Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 16. október 2008

13/2008

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2008, fimmtudaginn 16. október var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Þórður Sverrisson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Fundargerðir tveggja síðustu funda voru lagðar fram.

1.  Mál á dagskrá

1.1  Nýtt háskólaráð skv. lögum um opinbera háskóla nr.85/2008. Hlutverk og verkefni.
Áður en gengið var til dagskrár bauð rektor nýtt háskólaráð velkomið til starfa og lýsti ánægju sinni með skipan þess. Inn á fundinn kom Jón Atli Benediktsson, þróunarstjóri og aðstoðarmaður rektors. Rektor fór yfir skipan, hlutverk og verkefni háskólaráðs Háskóla Íslands, en nánar verður fjallað um málið á næsta fundi þegar fullskipað háskólaráð kemur saman. Í máli sínu vék rektor sérstaklega að stöðu og ábyrgð Háskólans við breyttar þjóðfélagsaðstæður. Fram kom m.a. í því sambandi að ákveðið hafi verið að framlengja umsóknarfrest fyrir meistaranám til 15. nóvember nk. og að á næstu dögum verði tilkynnt um möguleika til innritunar í grunnnám í janúar nk. Jafnframt lagði rektor áherslu á mikilvægi þess að halda áfram að vinna að framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011. Mikill og góður árangur hafi nú þegar náðst við framkvæmd allra þátta stefnunnar og áframhald þess starfs er mikilvægasta framlag Háskólans til uppbyggingar íslensks þjóðfélags. Málið var rætt.

1.2  Tilnefning tveggja fulltrúa í háskólaráð og tveggja varamanna fyrir þá, sbr. 4. tölul. 3. mgr. og 4. mgr. 6. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008.
Rektor bar upp tillögu um að þau Sigríður Ólafsdóttir, lífefnafræðingur og ráðgjafi og Hilmar B. Janusson, efnafræðingur og framkvæmdastjóri rannsókna- og þróunarsviðs Össurar hf. verði aðalmenn en að varamenn verði tveir í stað eins sameiginlegs varamanns eins og gert er ráð fyrir í lögunum, þau Ragnhildur Geirsdóttir, verkfræðingur og forstjóri Promens og Hörður Arnarson, verkfræðingur og forstjóri Marels. Með þessu verði nýtt Háskólaráð Háskóla Íslands fullskipað.
- Samþykkt einróma.

1.3  Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2009.
Inn á fundinn kom Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerði grein fyrir fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2009 eins og það liggur fyrir. Málið var rætt og svaraði Sigurður framkomnum spurningum og athugasemdum.

1.4  Fjárhagsstaða Háskólans 2008, yfirlit eftir átta mánuði.
Sigurður J. Hafsteinsson gerði grein fyrir framlögðu yfirliti um fjárhagsstöðu Háskóla Íslands eftir fyrstu átta mánuði ársins 2008. Málið var rætt og svaraði Sigurður framkomnum spurningum og athugasemdum.

2.  Erindi til háskólaráðs

2.1  Drög að reglum um aukastörf starfsmanna Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 22. september sl.
- Frestað.

2.2  Tillaga frá viðskiptafræðideild um veitingu heiðursdoktorsnafnbóta.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samþykkt með fyrirvara um staðfestingu fullskipaðs háskólaráðs í kjölfar fundarins. Ráðsmenn töldu mikilvægt að samhliða endurskoðun á reglum Háskóla Íslands, sbr. lið 2.3, verði reglur um veitingu heiðursdoktorsnafnbóta einnig endurskoðaðar.

2.3  Verklag við endurskoðun reglna Háskóla Íslands í kjölfar laga um opinbera háskóla nr. 85/2008.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði um verklag við endurskoðun reglna Háskóla Íslands.
- Samþykkt með fyrirvara um staðfestingu fullskipaðs háskólaráðs í kjölfar fundarins.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.00.