Skip to main content
5. mars 2015

Styrkur í íþrótta- og heilsufræðum á Menntavísindasviði

""

Veglegur þriggja ára verkefnistyrkur samtals að upphæð 30 milljónir króna kom í hlut Rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands á dögunum þegar Rannsóknasjóður Íslands (Rannís) úthlutaði styrkjum. Styrkurinn rennur til rannsóknarverkefnisins „Heilsuhegðun ungra Íslendinga“.

Markmið rannsóknarinnar er að skoða stöðu og langtímabreytingar á heilsufari, hreyfingu, þreki og lifnaðarháttum 15 og 17 ára unglinga (fædd 1999) og meta samband þessara þátta við beinheilsu, námsárangur og svefn. Úrtak rannsóknarinnar samanstendur af þátttakendum úr rannsókninni „Lífsstíll 7-9 ára íslenskra barna“ sem framkvæmd var árið 2006 og 2008 þegar þátttakendur voru sjö og níu ára. Gögnum verður safnað 2015 og 2017, en þá eru þátttakendur í 10. bekk grunnskóla og á öðru ári í framhaldsskóla. Þrír doktorsnemar og fimm meistaranemar munu vinna við gagnasöfnun og framkvæmd þessa verkefnis á næstu þremur til fimm árum.

Þetta er 14. rannsóknarstyrkurinn til Rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræði frá Rannís á síðustu 10 árum, þar af eru fimm verkefnisstyrkir til þriggja ára.

Styrkir Rannís og fjármunir tengdir þeim hafa á undanförnum árum verið notaðir til auka þekkingu á heilsufari, velferð og lifnaðarháttum fólks, ekki síst barna og ungmenna, og um leið hafa verið settar fram ráðleggingar um forvarnir og aðgerðir sem nýst hafa mennta- og heilbrigðisyfirvöldum í landinu. Fjölmargir meistara- og doktorsnemar í íþrótta- og heilsufræðum hafa aukinheldur lokið gráðum sínum í gegnum þessi rannsóknaverkefni. Úthlutun Rannís á verkefnisstyrknum á dögunum undirstrikar enn frekar forystu Rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræði á Íslandi í rannsóknum á hreyfingu og heilsu sem og íþróttarannsóknum.

Rannsóknir Rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands hafa aukið þekkingu á heilsufari, velferð og lifnaðarháttum fólks, ekki síst barna og ungmenna, og um leið hafa verið settar fram ráðleggingar um forvarnir og aðgerðir sem nýst hafa mennta- og heilbrigðisyfirvöldum í landinu.
Rannsóknir Rannsóknarstofu í íþrótta- og heilsufræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands hafa aukið þekkingu á heilsufari, velferð og lifnaðarháttum fólks, ekki síst barna og ungmenna, og um leið hafa verið settar fram ráðleggingar um forvarnir og aðgerðir sem nýst hafa mennta- og heilbrigðisyfirvöldum í landinu.