíðarfjármögnun Háskóla Íslands ljúki störfum án frekari tafa og að langtímaáætlun liggi fyrir. Niðurstaða nefndarinnar skili sér í auknum fjárveitingum frá og með árinu 2016.“

3. Háskólasvæðið, sbr. síðasta fund.

a) Húsnæði Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands á lóð Landspítala.

b) Framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands 2015-2024.

– Frestað.

4. Niðurstöður 14. háskólaþings 21. maí 2015.

Fyrir fundinum lá minnisblað um niðurstöður og ályktanir 14. háskólaþings 21. maí 2015. 

–  Ályktanir 14. háskólaþings, sem haldið var 21. maí 2015, staðfestar. Í framhaldi af ályktun háskólaþings um þverfræðilega samvinnu samþykkti háskólaráð að væntanlegar tillögur starfshóps ráðsins um þverfræðilega samvinnu verði sendar til umsagnar fræðasviða, deilda og starfsnefnda háskólaráðs og komi svo til umfjöllunar ráðsins á komandi haustmisseri. 

5. Árangur starfs háskólaráðs 2014-2015.

a) Álit nefndar háskólaráðs um störf ráðsins á liðnu háskólaári.

Ebba Þóra Hvannberg, varaforseti háskólaráðs og formaður nefndar háskólaráðs um störf ráðsins á liðnu starfsári, gerði grein fyrir áliti nefndarinnar, en hlutverk hennar er að rýna vinnubrögð ráðsins og leggja eftir atvikum til umbætur á starfsháttum þess. Málið var rætt og tekið undir þær ábendingar sem settar eru fram í álitinu. 

– Sameiginlegri stjórnsýslu falið að undirbúa útfærslu og framkvæmd tillagnanna. Starfsreglur háskólaráðs verði uppfærðar til samræmis á fundi ráðsins í september nk., sbr. 11. gr. starfsreglnanna.

b) Árangur starfsáætlunar háskólaráðs 2014-2015. Yfirlit.

Fyrir fundinum lá ítarlegt yfirlit um framkvæmd og stöðu starfsáætlunar háskólaráðs fyrir starfsárið 2014-2015. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. 

6. Málefni stundakennara við Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 10. apríl sl. Drög að tillögu til umsagnar viðeigandi aðila.

Fyrir fundinum lágu drög að tillögum starfshóps um málefni stundakennara við Háskóla Íslands og gerði Elín Blöndal grein fyrir þeim. Málið var rætt og svaraði Elín spurningum ráðsmanna. 

– Samþykkt að vísa tillögum nefndarinnar til umsagnar Hagstundar, fræðasviða, kennslumálanefndar, gæðanefndar, jafnréttisnefndar, Miðstöðvar framhaldsnáms, Félags háskólakennara og Félags prófessora í ríkisháskólum. Umsögnum verði skilað fyrir 1. september nk. Einnig samþykkti háskólaráð að í framhaldinu verði hafinn undirbúningur að vinnu við greiningu á réttarstöðu aðjúnkta. 

7. Aðgerðaráætlun um eftirfylgni með ytri matsskýrslu um árangur sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og stöðu kennaramenntunar, sbr. fund ráðsins 4. desember sl. Staða mála. 

Inn á fundinn kom Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, og gerði grein fyrir stöðu framlagðrar aðgerðaráætlunar um eftirfylgni með ytri matsskýrslu um árangur sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og stöðu kennaramenntunar, dags. 29. maí 2015. Málið var rætt og svaraði Jóhanna spurningum fulltrúa í háskólaráði.

8. Afgreiðsla tveggja kærumála, sbr. fund ráðsins 10. apríl sl.

Inn á fundinn komu Kristín Benediktsdóttir, lögfræðingur og lektor við Lagadeild og Sigurlaug Kristín Jóhannsdóttir, lögfræðingur starfsmannasviðs. Rektor og Elín Blöndal viku af fundi undir þessum dagskrárlið og tók Ebba Þóra Hvannberg við fundarstjórn. Fyrst var tekin fyrir kæra Egils B. Hreinssonar prófessors og var málið rætt.

– Samþykkt einróma framlögð tillaga um afgreiðslu málsins með þeim úrskurði að því verði vísað frá háskólaráði þar sem það fellur ekki undir starfssvið þess. Samkvæmt úrskurðinum verður málið framsent til rektors sem er réttur aðili til að fjalla um það. Jafnframt samþykkti háskólaráð að fela Ebbu Þóru Hvannberg að undirrita úrskurðinn fyrir hönd ráðsins. 

Næst var tekin fyrir kæra Jóhönnu Thelmu Einarsdóttur dósents, Steinunnar Helgu Lárusdóttur dósents og Þuríðar Jóhannsdóttur dósents. Málið var rætt. 

– Samþykkt einróma framlögð tillaga um afgreiðslu málsins með þeim úrskurði að því verði vísað frá háskólaráði þar sem það fellur ekki undir starfssvið þess. Jafnframt samþykkti háskólaráð að fela Ebbu Þóru Hvannberg að undirrita úrskurðinn fyrir hönd ráðsins.

Fundarhlé

Að lokinni umfjöllun um dagskrárlið 8 var gert stutt hlé á fundinum. Þar sem þessi háskólaráðsfundur var sá síðasti sem Kristín Ingólfsdóttir stýrir þakkaði hún fulltrúum í háskólaráði fyrir ómetanleg störf þeirra fyrir ráðið og Háskóla Íslands. Einnig þakkaði rektor starfsmönnum sameiginlegrar stjórnsýslu sem tekið hafa þátt í undirbúningi og eftirfylgni með fundum ráðsins. Sagðist rektor kveðja háskólaráð með þakklæti og söknuði um leið og hún lýsti þeirri sannfæringu sinni að Háskóli Íslands yrði í traustum og góðum höndum Jóns Atla Benediktssonar, verðandi rektors. Ebba Þóra Hvannberg færði rektor blómvönd og kveðjugjöf frá háskólaráði og þakkaði henni fyrir að hafa veitt Háskóla Íslands framúrskarandi forystu síðastliðinn áratug. 

9. Aðalfundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 2014, skv. gr. 3.2 í samþykktum félagsins.

Rektor greindi frá því að undir þessum lið færi fram aðalfundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. (VGHÍ) fyrir árið 2014, skv. gr. 3.2 í samþykktum félagsins. Inn á fundinn komu Hilmar Bragi Janusson, formaður stjórnar VGHÍ og Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri félagsins, Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar, en hann er fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn VGHÍ. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, var gestur fundarins.

Hilmar Bragi setti aðalfundinn og lagði til að rektor tæki við fundarstjórn og að fundarritari háskólaráðs annaðist ritun fundargerðar aðalfundarins. Var það samþykkt.

Samkvæmt gr. 3.2 í samþykktum VGHÍ eru eftirfarandi mál á dagskrá aðalfundar félagsins:

1. Stjórn félagsins skýrir frá hag félagsins og rekstri þess á liðnu starfsári.

Hilmar Bragi Janusson gerði ítarlega grein fyrir starfsemi félagsins og rekstri þess á liðnu starfsári. Að framsögu Hilmars Braga lokinni var málið rætt og svaraði hann spurningum.

– Skýrsla stjórnar VGHÍ samþykkt einróma.

2. Ársreikningur ásamt athugasemdum endurskoðanda lagður fram til samþykktar.

Hilmar Bragi og Eiríkur fóru yfir ársreikning og svöruðu fyrirspurnum er fram komu.

– Ársreikningur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. fyrir árið 2014 samþykktur einróma.

3. Kosning stjórnar félagsins og endurskoðanda eða skoðunarmanna.

Fyrir fundinum lá tillaga um að stjórn VGHÍ verði þannig skipuð til næsta aðalfundar: Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, formaður. Aðrir í stjórn: Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri markaða hjá Landsbankanum hf., Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar, Sigurður Magnús Garðarsson prófessor og Steinunn J. Kristjánsdóttir prófessor. Til vara: Sigríður Ólafsdóttir, sviðsstjóri eftirlitssviðs hjá Lyfjastofnun (1. varamaður) og Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands (2. varamaður).

– Samþykkt einróma.

Ríkisendurskoðun annist endurskoðun ársreiknings.

– Samþykkt einróma.

4. Ákvörðun um hvernig fara skal með hagnað eða tap og um arð og framlög í varasjóð.

Samkvæmt samþykktum VGHÍ má einungis ráðstafa hagnaði og eignum þess í þágu tilgangs félagsins og er ekki heimilt að taka hagnað eða arð út úr félaginu. 

5. Ákvörðun um greiðslur til stjórnarmanna fyrir störf þeirra á starfsárinu.

Fyrir fundinum lá tillaga um að stjórnarmönnum verði greidd stjórnarlaun að upphæð 51.000 kr. á mánuði.

– Samþykkt einróma.

6. Önnur mál löglega upp borin.

Áslaug Friðriksdóttir spurði stjórnarmenn um helstu verkefni félagsins framundan. Svaraði Hilmar Bragi og reifaði helstu stefnumótunar- og framkvæmdarverkefni VGHÍ sem eru á döfinni og greindi frá vaxandi áhuga atvinnulífsins á VGHÍ. 

Í lok aðalfundar þökkuðu rektor, borgarstjóri og fulltrúar í háskólaráði stjórn VGHÍ fyrir framúrskarandi störf. Hilmar þakkaði fráfarandi rektor fyrir ómetanlegan stuðning við málefni VGHÍ.

Fleira var ekki gert. Aðalfundi Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 2014 slitið.

10. Bókfærð mál.

a) Drög endurnýjaðs samstarfssamnings Háskóla Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

– Samþykkt.

b) Tillaga starfsmannasviðs og vísinda- og nýsköpunarsviðs að breytingum á nokkrum ákvæðum í III. kafla reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009, er varða aðlögun að breyttum lögum og skilvirkni í framkvæmd.

– Samþykkt. Ebba Þóra Hvannberg óskaði eftir því að háskólaráð fengi yfirlit um hversu langan tíma það hefur tekið að vinna valnefndarálit á síðasta háskólaári og mun vísinda- og nýsköpunarsvið leggja fram slíkt yfirlit á fundi ráðsins í september nk. 

c) Erindi vegna fjárhagsáætlunar fyrir MBA-nám í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands 2015-2017. 

– Samþykkt.

d) Tillaga Félagsvísindasviðs að endurskoðuðum reglum um doktorsnám við Félagsvísindasvið nr. 500/2011.

– Samþykkt.

e) Formaður vísindanefndar háskólaráðs.

– Samþykkt að nýr formaður vísindanefndar verði Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor við Félagsvísindasvið. Tekur hún við af Ármanni Jakobssyni, prófessor við Hugvísindasvið, sem hefur beðist lausnar frá formennsku vegna anna. Skipunartími Guðbjargar Lindu er frá 1. júlí 2015 til loka skipunartíma núverandi nefndar 30. júní 2017.

11. Mál til fróðleiks.

a) Dagskrá rektoraskipta 30. júní 2015.

b) Dagskrá ráðstefnu um niðurstöðu ytra mats á Háskóla Íslands á vegum Gæðaráðs háskóla 8. júní 2015.

c) Sjálfbærni- og umhverfisnefnd.

– Nefndina skipa Ólafur Páll Jónsson, dósent við Menntavísindasvið, formaður, Maximillian Conrad, lektor við Félagsvísindasvið (varamaður: Lára Jóhannsdóttir, lektor í umhverfis- og auðlindafræði), Katrín Björg Jónasdóttir, upplýsinga- og vefstjóri við Heilbrigðisvísindasvið (varamaður: Ingunn Eyþórsdóttir, upplýsingastjóri Heilbrigðisvísindasviðs), Rannveig Ólafsdóttir, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, Sigurlaug I. Lövdahl, skrifstofustjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands, Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor við Hugvísindasvið og Sunna Mjöll Sverrisdóttir, meistaranemi í umhverfis- og byggingarverkfræði, fulltrúi stúdenta. Skipunartími nefndarinnar er til ársins 2017.

d) Stefna Rannsóknasetra Háskóla Íslands.

e) Eyðing gagna um kosningaþátttöku og atkvæðagreiðslu í rektorskosningum 2015, sbr. 14. gr. verklagsreglna um framkvæmd rafrænnar kosningar til embættis rektors Háskóla Íslands.

f) Ársskýrsla Rannsókna- og háskólanets Íslands hf. 2014.

g) Bréf Háskóla Íslands til umboðsmanns Alþingis, dags. 29. maí 2015.

h) Samkomulag um samstarf fræðasviða og deilda Háskóla Íslands og deilda Háskólans á Akureyri um nám á meistarastigi í greinum sem báðir háskólar hafa viðurkenningu til að bjóða.

h) Yfirlýsing menntamálaráðherra aðildarríkja Bologna-ferlisins í Yerevan 14.-15. maí 2015.

i) Stjórn nýliðunarsjóðs.

– Stjórnina skipa Sigurbjörn Árni Arngrímsson, prófessor við Menntavísindasvið, formaður, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, lektor við Félagsvísindasvið (varamaður: Ólafur Rastrick lektor), Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið, Hjalti Hugason, prófessor við Hugvísindasvið (varamaður: Birna Arnbjörnsdóttir prófessor), Ingibjörg Harðardóttir, prófessor við Heilbrigðisvísindasvið (varamaður: Árni Kristjánsson prófessor) og Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið (varamaður: Valentina G. Puletti dósent). Með stjórninni starfa Sverrir Guðmundsson og Sólveig Nielsen á vísinda- og nýsköpunarsviði. 

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 16.10. 

Að loknum fundi var farið í skoðunarferð um byggingu lyfjaþróunarseturs Alvotech sem er í smíðum á Vísindagarðalóðinni og tekur til starfa í haust.